Tveir góðir Ólafur Stefánsson sækir að Ivano Balic, leikstjórnanda landsliðs Króatíu og spænska liðsins Portland San Antonio. Báðum gekk vel með liðum sínum á Evrópumótunum um helgina og lið þeirra eru svo gott sem komin í 8-liða úrslit meistaradeildar.
Tveir góðir Ólafur Stefánsson sækir að Ivano Balic, leikstjórnanda landsliðs Króatíu og spænska liðsins Portland San Antonio. Báðum gekk vel með liðum sínum á Evrópumótunum um helgina og lið þeirra eru svo gott sem komin í 8-liða úrslit meistaradeildar. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
ÍSLENSKUM handknattleiksmönnum vegnaði flestum hverjum vel með félagsliðum sínum á Evrópumótunum í handknattleik um helgina.

ÍSLENSKUM handknattleiksmönnum vegnaði flestum hverjum vel með félagsliðum sínum á Evrópumótunum í handknattleik um helgina. Hæst bar góðan sigur Gummersbach, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, á rússneska liðinu Chehovski Medvedi, 37:31, í fyrri leik liðanna í meistaradeild Evrópu, 16 liða úrslitum. Fá lið sækja gull í greipar rússneska bjarnarins í Ólympíuhöllinni í Moskvu, en það gerðu þeir Alfreð, Guðjón Valur Sigurðsson, Guðlaugur Arnarsson og Róbert Gunnarsson ásamt samherjum sínum.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Evrópumeistarar Ciudad Real frá Spáni, með Ólaf Stefánsson innanborðs, lentu í kröppum dansi gegn danska liðinu GOG Gudme í viðureign liðanna í Svendborg á Fjóni í gær. Á síðasta stundarfjórðungnum tókst spænska stórliðinu að reka af sér slyðruorðið og tryggja sér fimm marka sigur, 33:28. "Við hefðum getað tapað þessum leik," sagði Ólafur í samtali við TV2 í Danmörku eftir leikinn en sú varð raunin ekki og nú virðist leið Ciudad Real vera nokkuð greið í 8-liða úrslitin.

Það hefur vakið undrun margra sem fylgjast með alþjóðlegum handknattleik á hversu stuttum tíma Alfreð hefur tekist að byggja upp afar sterkt lið hjá Gummersbach. Alþekkt var að Alfreð væri snjall þjálfari en að það tæki hann aðeins fjóra til fimm mánuði að gera Gummersbach að einu fremsta liði heims var nokkuð sem fáir hefðu veðjað á í vor. Alfreð tók við þjálfun Gummerbach í sumar og um leið varð mikil uppstokkun á leikmannahópnum. Níu nýir leikmenn komu til félagsins og annar eins hópur reri á önnur mið. Talið var að það myndi taka Alfreð a.m.k. eitt ár að byggja upp svo sterkt lið. Alfreð var greinilega ekki á sömu skoðun. Hann hefur frekar fámennum hópi á að skipa miðað við mörg önnur félög í fremstu röð í Evrópu í dag, auk þess sem sterkir leikmenn eru enn fjarri góðu gamni vegna meiðsla, má þar nefna Rússann Denis Zakharov og Frakkann Francois-Xavier Houlet.

Velgengni Gummersbach á leiktíðinni þar sem það er í öðru sæti í þýsku 1. deildinni, svo gott sem komið í 8-liða úrslit meistaradeildar og annað sætið í Super-Cup keppninni um síðustu helgi er enn ein sönnun þess hversu snjall þjálfari Alfreð er.

Tvö "Íslendingalið" náðu ekki að sýna sínar bestu hliðar í leikjum helgarinnar, Flensburg, undir stjórn Viggós Sigurðssonar, og Lemgo, sem þeir Ásgeir Örn Hallgrímsson og Logi Geirsson leika með. Flensburg steinlá í Celje í Slóveníu, 31:41, þar sem varnarleikur og markvarsla liðsins var í molum. "Eftir svona leik þá verða leikmenn að hugsa alvarlega sinn gang," sagði Thorsten Storm, framkvæmdastjóri Flensburg við þýska fjölmiðla í gær.

Lemgo sem vann EHF-keppnina í vor stendur frammi fyrir erfiðu verkefni á miðvikudaginn þegar það tekur á móti Dunkerque frá Frakklandi eftir tap í fyrri leiknum í Frakklandi um helgina, 35:30. Líkt og hjá Flensburg er talsvert um meiðsli meðal sterkra leikmanna hjá Lemgo sem óneitanlega setur strik í reikninginn um þessar mundir.

Danska liðið FCK Håndbold, efsta lið dönsku úrvalsdeildarinnar sem þeir Arnór Atlason og Gísli Kristjánsson leika með, sýndi hvers það er megnugt með því að leggja rússneska liðið Dinamo Astrakhan, 26:27, á útivelli. Fátítt er að evrópsk handknattleikslið fari með sigur af hólmi gegn Astrakhan í Rússlandi en Arnór, Gísli og félagar létu slíkar staðreyndir ekki hafa áhrif á sig og unnu verðskuldað.

Annað danskt félag, Skjern, sem stýrt er af Aroni Kristjánssyni og hefur auk þess þrjá íslenska handknattleiksmenn innan sinna raða kjöldró Sävehof frá Svíþjóð, 39:28, í fyrri leik liðanna í EHF-keppninni, 16-liða úrslitum og sömu sögu er að segja af Bjerringbro/Silkeborg sem Heimir Örn Árnason leikur með. Bjerringbro gjörsigraði Kadetten frá Sviss, 30:20, á heimavelli.

Ef fram heldur sem horfir þá stefna nokkur "Íslendingalið" hraðbyri í næstu umferð Evrópumóta félagsliða en þau hafa verið sigursæl á þeim undanfarin ár.