Gangsett Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra gangsetti í gær fyrsta áfanga hitaveitu í kínversku borginni Xian Yang.
Gangsett Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra gangsetti í gær fyrsta áfanga hitaveitu í kínversku borginni Xian Yang.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur í Xian Yang sunna@mbl.is Þetta eru stór tímamót fyrir íbúana í borginni, þar sem þeir munu kveðja húshitun með kolum og fá hreina orku inn í sitt daglega líf.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur í Xian Yang

sunna@mbl.is

Þetta eru stór tímamót fyrir íbúana í borginni, þar sem þeir munu kveðja húshitun með kolum og fá hreina orku inn í sitt daglega líf. Þetta mun því breyta lífsstíl þeirra og lífsgæðum til hins betra," segir Bian Jun Jiang, stjórnarformaður Shaanxi Green Energy Development Corporation (CGCO), en í gær var fyrsti áfangi hitaveitu í kínversku borginni Xian Yang tekin í notkun. Það var utanríkisráðherra Íslands, Valgerður Sverrisdóttir, sem fékk þann heiður að gangsetja hitaveituna.

Hitaveitan er samstarfsverkefni kínverska fyrirtækisins og íslenska fyrirtækisins EnexKína, en að því standa Orkuveita Reykjavíkur, Glitnir og Enex, sem er úflutningsvettvangur íslenskra þekkingarfyrirtækja í orkuvinnslu. CGCO er dótturfyrirtæki kínverska stórfyrirtækisins Cinopec og að hluta í eigu Enex Kína.

Kolin kvödd

Daginn sem hitaveitan er gangsett, en hún mun kynda byggingar þriggja háskóla borgarinnar, alls um 170 þúsund fermetra - sem er sambærilegt við Sauðárkrók, liggur þykk hula mengunar yfir borginni og illa sést til sólar. Það er daglegt brauð, því hingað til hafa nær öll hús, sem og víðast annars staðar í Kína, verið hituð með kolum. Ekki er óalgengt að sjá íbúa Xian Yang bera grímur fyrir vitum sínum þegar mengunin er sem mest í stilltu veðri. En íslenskættaða hitaveitan mun ekki aðeins gera borgarbúum kleift að anda léttar og bæta heilsu þeirra, hún er fjárhagslega hagkvæm og mun því þyngja pyngjur þeirra að auki. Það er því að sögn Bian almennur áhugi á hitaveitunni og stjórnvöld á staðnum standa þétt að baki verkefninu.

"Það munu fleiri sækjast eftir að komast inn á þennan markað, því þetta er hagkvæmt og samfélagsvænt," segir Bian spurður um tækifæri á sviði jarðvarmavinnslu í Kína. "Þess vegna vildum við fara í samstarf við íslenska aðila. Þannig fáum við nýjustu þekkingu og tækni og verðum skrefi framar en samkeppnisaðilinn."

Lengi hefur verið vitað að jarðhiti er fyrir hendi í borginni sem og víðar í Kína. Áskorunin var hins vegar að sannfæra kínversk stjórnvöld um að mögulegt væri að beisla hann og nota til húshitunar. Ákveðin tregða var til staðar, því ekki allir voru sannfærðir um að orkan væri nýtanleg og enn aðrir vildu ekki fá útlendinga til samstarfs um nýtinguna. Hitaveitan í Xian Yang mun því vera fordæmisgefandi víðar í landinu.

Mun borga sig upp á 4-5 árum

"Við komum að þessu verkefni í fyrra þegar það var orðið ljóst að það væri efnahagslega hagkvæmt að nýta jarðvarma hér í Kína og ljóst að með efnahagslegri framþróun er bæði orðin þörf og kaupgeta til að nýta orkuna," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, en bankinn hefur verið að hasla sér völl í ráðgjöf og fjármögnun á sviði endurnýjanlegrar orku. Glitnir sér um fjármögnun á framkvæmd hitaveitunnar en fyrsti áfangi hennar kostaði rúmar 200 milljónir króna. Að sögn Bjarna er reiknað með að hitaveitan borgi sig upp á 4-5 árum. Á næsta ári er ráðgert að hefjast handa við annan áfanga sem verður mun stærri og er metinn á um 4,2 milljarða króna. Hann felst í lagningu hitaveitu í nýtt íbúðahverfi í Xian Yang. Árið 2010 ætti því jarðvarmaframleiðsla í borginni, sem í búa 5 milljónir manna, að vera komin í milljón fermetra og hitaveitan því svipuð að stærð og sú stærsta í heimi, en sú er í Reykjavík. Á árunum þar á eftir mun hitaveitan í Xian Yang verða sú stærsta.

"Niðurstöðurnar hingað til varðandi hitastig og vatnsmagn eru heldur betri en við áttum von á," segir Bjarni, en hitastig vatnsins, sem fæst úr þeim tveimur borholum við háskólana, er rúmlega 80 gráður. Sá hiti er hins vegar ekki nægur til þess að flytja vatnið langar vegalengdir og því má segja að hitaveitan sé inni á háskólalóðinni. Borholurnar eru um 2,5 kílómetrar að dýpt.

Áþreifanlegur árangur

"Það er gaman að sjá þegar verkefnin bera áþreifanlegan árangur," sagði Bjarni er hann skoðaði sig um í gömlu kolabrennslustöðinni á háskólasvæðinu sem nú hefur verið aflögð. Trú manna á hitaveituna var ekki meiri en svo í byrjun að ráðamenn fengust ekki til að rífa brennsluna fyrr en þeir sæju árangur hitaveitunnar í reynd. Og nú verður brennslan, með sínum sótsvörtu gluggum og kolabingjum, rifin.

"Efnahagslega er þetta ódýrari orka en þeir búa við í dag," segir Bjarni um hitaveituna. "Þetta er auðvitað miklu umhverfisvænna, það blasir við þegar maður horfir upp í loftið."

En af hverju skyldu Kínverjar hafa beðið eftir Íslendingum varðandi nýtingu á jarðvarma sínum?

Bjarni segir þrennt koma til. "Það er þekkingarskortur, efnahagsleg geta og aðgangur að fjármagni."

Spurður hvort margir bankar séu að slást um markað endurnýjanlegrar orku svarar Bjarni: "Þetta er enn lítið verkefni og því undir radarskjám stóru bankanna. Orkuteymi þeirra eru enn að horfa á olíu, gas og kjarnorku. En við sjáum að á næstu 4-5 árum muni þetta breytast, t.d. í Bandaríkjunum, þar sem fyrirhuguð eru verkefni upp á 4-5 milljarða dollara á þessu sviði." Bjarni segir að löggjöf í Bandaríkjunum varðandi heimildir til losunar mengandi efna, muni beina sjónum að nýtingu umhverfisvænna orkulinda. "Við höldum að við séum komin með forskot í þessum geira og teljum að ef við höldum áfram á þessari braut verðum við leiðandi banki á þessu sviði á heimsvísu á árinu 2007. Það er markmiðið."

Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, segir að áhugi yfirvalda í Xian Yang hafi m.a. orðið til þess að borgin varð fyrir valinu við uppbyggingu hitaveitu. "Það er víða áhugi í Kína á að þróa jarðhitann en einnig víða tregða að gera það með hjálp útlendinga. En hér voru yfirvöld framsýnni en víða annars staðar."

Ásgeir segir að Shaanxi Green Energy muni fara í fleiri jarðvarmaverkefni í Kína í framtíðinni. "Það eru nokkur verkefni sem liggja fyrir og við búumst við því að þetta muni margfaldast á næstu árum og eftir nokkur ár búumst við við því að á þessu svæði verði langstærsta hitaveita í heimi."

Aðeins upphafið að miklu meira

"Það er mín tilfinning að þetta sé upphafið að miklu meira," segir Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra um þýðingu samstarfs Íslendinga og Kínverja við uppbyggingu jarðvarmavirkjana í Kína. Hún er nú í heimsókn í Kína og segist hafa fundið fyrir vaxandi áhuga hjá þarlendum ráðamönnum á nýtingu jarðvarmans í landinu. "Hér í Kína er víða að finna jarðvarma og það er greinilega orðinn áhugi á að nýta hann. Þetta er vonandi fyrsta skrefið í einhverju miklu meira samstarfi á fleiri stöðum hér."

Valgerður gangsetti hitaveituna að viðstöddu fjölmenni í gærdag, m.a. mörgum kínverskum fréttamönnum sem sýndu verkefninu gríðarlegan áhuga.

"Þetta er sérstaklega áhugavert fyrir Ísland því þarna er um að ræða útflutning á þekkingu. Mér finnst þetta eins og draumur."

Valgerður átti sem iðnaðarráðherra fund árið 2004 með þáverandi borgarstjóra Xian Yang og núverandi formanni Kommúnistaflokksins, m.a. um nýtingu jarðvarma. Tók hann strax vel í hugmyndina. "Lengi vel gerðist ekkert en nú er verkefnið loksins orðið að veruleika," segir Valgerður.

Hagvöxtur er mikill í Kína og uppbygging hröð á mörgum svæðum. "Með því að þeir eru að styrkjast efnahagslega þá hlýtur þetta að vera einn þáttur í því," segir Valgerður um nýtingu jarðvarmans. "Þetta er mjög mikilvægt mál, ekki síst út af umhverfisþættinum."

Í hnotskurn
» Um 70% af orku Kínverja koma frá brennslu kola. Orkunotkun í landinu hefur aukist um 20% árlega undanfarin ár.
» Jarðvarma er víða að finna í landinu en þekkingu og fjármagn hefur skort til að nýta hann.
» Íslenskættaða hitaveitan í borginni Xian Yang vermir nú um 170 þúsund fermetra húsnæðis og í framtíðinni verða fermetrarnir milljón.
» Innan fárra ára verður hitaveitan sú langstærsta í heimi en hitaveitan í Reykjavík hefur þann titil í dag.