Til 3. desember. Opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.

DÍANA M. Hrafnsdóttir útskrifaðist fyrir sex árum úr Listaháskóla Íslands og hefur sett upp nokkrar sýningar á ýmsum stöðum síðan. Sýning hennar á tréristum í sal Íslenskrar grafíkur er tileinkuð hafinu og allar myndirnar eru ljóðrænar afstraksjónir í mismunandi bláum tónum. Ein myndröð á sýningunni sker sig úr og er ekki titluð "haf" heldur "Án titils". Þær myndir eru mun órólegri, grárri, úfnari og yfirborðskenndari en hinar sem virðast tjá dýpi hafsins þar sem ríkir seigfljótandi logn í mettuðum litum þar sem hvergi sést í hvítan grunn. Hvort sem það er vegna þess að undirrituð mætti á sýninguna í roki og hálffauk inn í salinn eða vegna persónulegs minnis þá voru ótitluðu myndirnar þær sem náðu athyglinni. Þessar myndir eru úthverfar meðan hinar virka innhverfar og upplifun okkar flestra af hafinu er hið sjónræna yfirborð sem blasir við í óteljandi útgáfum. Myndirnar eru ekki stórar og henta vel sem híbýlaprýði um leið og þær hafa það fram yfir hefðbundna listmunaframleiðslu að í þeim má spegla hugsanir og tilfinningar. Þessi speglunar- eða hugleiðsluþáttur sem myndirnar búa yfir (veltur þó á áhorfandanum) væri líklega með meira vægi ef myndirnar væru stærri. Það gleymist oft í umræðum um áhorfandann og listaverkið að samband eiganda verks, sem hefur það heima hjá sér, við það hefur aðra möguleika en samband verks og áhorfanda á sýningu. Heimili fólks sem og vinnustaðir eru því áhugaverð rými fyrir myndlist því það gefur möguleika á sambandi frekar en skyndikynnum. Þess vegna er alltaf gaman að sjá þegar myndlist, sem er gerð af metnaði, selst vel á sýningu eins og hér er raunin.

Þóra Þórisdóttir