MORGUNBLAÐINU barst í gær ósk um birtingu eftirfarandi yfirlýsingar í kjölfar umfjöllunar blaðsins um héraðsdómsmálið nr. E-10563/2004 og þá dóma Hæstaréttar Íslands sem fallið hafa um formhlið málsins.

MORGUNBLAÐINU barst í gær ósk um birtingu eftirfarandi yfirlýsingar í kjölfar umfjöllunar blaðsins um héraðsdómsmálið nr. E-10563/2004 og þá dóma Hæstaréttar Íslands sem fallið hafa um formhlið málsins.

"Undirritaðir eru lögmenn stefndu í héraðsdómsmálinu nr. 10563/2004, sem nú er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í Morgunblaðinu í dag, 3. desember, er fjallað um nefnt dómsmál og þá úrskurði Hæstaréttar Íslands sem fallið hafa í málinu.

Umrætt dómsmál er faðernismál. Þinghöld í slíkum málum eru háð fyrir luktum dyrum, í samræmi við 2. mgr. 12. gr. barnalaga nr. 76/2003, vegna þess hve viðkvæm slík mál eru fyrir þá sem þau varða. Umtalsverður munur er því á slíkum málum og öðrum málum sem rekin eru fyrir dómstólum í opnum réttarhöldum.

Óheimilt er að skýra opinberlega frá því sem gerist í lokuðum þinghöldum án leyfis dómara, að viðlögðum refsingum, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Til að vernda friðhelgi einkalífs þeirra sem slík mál varða eru dómar Hæstaréttar Íslands í slíkum málum enn fremur birtir með þeim hætti að nöfn þeirra aðila sem málin varða koma ekki fram.

Í þinghöldum í framangreindu dómsmáli hefur verið fjallað um og lögð fram gögn um verulega viðkvæm einkamálefni sem skýrt er frá opinberlega í framangreindri umfjöllun Morgunblaðsins. Þá er nöfnum hlutaðeigandi aðila bætt inn í útdrætti úr Hæstaréttardómum sem fallið hafa í málinu. Fyrir hönd umbjóðenda okkar er harmað að Morgunblaðið og viðmælandi blaðsins hafi ákveðið að brjóta gegn framangreindu banni með umfjöllun sinni um málið með þessum hætti.

Umfjöllun Morgunblaðsins er ámælisverð enda ekki eingöngu í andstöðu við framangreinda lagagrein heldur einnig ósmekkleg og óviðeigandi. Einhliða umfjöllun um svo viðkvæm einkamálefni, þar sem slegið er fram órökstuddum fullyrðingum, er til þess eins fallin að móta almannaróm og ýta undir sögusagnir, en er hvorki upplýsandi né fræðandi á nokkurn hátt. Er slík umfjöllun fyrir neðan virðingu Morgunblaðsins, sem til þessa hefur viljað láta líta á sig sem óháðan, vandaðan og hlutlausan fréttamiðil.

Tekið skal fram að umbjóðendur okkar og við lögmenn þeirra höfum ekki viljað tjá okkur um málið við Morgunblaðið eða aðra fjölmiðla, þegar eftir því hefur verið leitað. Ástæða þess er sú að óheimilt er að fjalla um nokkuð það sem komið hefur fram í þinghöldum málsins með vísan til greinds lagaákvæðis.

Reykjavík, 3. desember 2006.

Virðingarfyllst,

Landslög - lögfræðistofa.

Jón Sveinsson, hrl. Ívar Pálsson, hdl."