Michal Drzymkowski fæddist í Póllandi 7. mars 1950. Hann andaðist á Landspítalanum í Fossvogi 27. nóvember síðastliðinn.

Hinn 19. mars 1973 kvæntist Michal Jadwiku Laskowsku, f. 15. janúar 1952. Börn Michal og Jadwiku eru : 1) Mariusz, f. 1. október 1973, kvæntur Hörpu Rós, f. 16. júlí 1976. Börn þeirra eru: A) Sædís María, f. 10. september 1996. B) Aníta Ósk, f. 10. september 1996. C) Róbert Andri, f. 27. febrúar 2002. 2) Monika, f. 22. janúar 1976, giftist Arkadiusz Olender. Þau skildu. Börn þeirra eru: A) Cezary, f. 5. desember 1993. B) Natalia, f. 20. nóvember 1997. Monika er í sambúð með Róbert Kulis, f. 30. janúar 1974. 3) Marcin, f. 2. janúar 1984, í sambúð með Emilia Mieczkowska.

Michal kom til Íslands árið 1985 og hóf störf hjá fyrirtækinu Nesbúi á Vatnsleysuströnd og starfaði þar nánast allt til dánardags.

Minningarathöfn verður haldin í Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Útför Michal fer fram í Póllandi.

Í dag kveðjum við Michal Drzymkowski eða Mikka eins og við kölluðum hann. Hann hóf störf hjá Nesbúeggjum fyrir réttum sautján árum síðan og starfaði óslitið hjá fyrirtækinu til síðasta dags. Mikki var með í miklum breytingum í fyrirtækinu, stækkunum og tæknivæðingu. Mikki var hægri hönd bústjóra og sinnti starfi sínu af einstakri trúmennsku, hann þekkti búið manna best og vissi hvar allt var. Alltaf var hægt að treysta á hann varðandi stundvísi og þeir dagar sem hann var frá vinnu vegna veikinda eru líklega teljandi á fingrum annarrar handar. Ómetanlegt er að hafa slíkan starfsmann sem alltaf er hægt að treysta á bæði fyrir fyrirtækið og okkur sem unnum með honum.

Mikki var frá Póllandi og var innilega stoltur af sínu heimalandi og sögu þjóðarinnar sem hann þekkti vel. Hann ætlaði að eyða síðustu árum sínum í Póllandi og hafði unnið öll þessi ár hér til að þau ár gætu orðið honum og eiginkonu hans ánægjuleg. Við sem unnum með honum hjá Nesbúeggjum geymum minningu um góðan starfsfélaga og vin, sem gaf okkur góða mynd af heimalandi sínu og þjóð.

Við biðjum Guð að styrkja eiginkonu hans sem er búsett í Póllandi og börnin hans, tengdabörn og barnabörn sem búsett eru hér á landi.

F.h. eigenda og starfsmanna Nesbúeggja ehf,

Guðrún og Stefán.