"FYRST og fremst skapaði góður varnarleikurinn þennan sigur," sagði Erlendur Ísfeld, þjálfari ÍR, eftir sigur á Akureyri á sunnudaginn.
"FYRST og fremst skapaði góður varnarleikurinn þennan sigur," sagði Erlendur Ísfeld, þjálfari ÍR, eftir sigur á Akureyri á sunnudaginn. "Við náðum að halda þeim í tíu mörkum eftir hlé en samt var varnarleikurinn fyrir hlé ekki eins og slakur og fjöldi marka gefur til kynna. Skilaboð mín til leikmanna í hálfleik voru ósköp einföld - að þeir sem vildu koma inn á til að vinna færu inn á en hinir sætu eftir því mér fannst eins og menn væru búnir að fá það á sálina að þeir gætu ekki unnið eftir að hafa klikkað á fjórum dauðafærum í lokin. Ég verð að hrósa mínum mönnum, þetta er ekki reyndur hópur og að þeir séu enn að berjast í öllum leikjum sýnir mér að þeir hafi sterkan karakter, bæði ungu strákarnir og auðvitað þessir reyndu líka. Ég tók áhættuna í kvöld og setti Ólaf Sigurjónsson inn á en það er alveg á mörkum að láta hann spila. Ég hef notað hann nokkrar mínútur í leikjum en setti hann nú inn á því við þurftum sárlega á stigum að halda. Svo átti Sigurður Sigurðsson frábæra innkomu í markið."