Sarah Brownsberger
Sarah Brownsberger
Eftir Sarah Brownsberger: "En þegar umönnunarstörf sem fara fram á heimili teljast einskis virði, er þá nokkur furða að launuð umönnunarstörf séu vanmetin?"

Í sonnettu nr. 143 eftir Shakespeare hleypur húsmóðir á eftir hænu, sem hefur sloppið úr búri. Rjóð og áköf eltir konan fuglinn en á meðan orgar smábarnið hennar af krafti og trítlar örvæntingarfullt á eftir mömmu sinni. Það er ekki ný bóla, að atvinna foreldra og sálrænar þarfir barna stangist á. En sálrænt álag má hvorki verða of mikið, né vara allt of lengi. Samkvæmt nýlegri könnun Capacents á vegum Jafnréttisstofu finnst 90% íslenskra foreldra að þeir eigi stundum eða oft erfitt með að samræma fjölskyldulíf og vinnu.

Í grein sinni, "Eru foreldrar að missa af lestinni?" (Mbl. 12.11.06), safnaði Orri P. Ormarsson saman mannfræðingi, kennara, rekstrarstjóra og flokksforingja til að velta fyrir sér vandamálinu og úrlausnum þess. Allir voru sammála um að óþægilega langur vinnutími, ýmist vegna lágra launa, skuldbindinga, eða fyrirtækjamenningar, bitnaði á samverustundum foreldra og barna, með þeim afleiðingum að börn urðu fyrir streitu. Allir voru líka sammála um að ekki væri valkostur að annað foreldri hætti að vinna úti. Sumar breytingar á kjörum íslenskra fjölskyldna verða til vegna samfélagslegra úrbóta, t.d. löggjafar um fæðingarorlof, sem gerir foreldrum kleift að sinna ungbörnum, eða áfanga í jafnréttisbaráttunni, sem betrumbæta kjör mæðra. Aðrar breytingar koma til af innlendri þróun t.d. aukinni tekjuþörf vegna húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu. Svo er enginn eyland: Sumar breytingar á kjörum íslenskra fjölskyldna endurspegla þróun mannkynsins, vandamál sem eru sannarlega hnattræn.

Fyrir fimmtíu árum, af ástæðum sem tengdust fjárúthlutun og ríkjandi viðhorfum innan akademíunnar, fannst félagsvísindamönnum nauðsynlegt að sanna sig sem raunvísindamenn. Kenningar þeirra um fjöskylduform og barnauppeldi fóru eftir darvinskri fyrirmynd, samtvinnaðri trú á upplýsingarmætti vísindanna. Fræðingar á borð við Philip Aries og Lawrence Stone héldu því fram að í fortíðinni hefðu börn verið álitin fénaður eða lélegt vinnuafl, litlir menn og litlar konur. Þeir töldu "bernsku" vera nútímahugtak, afleiðingu þróunar og framfara. En margar heimildir sanna að fortíðin bjó yfir hlýju, rétt eins og nútíminn hefur sína kaldhæðni. Steven Ozment, prófessor við Harvard háskóla, skoðaði dagbækur presta og fjölskyldna í Evrópu frá síðmiðöldum fram yfir endurreisnartímabil og ályktaði að mannlegar tilfinningar væru ótrúlega seigar og stöðugar, sama hvaða ösköp dyndu yfir og hvernig sem fjölskyldur björguðu sér. Miðaldarhjónin sem Ozment kynntist fundu sitt helsta yndi í fullnægjandi samförum og barneignum, báðir foreldrar syrgðu börn sín sem dóu ung, og jafnvel á dögum svartadauðans fengu börn sem fæddust andvana legsteina og sína línu í ættarskrá.

Giftingaraldur, barnafjöldi og vinnuskipting milli kynja hafa öll breyst margsinnis, og þá eftir efnahagslegum aðstæðum frekar en tilskipun kirkna eða ríkisstjórna. Konur ráku verkstæði og seldu vörur sínar í stórum stíl á miðöldunum en þær misstu töluvert vald þegar aukinn mannfjöldi og vinnuafl í sjávarplássum leiddu til þess að framleiðsla færðist í fjarlægar miðstöðvar. Þá varð einmitt erfiðara að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Þótt mikilvægt sé að viðurkenna framtak formæðra okkar í framleiðslu og viðskiptum er jafnmikilvægt að muna að það er ekki langt síðan flestir karlmenn voru, utan vertíða, heimavinnandi. Hvort sem störfin voru innanhúss eða utan, störfuðu bæði karlar og konur mestmegnis við það sem Aristóteles kallar búrekstur (husbandry) - að safna og rækta úr auðlindum náttúrunnar. Viðskipti verða til vegna skorts og offramleiðslu á mismunandi stöðum, og eru líka fullkomlega náttúruleg. En það að sækjast eftir veraldlegum hlutum sem teljast ekki til nauðsynja telur Aristóteles annað fyrirbæri, list sem einn maður lærir að beita gegn öðrum, í þeim tilgangi að verða ríkur. Ræktun jarðarinnar hefur reynst mannkyninu erfið síðan við vorum rekin úr aldingarðinum en fyrsti glæpur mannkyns stafaði af verðsetningu á afurðum, þar sem guð og menn mátu kjötið sem Abel bar fram meira en grænmetið sem Cain hafði ræktað. En erfiðið hefur þó verið mismikið eftir magni og gæðum náttúruauðlinda og mannfjöldanum sem þær áttu að framfleyta.

Þeir sem rannsaka lífshætti frumbyggja í Norður-Ameríku undan komu Evrópubúa halda að lítill mannfjöldi og miklar auðlindir hafi gert sumum ættbálkum kleift að "þróast" ekki. Korn- og grænmetisakrar og dádýragarðar voru nýlunda um 1600 hjá Ninnimissinouk-fólkinu í Nýja Englandi - ekki vegna þess að fólkið vantaði búfræðikennslu, heldur vegna þess að það hafði ekki áður þurft á slíkri erfiðisvinnu að halda. Hins vegar urðu þeir að verja veiðisvæði sín og auðlindir gagnvart öðrum hópum, sem ekki bjuggu í jafnsældarlegum dölum.

Sumir frumbyggjar lýstu undrun sinni á asa og angist Evrópumanna: Hvað lá á? Nóg var til af kjöti. Seinna var haft eftir Satanta, leiðtoga Kiowa-fólksins, að þegar hann skildi að inflytjendurnir voru það margir að buffaló-hjarðirnar dygðu þeim ekki hélt hann að hjartað í sér myndi springa. Margir hörmuðu þær deilur og vanda, sem fylgdu miklum mannfjölda. Í þingi Connecticut-ríkis árið 1789 kröfðust Móhíkanar þess, að "fyrst við verðum nú að girða akra, smala fé og byggja hús" yrði stofnað eitthvert velferðarkerfi "til þess að ekkjur og börn fái sitt úr súpupottinum".

Enn eru frumbyggjar að víkja eins og Satanta vegna landnáms: Í bókinni sinni, Kostnaður þess að lifa, lýsir Arundhati Roy því, hvernig stíflur í ám í Indlandi vegna orkuframkvæmda þvinga heila ættbálka úr ævafornum heimaslóðum, oftast til að flytja í verkamannanýlendur, þar sem þeir eiga að vinna láglaunavinnu. Einn sem Roy tók viðtal við taldi upp fyrir hana, meðan hann ruggaði barni sínu, fjörutíu og átta tegundir ávaxta sem hann var vanur að tína í skóglendi sínu. Hann bjóst ekki við því að börn hans ættu eftir að hafa efni á slíkum ávöxtum. Á sínum tíma hraktist Kiowa-fólkið til Oklahoma, ásamt öðrum ættbálkum, og þar kusu flestir að bjarga sér, en eldklár og reffilegur leiðtogi þeirra, Satanta, framdi sjálfsmorð. Langþýðingarmesta efnahagsbreytingin sem við upplifum er fjölgun mannkynsins. Tvisvar sinnum fleira fólk býr á hnettinum en 1960. Á maður að undrast þótt straumur útlendinga til Íslands aukist? Hvað veldur atvinnuleysi í útlöndum? Vissulega má benda á ómannúðlegar aðstæður og kerfisbundna græðgi í stóriðnaði, en heildarmyndin gefur líka í skyn að margs konar tæknileg þróun sem við erum vön að kalla framfarir eða böl sé í rauninni tímabundin aðlögun. Hvort sem um er að ræða stórt stökk í lífsgæðum eins og matarúrvalið sem kæliflutningar leyfa, snjallræði eins og tölvutækni, eða jafnvel hreinustu miskunn eins og deyfingarlyf, eru þessar framfarir ávöxtur þeirrar nauðsynjar að bjarga sér í breytilegum aðstæðum, viðbrögð við matarskorti, stærri markaði eða útbreiðslu sjúkdóma. Það er neyðin sem kennir naktri konu að spinna, þótt það hafi verið ansi klár kona sem fann upp á því.

Hvernig sem við björgum okkur, helst án þess að gera hnöttinn óvistvænan, er draumur þessarar aldar ævagamall, sá sami og Móhíkanar áttu sér, að við getum tamið mannseðlið að því marki að við tryggjum ekkjum og börnum góðan skammt úr súpupottinum. Súpupottinum verður að deila milli æ fleiri og samkeppnin er víðs vegar óþægileg. Hvaða neyð hefur kennt okkur að samþykkja það að hver maður vinni fyrir kaupi, sem á ekki að duga nema honum einum? Hvernig lentum við í því að nú þurfa tveir að vinna fulla vinnu fyrir sama kaupmátt og einn fékk áður? Er það neyslunni að kenna? Jú - en flestir eyða langmest í húsnæðislánsafborganir. Stafar streitan af græðgi atvinnurekenda, sem borga sjálfum sér konungleg laun eða hefur fólksfjölgun margfaldað kúgunarmöguleikana?

Seint á nítjándu öld var iðnbyltingin komin svo langt að þjóðir fóru að reikna þjóðarframleiðslu eingöngu út frá söluvörum og launaðri vinnu. Ann Crittendon, í bók sinni Kostnaður þess að vera móðir, rekur sögu þess hvernig þjóðfélagslegt mat á húsmæðrastörfum rénaði í takt við vöxt atvinnumarkaðarins.

Milli 1870 og 1880 hættu Bandaríkin að telja til þjóðarframleiðslu húsmæðrastörf, leigu- og matartekjur einstæðra kvenna sem ráku gistiheimili, og flestan heimilisiðnað svo sem prjón eða smíði sem stundaður var í litlum mæli. Með einum drætti pennans töldust tólf milljónir bandarískra kvenna ekki lengur gera neitt. Frá og með árinu 1900 töldust þær vera háðar eiginmönnum sínum, eins og börn, þótt þær syðu ennþá þvottinn, legðu hönd á plóg og slátruðu kjúklingum sínum. Höfðinginn á San Felipe Pueblo, George Eustace, benti á að árið 1982 taldi alríkisstjórn Bandaríkjanna áttatíu prósent Pueblo fólksins vera atvinnulaus, þótt þau ræktuðu korn, veiddu kjöt og framleiddu margt til heimilisnotkunar.

Þegar íslenskar konur fóru í verkfall 1975, urðu konur um allan heim hugfangnar og innblásnar, ekki síst af því að heimavinnandi húsmæður tóku þátt. Í fyrra, á afmæli þessa merka dags, var áherslan lögð á launamisrétti, enda brýn þörf á betri launum í kennslu og umönnunarstörfum. En þegar umönnunarstörf sem fara fram á heimili teljast einskis virði, er þá nokkur furða að launuð umönnunarstörf séu vanmetin?

Kannski gengur okkur betur að standa saman ef við lítum reglulega á heildarmyndina, sem nær út í hafsauga, yfir vaxandi mannhaf og minnkandi landkosti. Þörf er á leiðtogum sem passa upp á heildarmyndina og þeirra verðum við að leita einmitt meðal útivinnandi foreldra sem hafa áhyggjur af streitu barna sinna, gamalmenna sem muna aðra tíð, og jú, kannski hjá þessum heimavinnandi foreldrum sem eiga ekki að vera til! Fólk vill taka saman höndum. Í heimalandi mínu árið 2004, þegar forsetakosningaúrslit reyndust aftur óskýr, hringdi mamma gamla í mig og skoraði á mig að fara með sér niður í bæ. "Fólk mætir," fullyrti mamma. Og þarna reyndust mörg þúsund manna vera mætt á vettvang, án tilkalls frá fjölmiðlum eða flokkum.

Svoleiðis á það að vera. Börnin þarfnast okkar. Mætum öll.

Höfundur er með magistersgráðu frá Harvard University í trúarbragðasögu og stjórnmálafræði.