Jákvæð Andri Páll Einarsson og Sandra Björk Ólafsdóttir hafa oft ástæðu til þess að brosa þrátt fyrir að á móti blási í lífi þeirra af og til. Andri er fjögurra ára en hann hefur farið í fjölmargar aðgerðir á undanförnum árum.
Jákvæð Andri Páll Einarsson og Sandra Björk Ólafsdóttir hafa oft ástæðu til þess að brosa þrátt fyrir að á móti blási í lífi þeirra af og til. Andri er fjögurra ára en hann hefur farið í fjölmargar aðgerðir á undanförnum árum. — Morgunblaðið/Sigurður Elvar
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson seth@mbl.is SANDRA Björk Ólafsdóttir og sonur hennar, Andri Páll Einarsson, léku sér í blíðviðrinu á Langasandi á Akranesi í gær þegar Morgunblaðið tók þau tali.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

SANDRA Björk Ólafsdóttir og sonur hennar, Andri Páll Einarsson, léku sér í blíðviðrinu á Langasandi á Akranesi í gær þegar Morgunblaðið tók þau tali. Sandra og Andri hafa staðið í ströngu undanfarin ár vegna fjölda skurðaðgerða sem hinn fjögurra ára gamli drengur hefur nauðsynlega þurft að fara í.

Forsvarsmenn verslunarinnar Kaskó veittu Söndru og Andra veglega peningastyrk s.l. föstudag í tilefni þess að ný verslun var opnuð á Akranesi. Sandra segir að styrkurinn komi sér vel.

"Við erum bæði með sjaldgæfan erfðasjúkdóm og Andri hefur farið í margar aðgerðir á undanförnum árum og ég hef því verið mikið frá vinnu," segir Sandra.

"Ég fæddist með aukafingur á báðum höndum og aukatá á báðum fótum. Fingurnir voru samvaxnir og einnig tærnar. Þessi galli kom einnig fram í syni mínum þegar hann fæddist en hann gerði reyndar betur og var með sjö putta, og sjö tær. Að auki var hann með samvaxna fingur og tær," segir Sandra og Andri kemur askvaðandi úr pollunum á Langasandi. Rennvotur eins og venjan er hjá ungum mönnum á þessum aldri.

Sandra talar opinskátt um það sem hún og sonur hennar hafa gengið í gegnum en þrátt fyrir að stundum blási á móti þá er Sandra bjartsýn og jákvæð."

"Andri hefur farið í ótal aðgerðir á undanförnum fjórum árum þar sem fingur hans og tær hafa verið löguð. Einnig hefur hann farið í aðgerð á höfði og framundan er erfið aðgerð þar sem bringubeinið verður lagað. Við kvörtum ekki en vissulega hefur þetta áhrif á okkar daglega líf. Ég er yfirleitt búin með alla veikindadaga sem tengjast Andra þegar líða fer á árið. Því kemur þessi styrkur sér afar vel sem við fengum afhentan á föstudaginn. Andri hefur reyndar verið ótrúlega fljótur að jafna sig eftir aðgerðirnar. Eftir 2-3 daga er hann kominn á ferðina. En hann er með sauma og annað slíkt sem þarf að hafa gætur á. Vinnuveitendur mínir í Laugafiski hafa staðið þétt við bakið á mér undanfarin fjögur ár. Ég get ekki annað en hrósað þeim fyrir þeirra framlag."

Sandra segir að hún viti nákvæmlega hvernig syni hennar líði þegar hann fer í aðgerðirnar því hún hefur sjálf gengið í gegnum svipaða hluti. "Ég hugsa ekki mikið um sjúkdóminn frá degi til dags. Fólki bregður kannski við að sjá þumalputtana á mér sem eru ekki eins og á öðrum. Ég er hætt að kippa mér upp við að fólki verði bilt við."

Móðir Söndru, bróðir hennar og yngri systir eru öll með sama erfðagallann og segir Sandra að hún fái mikinn stuðning frá fjölskyldu sinni. "Það er vissulega stundum erfitt að vera ein með lítinn strák sem er oft á sjúkrahúsi. Fjölskyldan hefur staðið við bakið á mér og reynt að hjálpa eins og þau geta."

Andri Páll yfirgefur "samkvæmið" og töltir upp stigann upp við Langasand og fer að glíma við fagurgræna dráttarvél í hans eigu sem hann keyrir hratt á ísilögðum gangveginum. Það er kraftur í stráknum og segir móðir hans að þegar hann fari í aðgerðir á Landspítalanum í Reykjavík sé ekki merkjanlegur kvíði hjá unga manninum. "Það er alveg ótrúlegt hvað hann er jákvæður þegar hann þarf að fara inn á spítala. Hann þekkir alla sem annast hann. Hjúkrunarfólkið eru "afi og amma" í hans huga og skurðlæknirinn er einnig "afi" hans Andra. Ég veit það sjálf að það er rosalega erfitt að vera svona mikið inni á sjúkrahúsi. Hann er eiginlega alltaf glaður og hress þrátt fyrir allt," segir Sandra Björk Ólafsdóttir.

Í hnotskurn
» Andri hefur reyndar verið ótrúlega fljótur að jafna sig eftir aðgerðirnar. Eftir 2-3 daga er hann kominn á ferðina.
» Það er vissulega stundum erfitt að vera einstæð með lítinn strák sem er oft á sjúkrahúsi.
» Ég hugsa ekki mikið um sjúkdóminn frá degi til dags