Aðventa Óslóartréð prýðir nú Austurvöll eins og það hefur gert í meira en hálfa öld um hátíðarnar.
Aðventa Óslóartréð prýðir nú Austurvöll eins og það hefur gert í meira en hálfa öld um hátíðarnar. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VÍÐA var kveikt á jólatrjám á opinberum stöðum nú um helgina. Í gær var einnig Alþjóðadagur fatlaðra. Ljósin á Óslóartrénu á Austurvelli voru tendruð klukkan 16.00 í gær að viðstöddu fjölmenni.

VÍÐA var kveikt á jólatrjám á opinberum stöðum nú um helgina. Í gær var einnig Alþjóðadagur fatlaðra.

Ljósin á Óslóartrénu á Austurvelli voru tendruð klukkan 16.00 í gær að viðstöddu fjölmenni. Rúm hálf öld er nú liðin frá því að Norðmenn færðu Íslendingum fyrst grenitré að gjöf til að skreyta Reykjavík. Tréð sem prýðir Austurvöll var höggvið í Finnerud í Sørkedalen fyrir utan Ósló og er rúmlega 12 metra hátt.

Dagskráin á Austurvelli hófst með leik Lúðrasveitar Reykjavíkur og svo söng Dómkórinn. Þá færði Guttorm Vik, sendiherra Noregs, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarstjóra og öðrum Reykvíkingum tréð að gjöf. Jóel Einar Halldórsson, 11 ára drengur af norsku og íslensku foreldri, varð þess heiðurs aðnjótandi að tendra ljósin á Óslóartrénu. Eftir það stigu jólasveinarnir Giljagaur, Bjúgnakrækir og Skyrgámur á svið og skemmtu.

Hundrað Kertasníkjar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra (SLF) prýða Óslóartréð og er það í fyrsta sinn sem tréð er skreytt einhverju auk jólaljósa. Listakonan Sigga Heimis útbjó Kertasníki, sem er órói úr burstuðu stáli, og skáldið Sjón frumflutti kvæði sitt, Kertasníkir snýr aftur, á Austurvelli í gær. Óróinn Kertasníkir verður seldur dagana 5. - 19. desember í versluninni Casa og rennur allur ágóði til Æfingastöðvar SLF. Æfingastöðin fagnar nú 50 ára afmæli en hún sinnir umfangsmestu sjúkra- og iðjuþjálfun barna og ungmenna í landinu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá SLF. Þar segir að vænta megi fleiri jólasveina næstu jól í túlkun annarra listamanna. Austurvöllur er nú fagurlega skreyttur og upplýstur því auk ljósanna á Óslóartrénu prýða átta þúsund ljósaperur önnur tré á Austurvelli.

Hamborgartréð skreytir Miðbakka

LJÓS voru tendruð á Hamborgartrénu á Miðbakka Reykjavíkurhafnar um helgina. Johann Wensl, sendiherra Þýskalands, og Horst Grubert, fulltrúi blaðamannaklúbbsins Wikingerrunde í Hamborg, afhentu tréð.

Jól í Fjarðabyggð

LJÓSIN voru kveikt samtímis á jólatrjám í allri Fjarðabyggð síðastliðinn laugardag. Nú loga ljósin björt allt frá Mjóafirði til Stöðvarfjarðar.

Mikil gleði og spenningur var meðal barnanna á Eskifirði, þar sem myndin var tekin, þegar jólasveinarnir birtust á slökkvibíl.