Með allt á hreinu Lögreglan í Reykjavík óskar þess að allir ökumenn sem hún stöðvar í átakinu reynist allsgáðir, eins og ökumaðurinn á myndinni.
Með allt á hreinu Lögreglan í Reykjavík óskar þess að allir ökumenn sem hún stöðvar í átakinu reynist allsgáðir, eins og ökumaðurinn á myndinni. — Morgunblaðið/Júlíus
LÖGREGLAN í Reykjavík verður með sérstakt átak gegn ölvunarakstri í desember. Haukur Ásmundsson, aðalvarðstjóri, sagði að síðastliðið laugardagskvöld hefðu verið stöðvaðir 220 til 230 bílar við Sólfarið á Sæbrautinni.

LÖGREGLAN í Reykjavík verður með sérstakt átak gegn ölvunarakstri í desember. Haukur Ásmundsson, aðalvarðstjóri, sagði að síðastliðið laugardagskvöld hefðu verið stöðvaðir 220 til 230 bílar við Sólfarið á Sæbrautinni. Einn ökumaður var grunaður um ölvun við akstur og færður á lögreglustöð til áfengismælingar.

Haukur sagði að á þessum árstíma væru víða haldin jólaboð í fyrirtækjum og margir gerðu sér dagamun á annan hátt þar sem áfengi væri haft um hönd. Því væri aukið við eftirlitið.

"Markmið okkar er ekki að taka sem flesta undir áhrifum, heldur að fólk viti af því að nú er hert eftirlit með ölvunarakstri," sagði Haukur. "Fólk veit þá af því, ef það ætlar að vera á ferðinni á bílum sínum eftir gleðskapinn, að það má búast við því að verða stöðvað. Við viljum hitta sem flesta og helst alla allsgáða undir stýri, svo jólin og áramótin verði gleðileg hjá fólki."

Aukið eftirlit með ölvunarakstri verður viðhaft alla daga vikunnar og á öllum tímum sólarhringsins, að sögn Hauks. Hann sagði að ölvunarakstur í desember hefði oft verið talsverður, en í nýliðnum nóvember hefði lögreglan í Reykjavík tekið 74 ökumenn grunaða um ölvun við akstur. Haukur kvaðst helst ekki vilja sjá svo háa tölu eftir desembermánuð. Hann vildi hvetja fólk til að skilja einkabílinn eftir ef það fengi sér í staupinu.

Viðurlög við fyrsta og minnsta broti vegna ölvunaraksturs, þar sem áfengi í blóði mælist 0,50-0,60 prómill yfir leyfilegum mörkum, er 70 þúsund króna sekt og tveggja mánaða svipting ökuréttinda, að sögn Hauks.