2. desember 2006 | Menningarblað/Lesbók | 1314 orð | 2 myndir

Einu sinni var gagnrýni

Gagnrýnandi að störfum Verkið er eftir bandaríska listamanninn Norman Rockwell.
Gagnrýnandi að störfum Verkið er eftir bandaríska listamanninn Norman Rockwell.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margir hafa velt vöngum yfir hlutverki myndlistargagnrýni nú á tímum þegar breyttar áherslur myndlistar hafa snúið henni í átt til hvunndagsins, dægurmenningar, ímyndardýrkunar og jafnvel and-fegurðar.
Margir hafa velt vöngum yfir hlutverki myndlistargagnrýni nú á tímum þegar breyttar áherslur myndlistar hafa snúið henni í átt til hvunndagsins, dægurmenningar, ímyndardýrkunar og jafnvel and-fegurðar. Um þau mál fjallaði ég í greininni "Einu sinni var myndlist" sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins í síðustu viku. Beini ég nú spjótum mínum að gagnrýninni.

Eftir Jón B.K. Ransu

ransu@mbl.is

Sem myndlistargagnrýnandi hef ég reynt að fylgjast með opinberri umræðu um stöðu gagnrýninnar og rekist á ýmis áhugaverð skrif og tekið þátt í upplýsandi samtölum varðandi málið. Á Íslandi hefur verið kvartað yfir veigalítilli myndlistargagnrýni. Enginn útbreiddur fjölmiðill sinnir myndlistargagnrýni að jafnaði nema Morgunblaðið og því eru Íslenskir gagnrýnendur á eintali. Morgunblaðið hefur jafnframt haft þá stefnu að gera skil sem flestum sýningum eða því sem tök er á hverju sinni og þess vegna er oft erfitt fyrir áhugamenn að átta sig á hvað sé mikilvægt í sýningaflórunni. Hér skiptir smæð samfélagsins öllu máli því ennþá er hægt að sinna slíkri stefnu í umfjöllun, að minnsta kosti í Reykjavík og nágrenni. Borið saman við New York, sem dæmi, þá eru yfir 300 gallerí í Chelsea-hverfinu einu og eflaust annað eins þegar önnur hverfi borgarinnar eru tekin með í reikninginn. Að auki er slangur af söfnum sem endurnýja sýningar reglulega. Skrifi einhver gagnrýnandi á tímariti eða dagblaði í borginni um eina af þessum fjölda sýninga þá er það vísun í að eitthvað sé í hana spunnið og hún eigi erindi í myndlistarumræðuna. Sérstaklega ef umfjöllunin birtist í The New York Times, The New Yorker, The Village voice og/eða Time out. Þá erum við að tala um þetta 30-35 sýningar sem hljóta umfjöllun af hverjum 700 sýningum í viðurkenndum sýningarstöðum. Slík staða er víðsfjarri íslenskum veruleika.

Annað sem skiptir ekki síður máli en stefna blaðsins er að lesendur átta sig ekki endilega á mikilvægi sýninga í gagnrýninni sjálfri. Formið á myndlistargagnrýni hefur breyst síðustu áratugina frá því að vera tilraun til að skilgreina myndlist, jafnvel sem "rétta" eða "ranga", yfir í að meta listina á forsendum þess sem er í boði hverju sinni. Við erum því ekki að tala um eitthvert séríslenskt vandamál annað en smæð samfélagsins og áhugaleysi fjölmiðla á að sinna gangnrýni, heldur alþjóðlega stöðu í myndlistargagnrýni sem hefur komið upp í kjölfar breytinga á listrænum áherslum þar sem ótal aðrir þættir en góð og gild teóría, lita- og fagurfræði eða efnistök og aðferðir, skipta máli. Ég er hér að tala um umskiptin frá list yfir í síð-list (post art), sem ég fjallaði um í Lesbókinni í síðustu viku.

Lýsandi gagnrýni

Bandaríkjamaðurinn Arthur C. Danto er hvað þekktastur fyrir að sýna fram á þessi umskipti með því að lýsa yfir endalokum myndlistar. Danto lítur þessi umskipti björtum augum og segir í bók sinni After the end of art (Eftir endalok listarinnar): "Lífið byrjar þegar sagan endar." Sér til stuðnings notar hann setninguna: "...og þau lifðu hamingjusöm ætíð síðan", þar sem sögð eða rituð saga, dramatísk og átakamikil, endar á fyrsta degi nýs lífs. Danto er hér að tala um nýtt líf myndlistar. En ef við snúum því yfir í nýtt líf gagnrýninnar vitum við að það eru ekki sagðar sögur af þessu sællega lífi ætíð síðan, því öllum stendur á sama um lítilfjörlegt og átakalaust hallarlíf Öskubusku, Mjallhvítar og Þyrnirósar og prinsanna þeirra.

Fyrir skömmu las ég vasabók sem nefnist What happened to art criticism? (Hvað kom fyrir myndlistargagnrýni?) eftir bandaríska gagnrýnandann James Elkins. Þar vitnar Elkins í könnun sem gerð var á vegum Columbia-háskólans árið 2002 þar sem í ljós kemur að langflestir myndlistargagnrýnendur gera lítið annað en að lýsa sýningum eða listaverkum. Þessa aðferð kallar Elkins "lýsandi gagnrýni" (descriptive criticism). Markmið lýsandi gagnrýnanda er m.a. að vera milligöngumaður frá listamanni til lesanda þannig að gagnrýnin gegni síðan sögulegu hlutverki án dóms. Það þýðir þó ekki að gagnrýnendur setji listina ekki í samhengi eða hafi enga persónulega sýn á hana. Algengt er að lýsandi gagnrýnandi leiti eftir einhverri samsvörun í listasögunni þegar hann skrifar um listaverk eða listsýningu. Í yfirdrifinni mynd kann slík rýni að virka sem "listsöguleg gagnrýni" (hystorical art criticism). Aðra samsvörun má finna í heimspeki sem er þá "heimspekileg gagnrýni" (philosophical art criticism), þar sem Arthur C. Danto fer fremstur í flokki. Þriðja samsvörunin er svo dægurmenningin eða það sem Elkins kallar "menningarleg gagnrýni" (cultural art critisism) og byggist á þeirri hugmynd að myndlist sé samofin dægurmenningu. Slík gagnrýni er jafnan í svalari kantinum og höfð með háðslegum tón.

Að lokum ber að nefna gagnrýni þar sem myndlistin er notuð sem innblástur í texta. Slík rýni kallast "ljóðræn gagnrýni" (poetic art criticism) og er á sinn hátt lýsandi gagnrýni nema hvað textinn hefur bókmenntalegt gildi. Þar ber Bandaríkjamaðurinn Dave Hickey höfuð og herðar yfir aðra í faginu, eða eins og listamaðurinn og listgagnrýnandinn Peter Plagens sagði: "Eftir að lesa Dave Hickey verður önnur gagnrýni eins og að fara yfir skattskýrslu."

Nýju valdhafarnir

Í bók sinni Air guitar (Luftgítar) tekur Dave Hickey m.a. gagnrýnina fyrir og heldur því fram að fólk finni jafnan til fyrirlitningar í garð gagnrýnanda. Hann bætir svo við að flestir mistúlki fyrirlitninguna sem ótta gagnvart valdi gagnrýnandans. En í raun fyrirlíti þeir máttleysi hans því að gagnrýni sé það aumasta sem hægt sé að skrifa í dag sökum þess að hún bætir engu við það sem skrifað er um; - "að skrifa gagnrýni er álíka og að spila á "luftgítar"". Eflaust er hér ástæðan fyrir því að Hickey leitar að bókmenntalegu vægi í myndlistargagnrýni.

En hver hefur þá valdið sem gagnrýnandinn hafði til að segja hvað sé góð list eða slæm og fella yfir henni dóm? Af greinum og bókum sem ég hef lesið þar sem komið er inn á þetta málefni virðast menn sammála um að þetta vald hafi færst yfir til galleríista og sýningarstjóra. Enda virðist "slæm" gagnrýni ekki hafa nokkur áhrif á sölu á listaverkum. Álit þeirra skiptir mun meira máli en álit gagnrýnenda, jafnvel þó að forsendur þeirra séu markaðslegar. Þ.e. galleríistinn þarf að selja listaverk, en sýningarstjórinn þarf að selja hugmynd og viðburð, og þeir þurfa að hafa þetta vald til þess að fólk trúi að þeir hafi merkilega list eða kræsilega hugmynd og mikilfenglegan viðburð til sölu.

Gagnrýnendur eru þó ekki útskúfaðir eða án hlutverks þegar kemur að markaðsmálum. Flest "alvöru" gallerí og eflaust öll söfn hafa einhvern texta, þó ekki nema örfáar línur, sem fylgja með sýningum í einblöðungum eða sýningarskrám. Og oftar en ekki eru það gagnrýnendur sem skrifa textann. Það eru engar marktækar tölur til yfir fjölda dóma sem eru skrifaðir fyrir gallerí eða stofnanir. En í áðurnefndri bók James Elkins er haldið fram að slíkir útgefnir textar séu álíka margir og dagblaðsdómar. Texti í sýningarskrá er aftur á móti mun sjaldnar lesinn en dagblaðsgagnrýni. Og þótt þess háttar lesmál kunni að flokkast undir gagnrýni er það ekki tekið alvarlega sem slíkt sökum þess að það er ritað að beiðni galleríistans eða listamannsins og er undantekningarlaust á jákvæðum nótum.

En er hægt að kalla lesefni gagnrýni ef því fylgir enginn dómur? Þeir allra hörðustu í faginu, s.s. Peter Schjeldahl hjá The New Yorker og Michael Kimmelman hjá The New York Times, forðast að láta nokkra skoðun í ljós. Hins vegar, eins og ég hef bent á áður, má líta á þá ákvörðun þeirra að fjalla um eina sýningu í jafnstórri flóru og er í New York sem dóm út af fyrir sig. Flestir gagnrýnendur segja samt skoðun sína af og til, eða þegar þeim finnst veruleg þörf á því. Og einstaka gagnrýnendur, eins og t.d. Donald Kuspit hjá Artforum og Art criticism, eru kreddufastir og skrifa mjög ákveðna dóma sem má þá kalla kreddufasta gagnrýni (opinionated art critisism). En hverjar svo sem skoðanir þessara gagnrýnenda kunna síðan að vera verður að horfast í augu við það að áhrif þeirra og völd til að dæma hafa farið þverrandi og því spurning hversu margir, í raun, taki mark á áliti þeirra.

Höfundur er myndlistarmaður og myndlistargagnrýnandi hjá Morgunblaðinu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.