Forvitnilegar upplýsingar er að finna í grein Ásgeirs Jóhannessonar í nýútkomnum Skírni um aðdragandann að myndun minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins í desember 1958. Um þessa stjórnarmyndun eru ekki til miklar heimildir.

Forvitnilegar upplýsingar er að finna í grein Ásgeirs Jóhannessonar í nýútkomnum Skírni um aðdragandann að myndun minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins í desember 1958.

Um þessa stjórnarmyndun eru ekki til miklar heimildir. Í ævisögu Ólafs Thors eftir Matthías Johannessen segir m.a.:

"Emil Jónsson var bankastjóri við Landsbanka Íslands 1958. Þangað fór Ólafur Thors til fundar við hann og bauð honum stuðning við minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forsæti hans og féllst Emil á það. Á leiðinni niður stigann hitti Ólafur Eystein Jónsson, sem var einnig á leið til fundar við Emil - og hefur því verið fleygt að þá hafi Eysteinn "misst af strætisvagninum"."

Ásgeir Jóhannesson segir í Skírnisgrein sinni, að Guðmundur Í. Guðmundsson, sem þá var einn af forystumönnum Alþýðuflokksins, hafi gengið á fund Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta Íslands, og lagt til við hann að Alþýðuflokknum yrði veitt umboð til myndunar minnihlutastjórnar. Þessar frásagnir þurfa ekki að stangast á.

Myndun minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins í desember 1958 skipti sköpum í stjórnmálasögu lýðveldisins. Þess vegna er hún áhugaverð frá sjónarhóli sagnfræðinnar.