Í sókn Ernir Hrafn Arnarson, leikmaður Vals, sækir að marki Fylkis í Laugardalshöllinni. Arnar Þór Sæþórsson er til varnar.
Í sókn Ernir Hrafn Arnarson, leikmaður Vals, sækir að marki Fylkis í Laugardalshöllinni. Arnar Þór Sæþórsson er til varnar. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
PÁLMAR Pétursson fór á kostum og bjargaði heiðri Vals í Laugardalshöll á laugardaginn þegar Fylkir kom í heimsókn. Pálmar varði 26 skot sem var nóg til að Valsmenn, heldur værukærir eftir hlé, hefðu 28:23 sigur en vildi samt þakka félögum sínum...

PÁLMAR Pétursson fór á kostum og bjargaði heiðri Vals í Laugardalshöll á laugardaginn þegar Fylkir kom í heimsókn. Pálmar varði 26 skot sem var nóg til að Valsmenn, heldur værukærir eftir hlé, hefðu 28:23 sigur en vildi samt þakka félögum sínum sigurinn. "Vörnin var góð. Fylkismenn skutu mikið og vörn okkar stýrði þeim, þannig að á meðan þeir taka óskynsamleg skot er gott að verja þægilega bolta með góða vörn," sagði Pálmar eftir leikinn.

Eftir Stefán Stefánsson ste@mbl.is

Gestirnir úr Árbænum, með Hlyn Morthens markvörð í broddi fylkingar, mættu tilbúnir til leiks og höfðu forystu framan af þar sem Valsmenn réðu ekkert við hvert þrumuskot Eymars Krügers af öðru sem rataði í mark þeirra. Loks fannst Pálmari nóg komið og eftir að hann varði þrívegis glæsilega snerist taflið við með þremur mörkum frá Val, sem dugði til forystu er Fylkismenn náðu aldrei að vinna upp. Um miðjan hálfleik virtust Árbæingar byrjaðir að missa móðinn svo að Valsmenn gengu á lagið og náðu mest 7 marka forskoti.

Það var eins og Valsmenn héldu að þeir þyrftu bara að sitja af sér mínúturnar þrjátíu eftir hlé. Það létu Fylkismenn ekki bjóða sér tvisvar og skoruðu fjögur mörk í röð áður en Valsmenn skora eftir rúmar 7 mínútur. Á sama tíma komst líf í vörn þeirra og Pálmar hrökk um leið í gírinn. Það var samt ekki fyrr en Hjalti Pálmason rölti inn á til að skora með yfirveguðum og hnitmiðuðum skotum að Valur náði 28:19 forystu þegar rúmar sjö mínútur voru eftir. Valsmenn létu það duga og þó að Fylkir skoraði fjögur síðustu mörkin dugði það ekki til.

Eins og við ætluðum að bíða

Valsmenn nýttu til hins ýtrasta alla breidd liðsins og þó þjálfari Vals geti verið sáttur við ágæta kafla og hvernig ungu strákarnir komu ferskir inn á auk tveggja dýrmætra stiga hlýtur hann að hafa einhverjar áhyggjur af værukærð. Það gerði Pálmar þrátt fyrir sigurinn.

"Sigur er sigur en mér finnst þetta samt ekki nógu gott því við förum inn í hálfleik með sjö marka forystu og áttum að vinna leikinn með fimmtán til tuttugu mörkum vegna þess að við erum með miklu meiri breidd og betra lið á öllum sviðum en það var eins og menn væru bara farnir að bíða eftir að leikurinn kláraðist og sigur í höfn," hélt Pálmar áfram eftir leikinn en stóð samt keikur.

"Við lendum of oft í að missa leik niður með slæmum kafla í síðari hálfleik, eins og gerðist í báðum leikjunum gegn Haukum, þó við höfum unnið annan leikinn kom hrikalegur kafli. Við verðum að laga þetta og ef við gerum það er ekkert sem getur stoppað okkur. Deildin er jöfn og spennandi og það geta allir unnið alla en þetta er annar af tveimur leikjum sem við erum ekki í einhverju stappi með að vinna. Við vinnum samt deildina og Valur verður meistari, það fer ekkert milli mála."

Ásamt frammistöðu Pálmars og innkomu Hjalta var Markús Máni Mikaelsson góður en eins og svo oft áður munar mestu að flestir, ef ekki allir leikmenn liðsins, koma inn á og standa sig.

Andleysi hjá Árbæingum

Fylkismenn aftur á móti þurfa að bíta í skjaldarrendur. Þeir byrjuðu sæmilega en það þurfti ekki mikið til að draga úr þeim vígtennurnar. Þá var gripið til einstaklingsframtaks og það gekk næstum bara upp hjá Eymari auk þess að Hlynur var ágætur í markinu. Dauft gengi kom einnig niður á baráttuandanum, vissulega var stundum barist en hugur fylgdi ekki máli og sumir voru næstum í fýlu. Fyrir utan Eymar og Hlyn var Þórir Júlíusson ágætur í byrjun og Hreinn Þór Hauksson lét til sín taka í vörninni. Það má vel virða þeim til vorkunnar að liðið hefur orðið fyrir blóðtöku þegar varnarjaxlinn Guðlaugur Arnarsson fór í víking til Þýskalands og leikstjórnandinn Vladimir Duric, sem var til alls líklegur, meiddist og er frá í vetur.