Góð ferð Guðjón Valur Sigurðsson og samherjar hans hjá Gummersbach gerðu góða ferð til Moskvu í Evrópukeppninni.
Góð ferð Guðjón Valur Sigurðsson og samherjar hans hjá Gummersbach gerðu góða ferð til Moskvu í Evrópukeppninni. — Morgunblaðið/Günter Schröder
GUMMERSBACH vann afar mikilvægan sigur á rússneska liðinu Cekhovski Medvedi í fyrri viðureign liðanna í 16 liða úrslitum meistaradeildar Evrópu í handknattleik, 31:37.

GUMMERSBACH vann afar mikilvægan sigur á rússneska liðinu Cekhovski Medvedi í fyrri viðureign liðanna í 16 liða úrslitum meistaradeildar Evrópu í handknattleik, 31:37. Guðjón Valur Sigurðsson náði sér vel á strik í leiknum og skoraði átta mörk í níu viðureignum. Róbert Gunnarsson skoraði 3 mörk í jafnmörgum skottilraunum. Þá skoraði Guðlaugur Arnarsson sitt fyrsta mark fyrir Gummersbach eftir að hann gekk til liðs við félagið fyrir rúmum mánuði en Guðlaugur hefur fyrst og fremst það hlutverk að leika í vörninni.

Leikið var í Ólympíuhöllinni í Moskvu að viðstöddum 3.000 áhorfendum. Viðureignin var í járnum fyrstu tíu mínúturnar, staðan var þá 4:4, en þá skoruðu leikmenn Gummersbach þrjú mörk í röð og breyttu stöðunni í 4:7. Eftir það gáfu lærisveinar Alfreðs Gíslasonar aldrei eftir og höfðu nokkuð þægilega forystu allt til leiksloka sem Rússunum tókst aldrei að ógna að nokkru marki.

Sterk vörn og leifturhraður sóknarleikur lagði grunninn að þessum góða sigri Gummersbach sem hlýtur að verða komið með annan fótinn í 8-liða úrslit meistaradeildarinnar. Liðin mætast á ný í íþróttahöllinni í Leverkusen á laugardag.

Staðan í hálfleik var 16:20, Gummersbach í vil.

Cekhovski Medvedi er sterkasta handknattleikslið Rússlands og er undir stjórn hins góðkunna þjálfara Vladimír Maxímovs. Liðið lék í Super-cup keppninni í Köln um síðustu helgi og vann Evrópukeppni bikarhafa á síðasta keppnistímabili. Þá eru leikmenn liðsins uppistaðan í rússneska landsliðinu sem Maximov stýrir einnig.

Alfreð sagði eftir leikinn að hann væri afar ánægður með sigurinn í Rússlandi. Grunnur að honum hefði verið lagður með sterkri vörn og hröðum og góðum sóknarleik sem leikmenn Medvedi hefðu ekki átt svar við.

Lemgo lá í Frakklandi

Þýska liðið Lemgo, sem vann EHF-keppnina í vor, tapaði óvænt í gær fyrir franska liðinu Dunkerque, 35:30, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum í EHF-keppninni en leikið var í Frakklandi síðdegis í gær. Dunkerque var einnig fimm mörkum yfir í hálfleik, 20:15. Leikmenn Lemgo skoruðu tvö síðustu mörkin í leiknum og tókst þar með að bæta stöðu sína nokkuð fyrir síðari leikinn sem verður á miðvikudagskvöld.

Ásgeir Örn Hallgrímsson lék allan leikinn fyrir Lemgo en náði ekki að skora mark.

Logi Geirsson gat ekki leikið með Lemgo að þessu sinni vegna meiðsla í öxl sem hann varð fyrir í leik í Super-Cup fyrir rúmri viku. Florian Kehrmann og Daniel Stephan voru einnig fjarri góðu gamni hjá Lemgo vegna meiðsla og ljóst að liðið má ekki við því að vera án þessara þriggja sterku leikmanna.

Logi vonast til að geta leikið með Lemgo á nýjan leik um næstu helgi.

Í hnotskurn
» Gummersbach vann með sjö marka mun í Moskvu, 37:31, gegn Cekhovski Medvedi og stendur vel að vígi fyrir síðari viðureign liðanna.
» Guðlaugur Arnarsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Gummersbach.
» Logi Geirsson gat ekki leikið með Lemgo vegna meiðsla þegar liðið tapaði fyrir Dunkerque, 35:30. Hann missir einnig af síðari viðureign liðanna í Lemgo.