Sigrún Eldjárn
Sigrún Eldjárn
Texti og myndir eftir Sigrúnu Eldjárn, Mál og menning 2006, 36 bls.

SIGRÚN Eldjárn er afkastamikill höfundur, fyrir þessi jól koma út tvær bækur eftir hana. Fyrir yngri börnin kemur út myndabókin Gula sendibréfið sem fjallað er um hér og að auki fyrsta bókin í nýjum þríleik, Eyja gullormsins, en þríleikur Sigrúnar um Týndu augun, Frosnu tærnar og Steinhjartað naut mikilla vinsælda.

Gula sendibréfið er ævintýralegt ævintýri, þar sem mörkin milli hins mögulega og ómögulega eru þurrkuð út en umhverfi sögunnar er sambland af tilbúnum heimi og íslensku náttúruumhverfi. Aðalpersónur eru jafnt af mannkyni sem dýrakyni, bæði sýnilegu og ósýnilegu og auk þess af óþekktu og undarlegu Gabríellukyni.

Myndir Sigrúnar eru dregnar liprum og einföldum dráttum og ná oftast yfir alla opnuna, hún nýtir sér jafnframt þetta rými til hins ýtrasta. Bakgrunnur er unninn með vatnslitum og hraunáferðin minnir einatt á málverk. Aðaláherslan er á ferðalag barnanna og strax á fyrstu síðu má sjá hellisop sem opnast eins og inn í heim bókarinnar. Það sem m.a. einkennir bókina er sú áhersla sem höfundur leggur á möguleikana í samlestri barna og fullorðinna en ferðalag sögupersóna er t.d. auðkennt sérstaklega svo auðvelt er að þræða það með fingrinum á síðunni og æfa um leið hugtök eins og yfir, undir, á bak við o.s.frv. á skemmtilegan máta. Textinn er bæði við hlið mynda og innan þeirra og birtist í hæfilega stuttum einingum og á stöku stað í textablöðrum.

Sigrúnu tekst að skapa skýrar persónur í stuttri sögu sem einkennist af fjölbreyttum og ótrúlegum uppákomum. Ein aðalpersónan er dálítið huglaus en yfirvinnur ótta sinn, önnur er í hjólastól en hann er engin hindrun, sú þriðja er gjafmild og góð. Sagan inniheldur engan boðskap á yfirborðinu heldur einbeitir sér að skemmtilegum atburðum sem ýmist er lesið um í textanum eða birtast á myndunum í leikandi samspili mynda og texta. Óskirnar þrjár í lokin leggja áherslu á persónuleika aðalpersónanna, þörfina fyrir vini, gjafmildina og það hvernig má lifa sáttur við erfitt hlutskipti, boðskapur sem er undirliggjandi en ekki sagður berum orðum eins og vera ber í góðum bókum, hvort sem þær eru fyrir börn eða fullorðna.

Sigrún Eldjárn er í fremstu röð barnabókahöfunda og myndskreyta hér á landi, auk vinnu sinnar innan myndlistarinnar. Hér hefur hún skapað ævintýralega og spennandi bók sem þegar betur er að gáð ber með sér þroskandi og kærleiksríkan boðskap.

Ragna Sigurðardóttir