Sótt að marki Eiður Smári Guðjohnsen á fleygiferð í áttina að marki Levante í leiknum í fyrrakvöld. Eiði tókst ekki að skora í leiknum.
Sótt að marki Eiður Smári Guðjohnsen á fleygiferð í áttina að marki Levante í leiknum í fyrrakvöld. Eiði tókst ekki að skora í leiknum. — Reuters
BARCELONA er áfram í efsta sæti spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu þrátt fyrir jafntefli gegn Levante, 1:1, í fyrrakvöld.

BARCELONA er áfram í efsta sæti spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu þrátt fyrir jafntefli gegn Levante, 1:1, í fyrrakvöld. Sevilla gat náð forystunni úr höndum Evrópumeistaranna með því að sækja þrjú stig til Barcelonaborgar í gær en þá tapaði liðið hins vegar fyrir Espanyol, litla liðinu í borginni, 2:1.

Deco skoraði glæsilegt mark fyrir Barcelona úr aukaspyrnu gegn Levante en það dugði ekki gegn grimmu liði heimamanna sem náði að jafna metin. Eiður Smári Guðjohnsen lék allan tímann í fremstu víglínu hjá Barcelona en náði sér ekki fyllilega á strik frekar en margir samherja hans.

Ronaldinho lék ekki með Barcelona og Deco var tekinn snemma af velli en hvort tveggja var vegna stórleiksins við Werder Bremen í Meistaradeild Evrópu annað kvöld. "Við vanmátum ekki lið Levante, það er alltaf erfitt að sækja það heim og við vissum að við þyrftum að berjast til síðustu mínútu," sagði Frank Rikjaard, þjálfari Barcelona.

Real Madrid renndi sér upp í annað sætið, stigi á eftir Barcelona, með því að sigra Athletic Bilbao í gær, 2:1. Baskaliðið var yfir í hálfleik en Fabio Capello, þjálfari Real, skellti David Beckham og Ronaldo inn á í upphafi síðari hálfleiks, með góðum árangri. Ronaldo jafnaði og bakvörðurinn sókndjarfi Roberto Carlos skoraði sigurmarkið með hörkuskoti.