Jón Jónsson
Jón Jónsson
Jón Jónsson fjallar um vatnsréttindi landeigenda við Jökulsá á Dal: "Ef greiðslu fullra bóta til eigenda vatnsréttinda fylgja þung áhrif á rekstur Landsvirkjunar verður íslenska ríkið að veita fé til fyrirtækisins..."

LANDEIGENDUR við Jökulsá á Dal hafa gert kröfu um að vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar verði metin á um 60 milljarða í matsmáli gegn Landsvirkjun. Krafan byggir á eingreiðsluuppreikningi 15% árgreiðslu af brúttótekjum Kárahnjúkavirkjunar, en sú aðferðafræði er í samræmi við verðmyndun sem orðið hefur á vatnsréttindum eftir gildistöku raforkulaga frá 2003. Í nýjum samningi til 50 ára um virkjun Fjarðarár er hlutfall árgreiðslu að meðaltali 7,75%, þar af 10% síðustu 30 ár samningsins. Landeigendur við Jökulsá á Dal láta hins vegar varanlega af hendi vatnsréttindi sem nauðsynleg eru Kárahnjúkavirkjun, sem er hagkvæmasti umhverfislega tæki vatnsorkukostur Íslendinga.

Einhverjir gætu talið kröfuna óeðlilega háa og að landeigendur séu að reyna að hafa ríkisfyrirtækið Landsvirkjun að féþúfu. Svo er hins vegar ekki enda skýrist krafan af gríðarlegri stærð virkjunarinnar og stjórnarskrárvernd eignarréttar sem tryggir þeim sem láta vatnsréttindi af hendi við eignarnám greiðslur í samræmi við markaðsverð þeirra, rétt eins og við eignarnám annarra eigna.

Þess misskilnings hefur gætt varðandi kröfugerð landeigenda við Jökulsá á Dal að þeir krefjist greiðslu 60 milljarða. Hið rétta er að þeir krefjast þess að vatnsréttindi sem nýtt verða með Kárahnjúkavirkjun verði metin á 60 milljarða, en hlutur landeigenda við Jökulsá á Dal er um 50% þar af. Íslenska ríkið á stóran hluta vatnsréttinda á umræddu svæði, t.d. vegna eignarhalds á ríkisjörðum. Þá hefur íslenska ríkið haft uppi þjóðlendukröfur á svæðinu sem fela í sér að hlutur landeigenda við Jökulsá á Dal yrði um 35-40% af heildarréttindunum ef fallist yrði á þær.

Í víðara samhengi hefur yfirstandandi matsmál athyglivert gildi, enda er íslenska ríkið eigandi og umráðaaðili stærsts hluta vatnsréttinda á Íslandi. Niðurstaða málsins mun gefa vísbendingu um það hvað raforkufyrirtæki í virkri samkeppni munu greiða fyrir nýtingu vatnsréttinda ríkisins, þ.m.t. í þjóðlendum. Niðurstaðan mun einnig verða innlegg í umræðu um einkavæðingu orkufyrirtækja, m.t.t. þess hvort vatnsréttindi fyrirtækjanna verði einkavædd eða verði undanskilin gegn langtímaleiguafnotum með eðlilegri árgreiðslu.

Grunnt er á það sjónarmið að telja vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar verðlaus þar sem þau hafi ekki verið nýtt af landeigendum eða að þeir hefðu ekki getað nýtt þau sjálfir. Slík sjónarmið eru hins vegar léttvæg enda felst almennt í eignarrétti heimild til að ráða hvort, hvenær og hvernig eign er nýtt. Nýtingarleysi landeigendanna skiptir auðvitað ekki máli varðandi verðmæti þeirra, ekki frekar en að landeigandi sem ætti gott byggingarland innan marka Kópavogs fengi ekki greitt fyrir landið sem slíkt, þar sem hann stundaði ekki sjálfur byggingarstarfsemi.

Þeir sem hafa kynnt sér arðsemisútreikninga vegna Kárahnjúkavirkjunar hafa einnig velt því upp hvernig það geti staðist að gera kröfu um að vatnsréttindin verði metin á 60 milljarða þegar núvirtur arður að uppfylltri ávöxtunarkröfu eiginfjár, skv. upphaflegu arðsemismati er talinn 7,5 milljarðar. Með þessu er ekki gerður greinarmunur á hagkvæmni virkjunarkostar og hins vegar arðsemi framkvæmdarinnar, sem ræðst af stjórnunarlegum ákvörðunum Landsvirkjunar og eiganda fyrirtækisins. Niðurstaða arðsemismatsins byggðist á varfærnum forsendum og margt bendir til að arðsemin geti orðið mun meiri, t.a.m. hátt álverð sem hefur bein áhrif á raforkuverðið. Jafnvel þótt niðurstaða matsins reyndist rétt hefur arðsemi framkvæmdarinnar að engu leyti takmarkandi áhrif við ákvörðun bóta til landeigenda, enda á að greiða markaðsverð fyrir eignarnumda eign.

Með vísan til forsögu byggingar Kárahnjúkavirkjunar byggðist sú ákvörðun á þjóðhags- og samfélagslegum ástæðum en ekki einungis arðsemismarkmiðum fjárfestingarinnar, sbr. t.d. framsöguræða iðnaðarráðherra með heimildarlögum fyrir virkjuninni. Afar algengt er að eignarnám tengist samfélagslegum framkvæmdum, t.d. eignarnám á landi undir veg. Við mat á eignarnámsbótum í slíkum tilfellum er fyrst og fremst horft á markaðsverð eignar, þannig fær eigandi verðmæts sumarbústaðalands fullar bætur fyrir eign sína jafnvel þótt eignarnámið stafi af vegtengingu nokkurra sveitabæja og sé afar óhagkvæm framkvæmd skv. arðsemisútreikningum.

Ákvörðun íslenska ríkisins um byggingu Kárahnjúkavirkjunar byggðist á þjóðhagslegum og samfélagslegum markmiðum. Ákvörðuninni hefur fylgt 250 milljarða fjárfesting stóriðjuuppbyggingar á Austurlandi, en forsenda hennar eru augljóslega vatnsréttindi sem knýja munu virkjunina. Ef greiðslu fullra bóta til eigenda vatnsréttinda fylgja þung áhrif á rekstur Landsvirkjunar verður íslenska ríkið að veita fé til fyrirtækisins, rétt eins og fjárframlög ríkisins eru forsenda annarrar samfélagslegrar starfsemi á þess vegum, s.s. vegagerðar. Í öllu falli eiga landeigendurnir ekki að kosta þjóðhagslega og samfélagslega uppbyggingu með því að réttindi þeirra verði ekki metin í samræmi við markaðsverð vatnsréttinda á samkeppnisvæddum orkumarkaði. Annars væru landeigendur hafðir að féþúfu.

Höfundur er lögmaður á Regula lögmannsstofu.