1. desember 2006 | Innlendar fréttir | 563 orð | 1 mynd

NFS öll eftir eitt ár og tíu daga í loftinu

Úti er ævintýri Fréttastofa NFS er öll og fréttastofa Stöðvar 2 er tekin aftur til starfa. Fréttastjórinn segir NFS hafa verið metnaðarfulla tilraun.
Úti er ævintýri Fréttastofa NFS er öll og fréttastofa Stöðvar 2 er tekin aftur til starfa. Fréttastjórinn segir NFS hafa verið metnaðarfulla tilraun. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is NÝJA fréttastofan, NFS, er öll. Síðastliðinn þriðjudag tók fréttastofa Stöðvar 2 við hlutverki hennar.
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

NÝJA fréttastofan, NFS, er öll. Síðastliðinn þriðjudag tók fréttastofa Stöðvar 2 við hlutverki hennar. Rétt rúmt ár er síðan útsendingar NFS hófust, en fyrst í stað var sjónvarpað frá henni margs konar fréttatengdu efni frá morgni til kvölds. Tíu mánuðum síðar, eða í lok september sl., var útsendingum stöðvarinnar hætt, og vinsælustu þættir hennar, fréttir, morgunsjónvarp, fréttaskýringaþættir og spjallþættir, fluttir á Stöð 2. Áfram voru fréttir þó sendar út undir merkjum NFS. Þar til nú í vikunni er fréttastofa Stöðvar 2 tók til starfa á nýjan leik.

"Nú erum við endanlega búin að kveðja þennan kafla í okkar sögu," segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, fréttastjóri Stöðvar 2, um endalok NFS. "Þetta er í rauninni fyrst og fremst nafnabreyting en í tengslum við hana höfum við breytt um leikmynd og útlit. Einnig hafa verið gerðar ýmsar áherslubreytingar í framsetningu. En eftir sem áður er þetta sextíu manna vinnustaður sem sinnir fréttaþjónustu í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum og heldur utan um Ísland í bítið, Kompás og væntanlega fleiri þætti sem munu tengjast okkur í framtíðinni."

Eðlileg tilraun

En er litið svo á að stofnun NFS hafi verið mistök?

"Að mínu viti var hún metnaðarfull og eðlileg tilraun til þess að prófa fréttarás af þessu tagi. Þetta er vitaskuld draumur fréttastjóra að geta þjónustað jafnharðan og hlutirnir gerast. En úthaldið var ekki meira."

Sigmundur Ernir segir að beinar útsendingar verði að miklu leyti á Netinu, í gegnum visi.is, en þegar stærri atburðir gerast verður þeim jafnframt sjónvarpað á Stöð 2. "Við höfum á þessu ári sem NFS var við lýði lært gríðarlega mikið og fengið mikla æfingu í beinum útsendingum og munum búa að henni og hlúa að henni."

Spurður um hvort fréttastöð á borð við NFS eigi von í framtíðinni á Íslandi segir Sigmundur: "Ég held að við séum að gera það rétta núna, að þróa þessa hugmynd í gegnum vefinn. Ég held að það sé rétta leiðin. Fréttavefir eru að þróast mjög í þá átt að tengjast sjónvarpsfréttum. Tölvur eru að verða að sjónvarpi. Ég tel að fréttarásir verði meira og minna aðgengilegar í tölvunum okkar þegar fram líða stundir. Og við veðjum á það."

"Fréttaþyrst þjóð"

Daginn áður en NFS fór í loftið, 18. nóvember á síðasta ári, sagði Sigmundur Ernir, sem með stofnun stöðvarinnar varð fréttastjóri NFS: "Íslendingar eru mjög fréttaþyrst þjóð og þrá það að fá fréttir beint í æð. Við ætlum að svara því kalli, allan daginn." Jafnframt sagði hann: "Það er margt að gerast í íslensku samfélagi og ég er ekki í nokkrum vafa um að það verður auðvelt að fylla þessa þætti og þessa fréttatíma," en fréttum var sjónvarpað á hálftíma fresti bróðurpartinn úr deginum í upphafi.

Í maí á þessu ári leiddi áhorfskönnun IMG Gallup m.a. í ljós að Fréttavaktin fyrir hádegi á NFS mældist með 1,2% áhorf og Hrafnaþing, umræðuþáttur Ingva Hrafns, með 1,2%. Var þá ekki tekið með í reikninginn áhorf á visi.is, þar sem nálgast mátti þætti stöðvarinnar.

Þegar útsendingum NFS var hætt í september sl., og þættir hennar færðir á Stöð 2, sagði Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, mælingar hafa sýnt að fleiri nýttu sér fréttamiðlun á annan hátt en af sjónvarpsskjánum yfir daginn, s.s. í gegnum Netið. Á þeim tímapunkti hafði 20 starfsmönnum NFS verið sagt upp störfum, þar á meðal Róberti Marshall, forstöðumanni stöðvarinnar.

Aðeins fáum vikum síðar var NFS endanlega kippt úr sambandi.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.