Dagný Linda Kristjánsdóttir
Dagný Linda Kristjánsdóttir
DAGNÝ Linda Kristjánsdóttir frá Akureyri hafnaði í 38. sæti af 58 keppendum á heimsbikarmóti í risasvigi sem fram fór í Lake Louise í Kanada í gærkvöld.

DAGNÝ Linda Kristjánsdóttir frá Akureyri hafnaði í 38. sæti af 58 keppendum á heimsbikarmóti í risasvigi sem fram fór í Lake Louise í Kanada í gærkvöld. Hún fór brautina á einni mínútu, 24,07 sekúndum og var tæplega þremur og hálfri sekúndu á eftir sigurvegaranum, Renate Götschl frá Austurríki. Lindsey Kildow frá Bandaríkjunum varð önnur og Kelly Vanderbeek frá Kanada hafnaði í þriðja sæti.

Alls luku 49 konur keppni en níu heltust úr lestinni.

Dagný Linda varð í fyrrakvöld í 42. sæti af 61 keppanda á heimsbikarmóti í bruni sem haldið var á sama stað, í Lake Louise. Hún fór brautina á 1 mínútu, 53,24 sekúndum, og var 4,4 sekúndum á eftir sigurvegaranum, Lindsey Kildow. Renate Götschl varð önnur og Anja Pärson frá Svíþjóð varð þriðja. Þar luku 57 konur keppni en fjórar duttu út.

Þar með lauk þriggja daga keppnistörn hjá Dagnýju Lindu í Lake Louise en hún hófst á föstudaginn með heimsbikarmóti í bruni þar sem hún endaði í 49. sæti.