Í nógu að snúast Björgvin Þorvarðarson og Indriði Baldvinsson höfðu í nógu að snúast fyrsta daginn í nýrri verslun. Indriði er verslunarstjóri og hefur hann gegnt því starfi í átján ár.
Í nógu að snúast Björgvin Þorvarðarson og Indriði Baldvinsson höfðu í nógu að snúast fyrsta daginn í nýrri verslun. Indriði er verslunarstjóri og hefur hann gegnt því starfi í átján ár. — Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stykkishólmur | Það telst til tíðinda þegar nýtt verslunarhúsnæði er tekið í notkun í ekki stærri kaupstað en Stykkishólmur. Á fullveldisdaginn opnaði Skipavík hf. í Stykkishólmi byggingavöruverslun í nýju húsnæði við Aðalgötuna.

Stykkishólmur | Það telst til tíðinda þegar nýtt verslunarhúsnæði er tekið í notkun í ekki stærri kaupstað en Stykkishólmur. Á fullveldisdaginn opnaði Skipavík hf. í Stykkishólmi byggingavöruverslun í nýju húsnæði við Aðalgötuna.

Byggingartíminn þrír mánuðir

Verslunin var áður til húsa niðri í gamla bæ, en það húsnæði hefur verið selt Stykkishólmsbæ sem nýtir það fyrir Amtsbókasafnið.

Nýja húsnæðið er um 500 fermetrar að gólffleti. Sigurjón Jónsson eigandi Skipavíkur hannaði og teiknaði húsið og starfsmenn Skipavíkur byggðu húsið. Framkvæmdir við bygginguna hófust í byrjun september.

Óhætt er að segja að vel hafi verið staðið að verki þegar byggingatíminn er aðeins þrír mánuðir

Sævar Harðarson, framkvæmdastjóri Skipavíkur, var að vonum ánægður þegar hann opnaði verslunina fyrir viðskiptavinum á tilsettum tíma. Hann segir að síðustu vikur hafi verið annasamar eins og gefur að skilja.

"Það þarf í mörg horn að líta til að verkið gangi snurðulaust. En það tókst og allt gekk upp að lokum og það þakka ég fyrst og fremst góðum mannskap," segir Sævar.

Í nýju versluninni verður vöruúrvalið miklu fjölbreyttara en það var í þeirri gömlu. Þar verður að finna flest það sem þarf til húsbygginga ásamt fjölbreyttu úrvali af heimilistækjum.

Vínbúð og lyfjaverslun einnig í nýja húsnæðinu

Nú geta bæjarbúar farið í Skipavíkurbúðina til að kaupa flatsjónvörp, tölvur, hljómtæki ýmiskonar auk þvottavéla, þurrkara og fleiri tækja sem áður þurfti að leita lengra til.

Í nýja húsinu er einnig Vínbúð ÁTVR og í byrjun apríl mun Lyfja einnig flytja þar inn með sína afgreiðslu.