Frá Sigurði Þóri Sigurðssyni: "Á SÝNINGU, sem nú stendur yfir í Listasafni Íslands, og ber yfirskriftina Málverkið eftir 1980, er vægast sagt farið mjög frjálslega með staðreyndir og ýmsu ranglega haldið fram og stórum hluta sleppt."

Á SÝNINGU, sem nú stendur yfir í Listasafni Íslands, og ber yfirskriftina Málverkið eftir 1980, er vægast sagt farið mjög frjálslega með staðreyndir og ýmsu ranglega haldið fram og stórum hluta sleppt. Titill sýningarinnar stemmir ekki, því að á sýningunni er bara brot af því sem málarar hafa verið að fást við á þessu tímabili, en allir aðrir miðlar myndlistar kynntir til sögunnar. Það er ekki ásættanlegt að þeir sem standa að slíkum sýningum - sem eru sýningarstjórarnir Laufey Helgadóttir og Halldór Björn Runólfsson, og forstöðumaður Listasafns Íslands, Ólafur Kvaran - geti endalaust gefið sér hvaða forsendur sem þeim hentar og túlkað samtímalistina eins og þeim sýnist, það er kominn tími til að því ástandi linni.

Listfræðingarnir sem settu sýninguna saman, og forstöðumaður safnsins ber ábyrgð á, senda þau skilaboð út í samfélagið að alla myndlist og alla skapaða hluti megi flokka sem málverk. Þessum skoðunum er einnig haldið að sýningargestum og fræðimenn safnsins bera þessa skoðun og túlkun á borð fyrir hópa sem þiggja leiðsögn þeirra um sali safnsins. Flokkun og túlkun af þessu tagi er ekki hægt að bjóða uppá og það er ekki í verkahring ríkisstarfsmanns að halda slíku fram. Er ekki mælirinn orðinn sneisafullur? Geta myndlistarmenn sætt sig við slík skilaboð?

Það er sama hvaða búningi menn vilja klæðast, það gengur ekki að fara með staðleysur, það þýðir ekkert fyrir menn að halda á kaffibolla fyrir framan fólk og reyna að sannfæra það um að hann sé undirskál, það yrði litið á það sem grín eða algjört rugl.

Lítil kennslustund í listasögu

Skúlptúr er ekki málverk, grafík er ekki málverk, teikning er ekki málverk, textíll er ekki málverk, ljósmynd er ekki málverk, tölvuprent er ekki málverk, vídeó er ekki málverk, innsetning er ekki málverk og svo mætti lengi telja.

Á sýningunni í Listasafni Íslands er öllum þessum myndlistarmiðlum þröngvað uppá málverkið og látið líta svo út að það sé allt í lagi. Vilji listfræðingar og aðrir þeir sem sýsla með myndlist láta taka sig alvarlega verða þeir að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

Það er með ólíkindum hvernig staðið hefur verið að sýningunni Málverkið eftir 1980 sem nú stendur yfir í Listasafni Íslands og á að gefa sýningargestum yfirlit yfir málverkið síðastliðin 25 ár, með einhverjum útgangspunkti frá nýja málverkinu svokallaða. Aðeins þeir sem listfræðingunum sem settu sýninguna saman og forstöðumanni safnsins eru þóknanlegir fá að láta ljós sitt skína á sýningunni, og takið eftir: allt skal sett undir hatt málverksins.

Að lokum vil ég taka undir orð Þóru Þórisdóttur sem birtust í grein hennar um sýninguna í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 4. nóvember. "Kannski væri betra að bera svona sýningu fram undir titlinum "Þetta vil ég sjá" eða eitthvað sambærilegt sem legði áherslu á að sýningin er fyrst og fremst valin sýn viðkomandi safns eða sýningarstjóra og hið faglega og hlutlæga skorðast innan þess ramma."

Það er vond pólitík að fara rangt með staðreyndir og lýsir eingöngu þeim sem á heldur.

SIGURÐUR ÞÓRIR

SIGURÐSSON

listmálari,

Óðinsgötu 4, Reykjavík.

Frá Sigurði Þóri Sigurðssyni: