Skemmtileg "Það er gaman að geta mælt með henni sem hugmyndaríkri og hressilegri skemmtun fyrir alla meðlimi stórfjölskyldunnar," segir Sæbjörn Valdimarsson m.a. í kvikmyndagagnrýninni um Skolað í burtu.
Skemmtileg "Það er gaman að geta mælt með henni sem hugmyndaríkri og hressilegri skemmtun fyrir alla meðlimi stórfjölskyldunnar," segir Sæbjörn Valdimarsson m.a. í kvikmyndagagnrýninni um Skolað í burtu.
Teiknimynd með íslensku og ensku tali. Leikstjóri: David Bowers og Sam Fell. Aðalraddir (enska): Hugh Jackman, Kate Winslet, Ian McKellen, Jean Reno, Bill Nighy, Andy Serkin, Shane Richie. Leikstjóri íslenskrar talsetningar: Júlíus Agnarsson.

Teiknimynd með íslensku og ensku tali. Leikstjóri: David Bowers og Sam Fell. Aðalraddir (enska): Hugh Jackman, Kate Winslet, Ian McKellen, Jean Reno, Bill Nighy, Andy Serkin, Shane Richie. Leikstjóri íslenskrar talsetningar: Júlíus Agnarsson. Aðalraddir: Inga María Valdimarsdóttir, Felix Bergsson, Arnar Jónsson, Rúnar Freyr Gíslason, Hjálmar Hjálmarsson, Valdimar Flygering, Ólafur Orri Ólafsson, o.fl. 85 mín. Bandaríkin 2006.

VELGENGNI stafrænna tölvuteiknimynda hefur skapað slíkan urmul af einsleitu meðalmoði að Skolað í burtu virkar einsog fersk gróðrarskúr, þó innihaldið snúist mestmegnis um skólp, niðurföll og vafasama íbúa klóakanna. Ástæða frumleikans, vellulausrar framvindunnar og skemmtilega óheflaðra persónanna, er tvímælalaust breskur uppruninn. Annar handritshöfundanna, Peter Lord, er m.a. höfundur Wallace and Gromit, sem er í ljósárafjarlægð frá hinum hefðbundnu teiknimyndafígúrum Hollywood, að Ísaldarverunum undanskildum. Myndin er vissulega bandarísk, en unnin í samvinnu við Aardman Animations, fyrirtæki Lords og félaga.

Söguþráðurinn er allt í senn, spennandi, fyndinn, nýstárlegur og persónurnar flestar miður geðslegur fénaður, til kærkominnar tilbreytingar. Þar fer fremstur í flokki rottan Robbi, gæludýr í auðmannahverfinu Kensington í London. Hann er skilinn einn eftir heima þegar eigendur hans skreppa í frí. Ekki líður á löngu uns óboðinn gestur birtist, og það á óvæntasta máta. Mættur er Siddi, rustalegur náungi enda kominn úr skólpræsunum, undirheimum borgarinnar. Robbi ætlar að losna við hann sömu leið, en lendir sjálfur í niðurfallinu og rankar við sér langt undir yfirborðinu. Meinlaust gæludýrið er lent í framandi heimi þar sem raunveruleikinn er öllu subbulegri en hann, uppáklæddur í smóking, á að venjast.

Robbi eignast félaga í iðrum borgarinnar, sem er Ríta, kapteinn á bátnum Jimmie Dodger, með meiru. Vá steðjar að skólpræsasamfélaginu því dólgurinn Karta hyggst skola rottunum í burtu í eitt skipti fyrir öll og hefur í því skyni upphugsað djöfulleg vélabrögð, tengd úrslitakeppni í fótbolta.

Tengslin við Aardman koma ljóslega fram, hér er að vísu, andstætt við Wallace and Gromit, notast við nýjustu stafræna tækni, en breski húmorinn svífur yfir vötnunum, eða öllu frekar skólpinu. Í upphafsatriðinu gera höfundarnir góðlátlegt grín að sterilíseruðu og hvítskrúbbuðu umhverfi Leikfangasögu og annarra slíkra verka, síðan vaknar Skolað í burtu til lífsins þegar við tekur rússíbanareið Robba niður um svarthol klósettskálarinnar. Framhaldið er óvenju ærslafull og viðburðarík hasarmynd fyrir alla aldurshópa, þar sem vopnin eru talsvert annars eðlis en við eigum að venjast, enda myndin ætluð öllum aldurshópum. Það er gaman að geta mælt með henni sem hugmyndaríkri og hressilegri skemmtun fyrir alla meðlimi stórfjölskyldunnar.

Sæbjörn Valdimarsson