Barnavernd Fyrr á öldum, eins og nú, voru til foreldrar sem ekki stóðu undir að ala upp og annast börn sín. Úr myndasafni Morgunblaðsins.
Barnavernd Fyrr á öldum, eins og nú, voru til foreldrar sem ekki stóðu undir að ala upp og annast börn sín. Úr myndasafni Morgunblaðsins.
Eftir Helgu Kristínu Einarsdóttur helga@mbl.is Fordæming á illri meðferð á börnum er síst minni í dómabókum 19. aldar, en í málskjölum í barnaverndarmálum nútímans, segir Hildur Biering, sagnfræðingur og ráðgjafi við Þjónustumiðstöð Vesturbæjar.

Eftir Helgu Kristínu Einarsdóttur

helga@mbl.is

Fordæming á illri meðferð á börnum er síst minni í dómabókum 19. aldar, en í málskjölum í barnaverndarmálum nútímans, segir Hildur Biering, sagnfræðingur og ráðgjafi við Þjónustumiðstöð Vesturbæjar. Hildur lauk nýlega BA-prófi í sagnfræði og hefur efni lokaritgerðar hennar verið birt í fjórða smáriti Sögufélagsins. Nefnist það Barnauppeldisins heilaga skylda, barnavernd á fyrri hluta 19. aldar, og var að koma út.

Hildur hefur unnið við barnaverndarmál í tuttugu ár og venti sínu kvæði í kross og fór í sagnfræði árið 2001. Hún hefur unnið á Unglingaheimili ríkisins, kennt við Einholtsskóla og verið starfsmaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur og á Vistheimili barna. "Ég hafði lengi verið í erfiðri og krefjandi vinnu og fannst ég einfaldlega orðin útbrunnin og ákvað því að láta gamlan draum rætast og fór í sagnfræði," segir hún. Barnaverndaryfirvöld hafa afskipti af hundruðum barna á hverju ári sem ekki njóta viðunandi uppeldisskilyrða og eru flest tilefni vegna vanrækslu, næstflest mál varða börn sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og þriðji stærsti málaflokkurinn er vegna barna sem hafa orðið fyrir andlegu eða líkamlegu ofbeldi.

Hildur segir að mál sem barnaverndarnefndir hafa afskipti af séu ekki til umfjöllunar á opinberum vettvangi, eins og gefur að skilja, nema foreldrarnir sjálfir kjósi að koma fram. "Það er því ekki stór hópur manna sem þekkir vel til aðstæðna þeirra barna sem búa við vanrækslu nú í upphafi 21. aldar og landsmenn geta fyrir vikið lifað í þeirri góðu trú að einungis hafi verið farið illa með börn í gamla daga. Í ljósi reynslu minnar fer ég því og skoða þessi mál með allt öðrum hætti en hefur verið gert," segir hún.

Dómsmál frá 1807-1860

Hildur segir ennfremur að fyrr á öldum, rétt eins og nú, hafi verið til foreldrar sem ekki stóðu undir því að veita börnum sínum umönnun og uppeldi, auk þess sem veikindi, dauðsföll og fátækt gátu komið í veg fyrir eðlilegt heimilislíf. "Spurningin er þá hvort almennt var farið illa með börn eða hvort það var í undantekningartilvikum, eins og nú um stundir."

Hún skoðaði nokkur dómsmál með hliðsjón af verkefnum barnaverndaryfirvalda í dag og eftir nokkra athugun varð tímabilið 1807-1860 fyrir valinu, þar sem mál frá þeim tíma gáfu góðar vísbendingar um viðhorf til illrar meðferðar á börnum og hvað þótti rétt og rangt í uppeldi þeirra og umönnun. Í fyrsta málinu koma fyrir dómstóla hjón á Snæfellsnesi sem ákærð voru fyrir að hafa valdið dauða niðursetnings sem var hjá þeim með líkamlegu ofbeldi. Í öðru málinu voru foreldrar í Skaftafellssýslu ákærðir fyrir að vera valdir að dauða sonar síns með vanrækslu, í því þriðja eru stjúpa og faðir í Skaftafellssýslu ákærð fyrir vanrækslu og líkamlegt ofbeldi á ungum dreng og hið fjórða varðar kynferðisbrotamál, þar sem vinnumaður á bæ í Norður-Þingeyjarsýslu var kærður fyrir að nauðga átta ára gamalli telpu. Hildur segir að hvorki fyrr né síðar hafi verið lögbundnar jafn nákvæmar uppeldisaðferðir og húsagatilskipunin frá 1746 geri ráð fyrir. "Sem undirstrikar að gott uppeldi hefur lengi þótt vera mikilvægur grunnur fyrir framtíðina. Foreldrum bar fyrst og fremst að efla trúarvitund barna sinna og búa þau undir þátttöku í bændasamfélagi. Guðsótti og hlýðni voru talin til mannkosta og góður agi þótti hverju barni nauðsyn. Oft hefur verið litið á þá lögbundnu uppeldisaðferð að aga börn með hendi eða vendi sem vísbendingu um harðræði í uppeldi barna, en greinilegt er að skýr greinarmunur var gerður á flengingum sem agatæki og miskunnarlausum barsmíðum," segir hún.

Hildur segir ennfremur að ef eitthvað er hafi dómarar í upphafi 19. aldar verið enn harðorðari í garð þeirra sem brutu af sér gegn börnum en menn leyfa sér í dag. "Nú er oftast að athuguðu máli skilgreind ástæða þess að foreldri veldur ekki uppeldishlutverkinu á meðan foreldrum á 19. öld var talið fátt til málsbóta, ekki einu sinni fátækt eða matarskortur."

Auknar kröfur til barna

Sem fyrr segir eru flest afskipti barnaverndaryfirvalda í nútímanum komin til vegna vanrækslu og segir Hildur að vanræksla geti birst í ýmsum myndum. Ekki aðeins að börn séu afskipt, heldur líka til dæmis í auknum kröfum hinna fullorðnu um að þau standi sig og skari fram úr í íþróttum og keppni eða öðrum tómstundum, með tilheyrandi álagi. "Ég kom aftur til starfa þegar ég var að vinna að ritgerðinni og ákvað þá með sjálfri mér að hún væri kveðjustefið hvað barnaverndarmál varðaði. Þess vegna er ég að vinna með fullorðnum í dag, fólki sem á við geðræn vandamál að stríða eða er að takast á við tilveruna eftir langvarandi neyslu á vímuefnum og áfengi."

Útgangspunkturinn í rannsóknum Hildar var afskipti af og skyldur yfirvalda gagnvart börnum. "Ég lít þær mjög jákvæðum augum, sem fyrrverandi barnaverndarstarfsmaður og næsta verkefni sem ég að gæla við er að skoða hvað gerist í samfélaginu og þar með barnaverndarmálum þegar þéttbýli eykst og bæir fara að myndast. Nú er ég komin af stað, saga barnaverndar hefur langt frá því verið skrifuð," segir Hildur Biering.