[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pedro Mendes hjá Portsmouth fékk rauða spjaldið undir lokin þegar lið hans gerði jafntefli, 2:2, í hörkuleik gegn Aston Villa á heimavelli á laugardag.
Pedro Mendes hjá Portsmouth fékk rauða spjaldið undir lokin þegar lið hans gerði jafntefli, 2:2, í hörkuleik gegn Aston Villa á heimavelli á laugardag. " Þetta er leiðinlegt fyrir Mendes sem hefur spilað frábærlega með okkur í vetur," sagði Harry Redknapp , stjóri Portsmouth. Juan Pablo Angel tryggði Villa 9. jafntefli sitt í vetur þegar hann jafnaði undir lokin, nýkominn inn á sem varamaður.

Antti Niemi , markvörður enska knattspyrnuliðsins Fulham , gekkst undir aðgerð á hné fyrir helgina og verður frá keppni næstu vikurnar. Hann leikur því líklega ekki aftur fyrr en eftir áramót. Jan Lastuvka frá Tékklandi leysti hann af hólmi á laugardaginn þegar Fulham tapaði fyrir Blackburn , 2:0, og spilaði sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni.

Jimmy Bullard , leikmaður enska knattspyrnuliðsins Fulham , var skorinn upp á hné fyrir helgina, í annað skipti eftir að hann slasaðist illa í leik með liðinu í úrvalsdeildinni í haust. Einn þekktasti skurðlæknir heims, Richard Steadman , sem skar hann upp í Bandaríkjunum, segir að góðar líkur séu á að Bullard geti leikið knattspyrnu á ný en horfurnar á því hefðu verið slæmar fyrst í stað.

Steadman sagði við BBC að meiðsli Bullards hefðu verið einhver þau verstu sem hann hefði séð en liðbönd í hné sködduðust illa í samstuði við Scott Parker hjá Newcastle í leik liðanna í september. Bullard er 27 ára miðjumaður og vakti mikla athygli með nýliðum Wigan í úrvalsdeildinni síðasta vetur. Fulham keypti hann fyrir 2,5 milljónir punda í sumar og hann byrjaði mjög vel með Lundúnaliðinu en Bullard hafði skorað tvívegis í fyrstu fjórum leikjum liðsins þegar hann meiddist.

Það vakti athygli að einungis um 150 stuðningsmenn Fulham fylgdu liðinu til Blackburn á laugardaginn, þrátt fyrir ágætt gengi að undanförnu. " Fótboltinn er orðinn dýr og þetta var langt ferðalag, eitt af mörgum hjá okkur undanfarnar vikur ," sagði Chris Coleman , knattspyrnustjóri Fulham.

Fremsti knattspyrnumaður Möltubúa, Michael Mifsud, er að líkindum á leið í ensku úrvalsdeildina. Hann sagði við News of the World í gær að hann hefði fengið tilboð frá Sheffield United sem hefur fylgst með honum í nokkurn tíma en Mifsud leikur með Lilleström í Noregi . Mifsud kvaðst hafa fengið tíu daga umhugsunarfrest en hann þyrfti ekki svo langan tíma til að komast að niðurstöðu.

John Madejski , stjórnarformaður Reading , sagði eftir sigurinn á Bolton í gær að hann þyrfti líklega að fara að endurnýja vegabréfið sitt. "Við þurfum að vinna fimm leiki í viðbót til að halda okkur í deildinni en með þessu áframhaldi verðum við í Evrópukeppni næsta vetur og þá þarf vegabréfið að vera í lagi ," sagði Madejski.