Garðabær Söluvernd að norskri fyrirmynd kann að bæta galla sem koma fram eftir sölu eigna.
Garðabær Söluvernd að norskri fyrirmynd kann að bæta galla sem koma fram eftir sölu eigna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrirmynd söluverndarinnar hér á landi er komin frá Noregi, en stærsta tryggingafélagið í þessari grein er Protector og er það að hluta í eigu VÍS. Kristján Guðlaugsson talaði við Ásgrím Helga Einarsson í markaðsdeild VÍS um málið.

Það sem mér þótti athygliverðast í Noregi er sú staðreynd að áður en þessi trygging varð "vinsæl" þar, en milli 80 og 90% allra eigna þar seljast með söluvernd, höfðu neytendur ekki hugmynd um þann rétt kaupenda að geta leitað réttar síns vegna gallamála í 5 ár frá afhendingu eignarinnar," segir Ásgrímur Helgi.

Svipað ástand hérlendis?

Ásgrímur Helgi segir að flestir hafi talið að ef kaupandi sæi ekki gallann við skoðun hússins eða strax í vikunni eftir afhendingu þá væri enginn grundvöllur til þess að kvarta eða leita réttar síns.

"Mér þótti þetta athygliverður punktur vegna þess að ég yrði ekki hissa ef málum væri svipað háttað á Íslandi í dag. Ef svo er þá er það ekki gott því nauðsynlegt er að kaupandi viti rétt sinn og að seljandi viti við hverju má búast. Ég efast stórlega um að kaupendur og seljendur fasteigna hafi hugmynd um þetta." Ásgrímur Helgi segir að þarna komi söluverndin inn í málið því fyrir seljanda fasteignar hljóti það að vera léttir að vita til þess að þótt upp komi meintir gallar á eigninni þá þurfi viðkomandi ekki að hafa áhyggjur af því.

"Þetta með rétt neytandans finnst mér vera mjög athygliverður punktur sem þörf er að skoða nánar og hamra á því. Auðvitað verður neytandinn að vita sinn rétt í svona málum. Það er alveg ljóst í mínum huga að mikil þörf er fyrir þessa tryggingu hér og þá sérstaklega eftir þessa ferð mína til Noregs, nú fyrir skemmstu," segir Ásgrímur Helgi.

Gallar vegna raka algengir

Hann segist hafa skoðað nokkur gallamál sem hæglega hefði verið hægt að heimfæra á Ísland og hæglega gætu hafa gerst hér eins og í Noregi.

"Talað er um að í Noregi verði um 60% galla vegna raka, til dæmis loftun í þökum, vandamál með dren og galla í lögnum svo eitthvað sé nefnt. Einnig er talað um að einn af hverjum fimm kaupendum kvarti út af einhverjum galla."

Ásgrímur Helgi segir að reynslan frá Noregi sýni að 30% bættra galla séu vegna galla á baðherbergi, 20% vegna galla í þaki, 20% vegna drengalla, 10% vegna fúa, 5% vegna raflagna og 15% vegna annarra mála.

"Ég get tekið sem dæmi 3ja herbergja íbúð sem seld var með viðarparketi, en það kom fram í söluyfirliti. Eftir að íbúðin var afhent kom í ljós að um plastparket var að ræða. Seljandi gat sannað að í söluyfirliti var talað um viðarparket þegar hann keypti íbúðina árið 1998. Greiddar voru 300.000 íslenskar krónur út úr tryggingunni til kaupanda."

Hann nefnir sem annað dæmi 3ja herbergja íbúð, en í söluyfirliti hennar var sagt, að sögn seljanda, að í íbúðinni væri nýtt bað og nýjar raflagnir. Eftir afhendingu kom í ljós að raflagnir höfðu verið

endurnýjaðar að hluta og rafmagnstafla var aðeins endurnýjuð að hluta.

"Kaupandi í þessu tilfelli fékk greiddar 100.000 íslenskar krónur út úr söluverndinni."

Ekki eignatrygging

Ásgrímur Helgi segir að það verði þó að koma skýrt fram að hér sé um ábyrgðartryggingu að ræða, en

ekki eignatryggingu, það er að segja að seljandi fasteignar sé að kaupa sér tryggingu og sé að tryggja sig fyrir þeim fjárútlátum sem galli kunni að hafa í för með sér.

"Kaupandi má því ekki skilja trygginguna þannig að eignin sé tryggð og verið sé að bæta honum galla sem geta verið á eigninni. Aftur á móti er öruggara fyrir kaupendur að kaupa eign með Söluvernd því ef eitthvað kemur upp, þá hefur kaupandi öruggan aðila sem stendur að baki seljanda ef sækja þarf fjárkröfu á seljandann. Eins fær kaupandi ítarlegri upplýsingar um eignina frá seljanda heldur en áður hefur þekkst hér," segir Ásgrímur Helgi.