Á DÖGUNUM gagnrýndi Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra, val fyrirlesara á nýliðinni ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um Evrópumál. Því var svarað svo hér í blaðinu 29.
Á DÖGUNUM gagnrýndi Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra, val fyrirlesara á nýliðinni ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um Evrópumál. Því var svarað svo hér í blaðinu 29. nóvember, að stofnunin hefði leitað til "helstu fræðimanna landsins, sem rannsakað hafa samrunaþróun Evrópu". Dr. Ragnar Árnason prófessor, sem hefur rannsakað Evrópumál um árabil, skýrði frá því hér í blaðinu næsta dag, að ekki var leitað til hans, og hefur þó greining hans á ýmsum þáttum þessa máls vakið alþjóðlega athygli. Ég get upplýst, að ekki var heldur leitað til mín. Ég hef kennt námskeið um Ísland á tímum hnattvæðingar, haldið fjölda fyrirlestra um það efni, haldið og birt fyrirlestra um samrunaþróunina í Evrópu, skrifað bók um viðbrögð Íslands við samrunaþróuninni vegna afleiðinga hennar í skattamálum, en einnig skipulagt alþjóðlega ráðstefnu um sama mál og ritstýrt greinasafni um það á ensku. Einnig hef ég haldið erindi um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Hlýt ég að taka undir með Ragnari Árnasyni um það, að einkennilega var að þessari ráðstefnu staðið.

Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands.