Sigri fagnað Patrekur Jóhannesson gat ekki leikið með samherjum sínum í Stjörnunni þegar þeir lögðu HK að velli í Digranesi í gær. Patrekur var eigi að síður á varamannabekknum og hvatti félaga sína til dáða.
Sigri fagnað Patrekur Jóhannesson gat ekki leikið með samherjum sínum í Stjörnunni þegar þeir lögðu HK að velli í Digranesi í gær. Patrekur var eigi að síður á varamannabekknum og hvatti félaga sína til dáða. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HK er í 2. sæti DHL-deildarinnar eftir óvænt tap gegn Stjörnunni á heimavelli í gær, 30:27, en Kópavogsbúar gátu með sigri endurheimt efsta sæti deildarinnar.

HK er í 2. sæti DHL-deildarinnar eftir óvænt tap gegn Stjörnunni á heimavelli í gær, 30:27, en Kópavogsbúar gátu með sigri endurheimt efsta sæti deildarinnar. Þeir voru hins vegar á eftir Garðbæingum í 60 mínútur í þessum leik og áttu í erfiðleikum með að koma boltanum fram hjá Roland Eradze, markverði Stjörnunnar. Gestirnir höfðu yfir, 15:12 í hálfleik og voru á tímabili sex mörkum yfir í fyrri hálfleik. Í þeim síðari dró saman með liðunum á tímabili en klókindi Stjörnumanna urðu til þess að sundur dró með liðunum á ný.

Eftir Kristján Jónsson sport@mbl.is

Elías Már Halldórsson, hornamaður Stjörnunnar, gekk til liðs við félagið frá HK síðastliðið sumar og hefur tvívegis fagnað sigri gegn sínum gömlu félögum í Digranesinu það sem af er tímabilinu: "Já, ég er taplaus í þessu húsi með mínu nýja félagi. Það er auðvitað ánægjulegt fyrir mig og maður tvíeflist þegar maður mætir sínum gömlu samherjum. Burtséð frá því þá var þetta mjög mikilvægur sigur fyrir okkur því að við höfum átt erfitt uppdráttar vegna meiðsla lykilmanna. Þetta var því ekki skemmtilegur handbolti sem við vorum að spila en það aflaði okkur tveggja stiga að þessu sinni og það er fyrir öllu," sagði Elías.

Kristján Halldórsson, þjálfari Stjörnunnar, sýndi mikla herkænsku er hann setti Elías í skyttustöðuna um miðjan síðari hálfleik en þá höfðu HK-ingar saxað forskot Stjörnunnar niður í eitt mark. Sóknarleikur Garðbæinga var þunglamalegur eftir að HK tók Tite Kalandadze úr umferð en hann liðkaðist töluvert þegar Elías fór í skyttustöðuna. Samhliða því virkaði vörnin vel á lokakaflanum og Roland varði nokkur skot á mikilvægum augnablikum. Stjörnumenn byrjuðu leikinn af krafti og komust í 4:1 og síðar í 11:5. Sóknarleikur HK gekk ekki upp og Stjarnan náði nokkrum auðveldum hraðaupphlaupsmörkum. Auk þess fór Tite Kalandadze hamförum í markaskorun fyrir gestina og var kominn með sjö mörk eftir liðlega tuttugu mínútna leik. Það kom því ekki á óvart þegar Austraskas, þjálfari HK, setti mann til höfuðs Kalandadze og við það riðlaðist sóknarleikur Stjörnunnar sem hafði verið markviss og vel skipulagður. Þrátt fyrir að HK-menn minnkuðu muninn jafnt og þétt tókst þeim aldrei að brjóta þann múr að jafna stöðuna. Þeim tókst nokkrum sinnum að minnka muninn í eitt mark en þar við sat.

Í liði HK var Valdimar Þórsson drjúgur í markaskorun eins og svo oft áður. Hann átti kannski ekki stórleik að þessu sinni en hann heldur alltaf ótrauður áfram og fær hrós fyrir það.

Sem dæmi má nefna að hann misnotaði tvö af fyrstu þremur vítaköstum sínum í leiknum en skoraði engu að síður úr næstu sex vítum. Aðrir leikmenn HK léku ekki af sama sjálfstrausti og hornamennirnir fundu sig til dæmis illa. Brendan Þorvaldsson var góður á línunni ásamt því að Ólafur Bjarki Ragnarsson og Sigurgeir Árni Ægisson áttu ágæta innkomu af bekknum. Það er hins vegar blóðugt fyrir HK hversu lítið kemur út úr hinum hæfileikaríka leikmanni Augustas Strazdas í sóknarleiknum en hann lék svo glimrandi vel hérlendis fyrir tveimur árum.

Hjá Stjörnunni átti Roland stóran þátt í sigrinum eins og áður er getið og einnig var Kalandadze dýrmætur. David Kekelia skilar alltaf sínu og hornamennirnir Gunnar Ingi Jóhannsson og Elías Halldórsson nýttu færin sín vel. Björn Óli Guðmundsson skilaði fimm mörkum og hinn 18 ára Guðmundur Guðmundsson nýtir sitt tækifæri vel á miðjunni, í fjarveru Patreks Jóhannessonar og Ólafs Víðis Ólafssonar.