Margrét Sverrisdóttir
Margrét Sverrisdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MARGRÉT Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, segir að svo geti farið að hún muni sækjast eftir embætti formanns flokksins á flokksþingi í janúar, og í öllu falli sé eðlilegt að sækjast eftir embætti varaformanns.

MARGRÉT Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, segir að svo geti farið að hún muni sækjast eftir embætti formanns flokksins á flokksþingi í janúar, og í öllu falli sé eðlilegt að sækjast eftir embætti varaformanns.

Þetta kom fram í viðtali við Margréti í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi, þar sem hún ræddi m.a. uppsögn sína úr starfi framkvæmdastjóra þingflokks Frjálslynda flokksins, sem sagt var frá í Morgunblaðinu á föstudag.

Spurð hvaða embætti hún hygðist sækjast eftir á flokksþingi sagði Margrét: "Það fer svolítið mikið eftir því hvernig mál þróast, ég hafði ekki hugsað mér að sækjast eftir embætti formanns, en það gæti farið svo. En mér finnst bara eðlilegt að ég sækist eftir embætti varaformanns."

"Það er ekkert við þessu að segja, ef hún vill bjóða sig fram þá býður hún sig fram, fólk verður bara að ferðast þessa vegferð á sínum forsendum en ekki gera lítið úr öðrum," segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, um þessi ummæli Margrétar. Hann segir að það yrði óheppilegt fyrir flokkinn ef átök stæðu um formanns- eða varaformannsembætti hans á kosningavetri.

Undir það tekur Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður flokksins, en tekur fram að Margrét hafi auðvitað fullan rétt til að bjóða sig fram í annað hvort embættið.

"Það verður mjög erfitt að vera með framkvæmdastjóra í flokknum sem bæði er búin að lýsa því yfir að hún sé á leið í þingframboð, en líka að hún sé að fara í framboð til formanns. Það gæti orðið svolítið snúin staða á kontórnum," segir Magnús Þór. Hann segir það vekja spurningar, hvort Margrét ætti að segja upp starfi sínu sem framkvæmdastjóri flokksins ef hún ætlaði að bjóða sig fram til formanns.