Á sigurbraut Gísli Jón Þórisson og félagar í Haukum löguðu verulega stöðu sína í úrvalsdeildinni með því að leggja Íslandsmeistara Fram að velli.
Á sigurbraut Gísli Jón Þórisson og félagar í Haukum löguðu verulega stöðu sína í úrvalsdeildinni með því að leggja Íslandsmeistara Fram að velli. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HAUKAR stöðvuðu sigurgöngu Íslandsmeistara Fram í DHL-deild karla í handknattleik að Ásvöllum í gær. Framarar, sem höfðu unnið fjóra leiki í röð og rétt úr kútnum eftir erfiða byrjun, urðu að sætta sig við annað tap fyrir Haukum á tímabilinu en Hafnarfjarðarliðið hrósaði sigri, 31:28.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

Íslandsmeistararnir, sem töpuðu fyrir Haukunum með eins marks mun í Safamýrinni í október, voru skrefinu á undan heimamönnum í fyrri hálfleik. Flöt 6:0 vörn Framara var þétt fyrir og talsverður vandræðagangur var í sókn Haukanna. Andri Stefan hélt Haukunum nánast á floti framan af, bæði var hann drjúgur í markskorun og lék félaga sína vel uppi. Haukarnir náðu ekki að stilla saman strengi sína í vörninni og sérstaklega áttu þeir í erfiðleikum með Andra Berg Haraldsson sem skoraði hvert markið á fætur öðru með fallegum gólfskotum. Framarar voru tveimur til fjórum mörkum yfir megnið af hálfleiknum og þegar flautað var til leikhlés var munurinn þrjú mörk, 14:17.

Haukarnir komu afar vel stemmdir til síðari hálfleiks. Þeir skoruðu fjögur fyrstu mörkin og gerðu sex mörk gegn einu á fyrstu 8 mínútum leiksins og náðu þar með undirtökunum sem þeir héldu út leiktímann. Árni Þór Sigtryggsson, sem hafði haft hægt um sig í fyrri hálfleik og skoraði þá aðeins eitt mark, byrjaði seinni hálfleikinn vel og gaf sínum mönnum tóninn. Árni skoraði þrjú mörk með stuttu millibili og þá kom Arnar Pétursson frískur inn í sóknarleikinn en hann lék eingöngu varnarleikinn í þeim fyrri. Framarar voru afar mistækir í upphafi síðari hálfleiks og góð barátta og stemning í Haukaliðinu virtist koma Íslandsmeisturunum í opna skjöldu. Haukarnir náðu upp frábærri vörn með Arnar Pétursson og Kára Kristjánsson sem lykilmenn og þeir náðu að setja undir lekann vinstra megin þar sem Kári tók Andra Berg föstum tökum. Sóknarleikur Haukanna var vel útfærður í seinni hálfleiknum þar sem boltinn fékk að vinna og Andri Stefan, Arnar og Árni Þór voru allir mjög ógnandi og Kári seigur að gera sig frían á línunni. Haukarnir höfðu 1-2 marka forystu framan af fyrri hálfleik en Frömurum tókst að jafna, 24:14, og allt stefndi í spennandi lokamínútur. Haukarnir héldu hins vegar haus og gott betur en það. Þegar Framarar virtust líklegir til að sigla fram úr sögðu Hafnfirðingarnir hingað og ekki lengra. Í stöðunni 24:24 skoruðu Haukarnir fjögur mörk í röð. Komust í 28:24 þegar fimm mínútur lifðu leiks og gerðu nánast út um leikinn þó svo að Fram tækist að minnka muninn í tvö mörk. Vonir Framara um að ná í stig urðu að engu þegar þeir misstu mann út af tveimur mínútum fyrir leikslok. Manni fleiri höfðu Haukar leikinn í hendi sér það fór vel á því að Andri Stefan, besti maður vallarins, skoraði síðasta mark leiksins.

Haukar sýndu með frammistöðu sinni í gær að þeir hafa burði og getu til að blanda sér í toppbaráttuna. Þeir sýndu mikla baráttu og seiglu og leikur liðsins í seinni hálfleik var virkilega góður. Með sama áframhaldi ættu þeir að klifra upp stigatöfluna en mikill tröppugangur hefur verið á leik liðsins í vetur. Andri Stefan átti frábæran leik. Hann fór fyrir sóknarleiknum, skoraði mörk í öllum regnbogans litum, átti margar stoðsendingar og var fastur fyrir í vörninni. Kári Kristjánsson átti einnig fínan leik, bæði í sókn og vörn, Árni Þór var líflegur í síðari hálfleik og Guðmundur Pedersen nýtti færi sín vel í vel samstæðu Haukaliði.

Framarar höfðu ágæt tök á leiknum í fyrri hálfleik en í þeim síðari fór á síga á ógæfuhliðina, bæði í sóknarleiknum og ekki síst í varnarleiknum. Andri Berg Haraldsson lék best Framara og var Haukunum ansi erfiður framan af leik. Jóhann Gunnar Einarsson átti ágæta kafla en lék samt sem áður undir getu og hefði að ósekju mátt skjóta meira á Haukamarkið. Hornamennirnir sem hafa verið mjög drjúgir í Framliðinu í vetur náðu sér ekki á strik og eftir góða rispu síðustu vikurnar urðu Framara undir í baráttunni og réð þar mest um góður leikur Haukanna í seinni hálfleik.