Hallberg Hallmundsson
Hallberg Hallmundsson
Eftir Hallberg Hallmundsson. 70 bls. Útg. Brú. Reykjavík, 2006.

HALLBERG Hallmundsson var í rösk fjörutíu ár búsettur vestanhafs. Þar vann hann stórmikið þýðingar- og kynningarstarf í þágu íslenskra bókmennta. Þannig hélt hann nokkru fjarsambandi við heimaslóð gegnum tíðina. Sjálfur er hann hið liðtækasta ljóðskáld. Og meira en svo! Ljóð hans eru í aðra röndina rótföst í íslensku umhverfi. Lífið í sveitinni, svo og fólk og atburðir í austurbæ Reykjavíkur þar sem hann ólst upp, hvaðeina stendur það í bakgrunni bókar þessarar. Þannig endurvekur hann tíðarandann með þeim hætti sem barn og unglingur minnist hans fyrir hálfri öld og gott betur.

Eins og vænta má er ljóðlist Hallbergs modernismanum merkt líkt og jafnaldra hans flestra. Nema hvað hann hefur farið aðrar leiðir, enda lifað og hrærst í annars konar bókmenntaumhverfi. Hann er einfari í ljóðlistinni. Áhrifa frá öðrum gætir að sjálfsögðu í ljóðum hans, hvað annað! En hann líkir ekki beinlínis eftir neinum. Ljóð hans eru persónuleg, mestmegnis opin og úthverf og hvers konar dulúð firrt. Svipsýn hans til gömlu góðu áranna vekur hvorki trega né eftirsjá. Afstaða hans til liðna tímans getur fremur talist hálfkæringi blandin eða - með leyfi að segja - dálítið ungæðisleg!

Bókin skiptist í kafla tvo undir yfirskriftinni: Þá og Þegar. Orðin geta falið í sér tvenns konar merkingu. Hvort orðið fyrir sig, eitt og sér, vísar til þátíðar, þess sem var. Í samhengi þýðir orðtakið hins vegar eitthvað sem verður: á næsta leiti, hvenær sem er. Hallberg er kominn heim og tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið. Ævintýri skáldsins á gönguför er að baki. Getur þá ekki sjálfri lífsreisunni lokið hvenær sem er, eða með skírskotun til titils bókarinnar: þá og þegar? Sannarlega er hefð fyrir að bera æviskeiðið saman við ferðalag. Í ljóði, sem Hallberg nefnir Þegar vorar, líkir hann ævinni við vegferð um hringveginn íslenska. Samlíkingin vísar ekki aðeins til ferðar sem byrjar og endar heldur líka til endurtekningarinnar, þeirrar bláköldu staðreyndar að ferðinni lýkur á upphafsreit þar sem aðrir eru þá jafnframt að hefja sitt lífshlaup. Hvað vinnst þá eftir eina ferð með þeirri endalausu hringekju? Því er svarað í ljóðinu Leikhús fáránleikans. Og reyndar í fleiri ljóðum af svipuðu tagi. Hringurinn er í senn tákn hins lokaða en jafnframt hins endalausa, eða með öðrum orðum - ef maður vill hafa það svo - hins tilgangslausa! Þannig ber afstaða skáldsins ekki aðeins vott um æðruleysi heldur líka tómhyggju.

Veröldin, þó rangsnúin sé, getur þó alltént verið skemmtilega fáránleg. Skoðuð út frá því sjónarhorninu er þessi bók Hallbergs þess virði að vera lesin með athygli og - ef maður er móttækilegur fyrir slíkt - skemmta sér við lesturinn. Orðaval Hallbergs er frjálslegt; stundum fulldjarft; mætti á stöku stað vera ögn formlegra fyrir smekk undirritaðs. Þeir, sem minnast Norðurmýrarinnar í byggingu fyrir afar mörgum árum þegar hlátur barnanna, sem þar voru að alast upp, rann saman við hamarshögg smiðanna, munu örugglega koma auga á Hallberg í hópnum, hinn sama sem nú horfir um öxl löngu síðar.

Kápumynd hefur Hallberg líka teiknað. Og sjá, þar er einnig horfið á vit temps perdu - horfins tíma. Rétt eins og enn sé 1952 og maður sé kominn á sýningu einhvers abstraktmálarans í Listamannaskálanum við Austurvöll.

Erlendur Jónsson