Marinó Eðvald Þorsteinsson fæddist á Vegamótum á Dalvík 30. águst 1920. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri laugardaginn 18. nóvember síðastliðinn og var útför hans gerð frá Akureyrarkirkju 27. nóvember.

Hann langafi Marinó er dáinn, elsku afi okkar á Akureyri, sem okkur fannst svo skemmtilegur. Það var alltaf svo gaman þegar hann kom til Reykjavíkur. Hann var alltaf til í að fíflast í okkur og það leiddist okkur nú ekki. Svo þegar við fórum norður í Ólafsfjörð, þá heimsóttum við alltaf hann afa Marinó. Það var svo gaman að koma í íbúðina hans og horfa út um gluggana hjá honum, því hann átti heima svo hátt uppi og við sáum sko út um alla Akureyri.

Svo átti hann alltaf eitthvað gotterí handa okkur. Þegar við komum til hans síðast nú um páskana, þá skoðuðum við allar fallegu myndirnar sem hann hafði málað. Mamma og pabbi eiga einmitt eina mynd eftir hann, sem hann gaf þeim í brúðargjöf, þegar þau giftu sig árið 2004.

Þannig að við eigum sko alltaf eftir að muna eftir honum langafa, sem hét Marinó, alveg eins og hann pabbi okkar. Síðasta skiptið sem við hittum hann langafa Marinó, var þegar hann Aron Freyr var skírður, þremur vikum áður en langafi dó. Þá var hann sko sami sprellikarlinn og alltaf og þannig munum við eftir honum. Hann var samt aðeins farinn að gleyma, og eftir að Aron Freyr var skírður þá var hann með miða í veskinu sínu með nafninu hans á. Svona var afi, hann vildi sko muna eftir öllum. Síðustu vikurnar áður en Aron fæddist, þá hringdi hann alltaf í okkur til að athuga hvort litli bróðir færi nú ekki að koma, og síðustu vikuna, þá hringdi hann á hverjum degi. Hann var svo góður afi, hann langafi Marinó. Aron Freyr fékk bara að hitta þig einu sinni, við erum svo glöð með það að þú fékkst að hitta hann, en við, Ólöf og María, við ætlum að segja honum frá þér þegar hann verður eldri.

Elsku afi, við söknum þín mikið og spyrjum mikið um þig, en við vitum að nú ert þú kominn til hennar langömmu Láru á himninum, sem við fengum aldrei að kynnast, en nú hittist þið aftur og við vitum að þú ert örugglega glaður að hitta hana Láru þína aftur. Við söknum þín mikið, elsku besti afinn okkar.

Þín langafabörn,

Ólöf Jóna, María Björg og Aron Freyr Marinósbörn.