Fangar Írakar sem handteknir hafa verið fyrir aðild að uppreisninni.
Fangar Írakar sem handteknir hafa verið fyrir aðild að uppreisninni. — Reuters
Washington, Bagdad. AP, AFP. | Þótt George W.

Washington, Bagdad. AP, AFP. | Þótt George W. Bush Bandaríkjaforseti viðurkenni að þörf sé á miklum breytingum á stefnunni í Írak mun hann ekki nota niðurstöður óháðrar nefndar, sem mun skila áliti í vikunni, sem afsökun fyrir því að kalla herliðið heim, að sögn þjóðaröryggisráðgjafa forsetans, Stephen Hadley. "Okkur hefur ekki mistekist í Írak," sagði Hadley í gær. "Okkur mun mistakast í Írak ef við köllum herliðið heim áður en við getum aðstoðað Íraka við að sigrast á erfiðleikunum."

Donald Rumsfeld, fráfarandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sendi forseta Bandaríkjanna leynilegt minnisblað tveimur dögum áður en hann sagði af sér um að hernaðaráætlun Bandaríkjanna í Írak væri ekki að skila tilætluðum árangri. Rumsfeld lagði til að umfangsmiklar breytingar yrðu gerðar, meðal annars að fækkað yrði í herliðinu, að sögn The New York Times .

"Að mínu mati er kominn tími til stórra breytinga. Það er greinilegt að aðgerðir Bandaríkjahers í Írak eru ekki að skila nægilega góðum árangri eða nógu skjótum," segir á blaðinu sem dagsett er 6. nóvember.

Hadley sagði aðspurður í gær að á minnisblaðinu væri einfaldlega verið að nefna ýmsar hugmyndir fremur en að Rumsfeld krefðist nýrra stefnu. The New York Times sagði um helgina að raddir í Demókrataflokknum um að hraða bæri brottflutningi herliðsins frá Íraka væru farnar að hljóðna en demókratar hafa nú meirhluta í báðum þingdeildum eftir kosningarnar í nóvember.

Írakar vilja ekki alþjóðlega ráðstefnu

Forseti Íraks, Jalal Talabani, hafnaði í gær tillögu Kofi Annans, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um að haldin yrði alþjóðleg friðarráðstefna um Írak. "Við erum orðin sjálfstæð þjóð og munum sjálf ákveða framtíð þjóðarinnar," sagði Talabani sem er Kúrdi. Leiðtogar sjíta í Írak tóku einnig illa í hugmyndir Annans sem sagði að ástandið í Írak "væri verra en í borgarastyrjöld".

Beiðni Saddams Husseins, fyrrverandi forseta Íraks, um áfrýjun vegna dauðadóms sem hann hlaut fyrir glæpi gegn mannkyni, var í gær lögð formlega fram af lögfræðingum hans í Bagdad.

Í hnotskurn
» Saddam Hussein og sex samverkamenn hans fengu í haust dóma fyrir morð á 148 sjítum fyrir um 24 árum. Hussein og tveir aðrir fengu dauðadóm, einn var dæmdur í lífstíðarfangelsi.
» Um 150.000 bandarískir hermenn eru nú í Írak og halda þeir einkum uppi öryggisgæslu í Bagdad og á svæðum norðan og vestan við borgina. Bretar og Danir annast gæslu í sunnanverðu landinu.