Ingigerður Einarsdóttir, Lindarsíðu 4, Akureyri, fæddist í Halakoti í Biskupstungum 27. febrúar 1924, en ólst lengst af upp í Holtakotum í sömu sveit. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 25. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Einar Jörundur Helgason, f. 1896, d. 1985, og Jónasína Sveinsdóttir, f. 1890, d. 1967. Systkini Ingigerðar eru Helgi Kristbergur, bóndi í Hjarðarlandi, f. 1921, d. 2004, Ragnhildur, f. 1922, búsett á Selfossi, Málfríður Heiðveig, f. 1926, lést á öðru ári, Hlíf, f. 1930, búsett á Akureyri, og Dórothea Sveina, f. 1932, búsett í Reykjavík.

Ingigerður giftist Jóhanni Eyþórssyni, f. 17. feb 1921, d. 2. sept. 2005. Þau skildu 1982. Þau eignuðust fimm syni. Þeir eru: 1) Páll Eyþór, f. 1950, búsettur á Akureyri, kvæntur Sesselju B. Jónsdóttur. Þau eiga þrjá syni. 2) Einar Jörundur, f. 1953, búsettur í Hafnarfirði, kvæntur Þórdísi Ólafsdóttur. Þau eiga tvo syni og tvær dætur. 3) Heiðar Ingi, f. 1955, búsettur á Tálknafirði, kvæntur Kristjönu Andrésdóttur. Þau eiga tvo syni og eina dóttur. 4) Sveinn Sævar, f. 1957, d. af slysförum 1967. 5) Ólafur Unnar, f. 1959, búsettur í Reykjavík, býr með Oddrúnu Elfu Stefánsdóttur. Þau eiga son og dóttur. Áður eignaðist hann son með Valgerði Halldórsdóttur. Barnabarnabörnin eru sex.

Útför Ingigerðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Móðir mín á það skilið að ég minnist hennar í nokkrum orðum. Víst er að þetta verður í nokkrum upptalningar stíl, þar sem mikið liggur eftir hana í orðum og gjörðum. Þó ætla ég að reyna að skrifa það sem helst situr í minningu minni um hana.

Mamma var mikill námshestur og skilaði hæstu prófum eins og á fullnaðarprófi 14 ára gömul þegar hún fékk 9,5 og ekkert lægra en 8,7. Mömmu féll aldrei verk úr hendi og skipulagði langt fram í tímann. Hún spilaði bridge í mörg ár og öll hugarleikfimi var hennar ánægja. Hún vildi alltaf vinna og æfði sig á laun til að geta hnekkt á andstæðingnum. Á Akureyri átti hún sín bestu ár eftir að hún fullorðnaðist og eignaðist fjölda vina. Verkalýðsmál áttu mikinn tíma hjá henni og var hún trúnaðarmaður verkafólks hjá ÚA.

Eftir að hún hætti á vinnumarkaðnum sneri hún sér að hlutum sem hana hafði alltaf langað til að gera. þar á meðal trésmíðum. Hún sagði eitt sinn að ef hún væri ung í dag hefði hún farið að læra trésmíði. Þegar afþreyingarmiðstöðin Punkturinn var stofnuð má segja að hún hafi sest þar að. Þar smíðaði hún og skar út ógrynni af hlutum sem hún síðan seldi eða gaf um allt land. Hún skrifaði niður allan kveðskap sem hún náði í og gerði þar að auki oft tækifærisvísur og gamanbragi. Þá skrifaði hún ferðadagbækur í mörg ár, en hún var búin að flakka í flest horn heimsins. Aldrei setti hún fyrir sig tungumálaerfiðleika, hvort sem ferðinni var heitið til Finnlands, Grænlands, Egyptalands eða Balí.

Ísland þekkti mamma öðrum betur og það er varla sá staður sem hún hafði ekki komið á.

Tónlist og söngur áttu sterka taug í henni, sérstaklega karlakórssöngur. Álftagerðisbræður voru hennar poppstjörnur. Þegar Kór eldri borgara var stofnaður fékk hún útrás fyrir sönggleðina og var alsæl með þann félagsskap. Henni fannst gaman að klæða sig upp á og átti mikið af fallegum fötum sem hún gerði stundum sjálf. Hún var alla tíð frekar heilsuhraust og fann sér upp alls konar náttúrulyf til að forðast kvef og aðrar pestir. Það var eitt sem ekki var til í hennar orðabók. Það var setningin: "Þetta er ekki hægt." Þetta er aðeins lítið brot af öllu því sem þú afrekaðir um ævina.

Elsku mamma. Við feðgarnir þökkum þér fyrir allar stundirnar sem við höfum átt saman í blíðu og stríðu. Mig langar að kveðja þig með litlu ljóði sem varð til er ég skrifaði þetta:

Horfnar góðar stundir, mamma mín,

muna vil ég þessa sorgarstund

því gulli betri góðu ráðin þín

gerðu líf mitt betra á ýmsa lund.

Þú áttir svör við öllum lífsins gátum

og aldrei lést mig finna vanmátt þinn

ég man það vel er saman oft við sátum

úr sögubókum birtist heimurinn.

Nú ert þú farin, heimi hörðum frá

til hæsta ljóss, í friði eilífð langa,

en minningin hún merlar okkur hjá

um móðurást, sem vermdi daga stranga.

Því vil ég aðeins þakka fyrir mig

og það sem okkur saman batt á jörð

og bið að guð á himnum geymi þig

hann gæskuríkur standi um þig vörð.

Við Sveinn Sævar, Hilmar Þór og Gunnar Rafn kveðjum þig hinstu kveðju.

Páll Eyþór.

Jæja, mamma mín, nú ertu bara farin og eiginlega vil ég ekki trúa því að ég geti ekki komið í heimsókn þegar ég kem norður á flutningabílnum, þreyttur og stundum kaldur eftir volkið á heiðunum. En það brást ekki að þú áttir alltaf til flatkökur og hangikjöt, því þú vissir að það þótti mér best. Og það var ekki við annað komandi en að taka í eitt spil eða hlusta á einn geisladisk áður en farið var að sofa en það dróst oft langt fram á nótt, því margt þurfti að spjalla.

Það er margs að minnast vegna þeirra mörgu samverustunda, sem við áttum. Til að mynda hvað þú varst hreykin þegar þú sýndir mér myndaalbúmið þitt með myndum af hverri einustu kirkju á landinu, en það var eitt af mörgum áhugamálum þínum sem þú einsettir þér að klára, og það tókst, þótt ekki mætti miklu muna.

Ég gæti haft þetta margar síður, en hver veit nema við rifjum það upp síðar. Mér brá verulega þegar Palli bróðir hringdi og sagði að þú hefðir veikst alvarlega á tónleikum hjá honum, en einhvern veginn fannst mér að þú myndir klára þig af því áfalli eins og öllum öðrum áföllum sem þú þurftir að ganga í gegnum í þínu lífi.

Eins og þegar ég tók á móti þér á Landspítalanum og þú vissir að þú þurftir að ganga í gegnum mjög tvísýna aðgerð. Þegar ég kvaddi þig fyrir aðgerðina tókstu óvanalega fast utan um mig og kvaddir mig með þessum orðum: "Jæja, Einar minn, nú þarf víst að fara að drífa í þessu, ég hitti þig örugglega seinna og skilaðu kveðju til krakkanna." Það voru þín síðustu orð við mig. Ég held að þá hafir þú vitað hvað klukkan sló, þín tímaklukka. Ég ætla ekki að hafa þessa kveðju lengri og veit að það verður vel tekið á móti þér þarna hinum megin.

Mig langar að kveðja þig með þessu erindi úr ljóði eftir Tómas Guðmundsson, sem þú söngst fyrir mig aðeins 14 ára gamlan þegar Sævar heitinn bróðir dó:

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.

Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.

Einir fara og aðrir koma í dag

því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

Og til eru ýmsir sem ferðalag þetta þrá,

en þó eru margir sem ferðalaginu kvíða.

Og sumum liggur reiðinnar ósköp á,

en aðrir setjast við hótelgluggann og bíða.

Við söknum þín sárt.

Kveðja.

Einar.

Þá hefur lífsklukka Ingigerðar Einarsdóttur gengið út, en það þakkarvert að hennar klukka gekk nær hnökralaust í rúm 82 ár, og kallið kom þar sem henni þótti skemmtilegast að vera, á söngskemmtun að hlusta á fallegan kórsöng. Söngur var hennar líf og yndi, hvort heldur var að hlusta á aðra syngja, þá helst karlakóra eða syngja sjálf, en hún starfaði með kór aldraðra á Akureyri allt fram á síðasta dag. Það var ósjaldan sem kórstjórar og flytjendur höfðu samband við hana vegna texta við lög sem efi var á að væru réttir, enda var hún óhrædd að láta vita ef henni fannst ekki rétt með farið. Vísur og textar voru henni samofnir, svo auðveldlega lærði hún þá og mundi, að ótöldum vísunum sem hún orti sjálf. Hún var hraust og varð sjaldan misdægurt, þó svo að lífsbaráttan væri ekki alltaf átakalaus.

Hennar er sárt saknað og minningarnar hrannast upp og verða vel geymdar, og fylla tóm í hjarta okkar. Ferðin norður var óvenju hljóðlát og raunveruleikinn rann smátt og smátt upp, enda síðasti spölurinn niður Öxnadalinn hljóðari en við eigum að venjast, en þar hefur tilhlökkunin og eftirvæntingin náð hámarki í ferðum okkar norður.

Hún var ákveðin og framkvæmdi af ákafa og eljusemi það sem hún tók að sér, hvort heldur var í vinnu, félagsmálum eða tómstundaiðju. Hún átti sérlega gott með að læra og naut hún þess allt fram á síðustu stund að bæta við sig þekkingu. Í hennar huga var ekki til efi um að hún gæti framkvæmt það sem hún ætlaði sér. Aðeins eitt vitum við um sem hún lærði aldrei, það var að hjóla. Hún gerði síðustu tilraun til að læra að hjóla í ferðalagi okkar til Hollands fyrir tuttugu árum, þar lagði hún hart að sér, en ævintýrið endaði úti í runna með tilheyrandi skrámum og brambolti og þar taldi hún fullreynt að hún lærði að hjóla. En við höfðum bara gaman af og gleðjumst yfir skemmtilegri minningu. Ferðalög voru hennar yndi og Ísland skoðaði hún af kostgæfni og vílaði ekki fyrir sér að fara ein um fáfarnar slóðir. Ekki dró hún af sér við að viða að sér myndum af kirkjum landsins og á endanum voru þær allar komnar í albúm. Inga var hafsjór að fróðleik, og kunni ógrynni af vísum, gátum og þau voru ófá spilin og kaplarnir sem hún kunni og miðlaði til afkomenda sinna.

Nú eru jólin á næsta leiti, en Inga var óþreytandi við spilaborðið og sló ósjaldan sér yngra fólki við í spilamennskunni. Jólin verða öðruvísi í ár.

Minning um mömmu, tengdamömmu, ömmu og langömmu mun lifa í hjörtum okkar um ókomin ár og þau eru mörg verkin hennar sem ylja og minna á eljusemi og umhyggju hennar fyrir afkomendum sínum.

Guð blessi minningu hennar.

Heiðar, Kristjana og fjölskylda.

Er sólin hnígur hægt í djúpan sæ

og höfuð sitt til næturhvíldar byrgir

á svalri grund, í golu þýðum blæ,

er gott að hvíla þeim er vini syrgir.

Í hinstu geislum hljótt þeir nálgast þá,

að huga þínum veifa mjúkum svala.

Hver sælustund sem þú þeim hafðir hjá

í hjarta þínu byrjar ljúft að tala.

Og tárin sem þá væta vanga þinn

er vökvan, send frá lífsins æðsta brunni.

Þau líða eins og elskuð hönd um kinn

og eins og koss þau brenna ljúft á munni.

Þá líður nóttin ljúfum draumum í

svo ljúft að kuldagust þú finnur eigi,

og fyrr en veist þá röðull rís á ný

og roðinn lýsir fyrir nýjum degi.

(Hannes Hafstein)

Þakka þér fyrir allt - og góða ferð.

Þinn sonur,

Ólafur Unnar.

Elsku Inga mín, nú ertu farin í þína síðustu ferð, án leiðsagnar og mals. Þú sem varst alltaf leiðsögumaðurinn til hinstu stundar. Alltaf á ferð og flugi - bæði innan lands og utan. Þekktir hvern krók og kima okkar fagra lands. Hringdir og lést vita hvar þú værir og að allt væri í lagi. Þú varst eldhugi til allra verka, skapandi og gefandi. Ósérhlífin varstu og barst hag allra þinna ættingja mjög fyrir brjósti. Ógleymanlegar stundirnar okkar á jóladag heima hjá þér í fallegu stofunni þinni. Hangikjöt og laufabrauð, og síðan var spilað Púkk og Lander allan daginn og langt fram á rauðanótt. Ég mun geyma minningarnar um þig, litlu konuna með stóru sálina, við mitt hjarta um ókomna framtíð.

Vertu sæl, elsku Inga mín, og ég bið að góður Guð umvefji þig og leiði á sínum ljóssins vegum.

Ég legg af stað án leiðsagnar og mals.

Mér lokast hvergi vegir austan fjalls.

Ég sigli hraðbyr sumarloftið blátt

í sólarátt.

(Eiríkur Einarsson)

Þín tengdadóttir,

Sesselja (Fríða).

Elsku Inga mín. Þú ert farin og bara svona allt í einu. Ég sakna þín svo mikið. Þú gafst mér svo mikið í mínu lífi, ég hef alltaf litið á þig sem mína bestu vinkonu. Við hvern get ég talað núna? En ég fékk samt að kveðja þig. Þú varst svo bjartsýn uppi á spítala, sagðir: "Svona áfram með þetta, drífið ykkur í burtu, ég má ekki vera að þessu því ég er að fara í aðgerð, við sjáumst bara á eftir."

Við elskum þig og söknum þín öll.

Kveðja frá Inga Frey og Unnu Dís.

Þórdís.

Manni verður orða vant þegar maður fær fréttir um fráfall ástvinar. Margar spurningar herja á hugann, en sú stærsta af þeim öllum er trúlega: Af hverju? Og þar sannast það best að þegar stórt er spurt verður lítið um svör.

Ég var svo viss um að tengdamóðir mín myndi að minnsta kosta ná hundrað ára aldri, hún sem var svo full af orku og dugnaði og varð aldrei misdægurt.

Hugur minn hverfur til baka, alla leið til ársins 1985. Það var þá sem ég hitti hana Ingu fyrst. Ég og Óli vorum þá farin að búa á Vesturgötunni og hún kom í heimsókn. Ég var óneitanlega örlítið kvíðin og Óli auðvitað búinn að stríða mér á því, þannig að þegar dyrabjallan hringdi hefur hjartað mitt eflaust tekið eitt aukaslag, en það var mjög fljótt eftir það sem mér varð ljóst að þessi kvíði var algerlega óþarfur. Þarna hitti ég fyrir sterka og dugmikla konu, jákvæða og fulla af fróðleik og skemmtilegum sögum.

Síðan þá hafa heimsóknirnar verið svo ótal, ótal margar á báða bóga. Og eitt það skemmtilegasta var þegar hún stoppaði í einhverja daga og gisti hjá okkur. Þá var hún oftar en ekki á leiðinni út í heim, að drekka í sig enn eitt ævinýrið og fræðast og skemmta sér.

Alltaf fannst mér jafn gaman þegar hún kom úr ferðalögunum sínum, við sátum og hlustuðum á ferðasöguna og skoðuðum myndir og lifðum okkur inn í ævintýrið.

Ég held að ég geti alveg fullyrt að ég hafi ekki kynnst neinum sem er eins víðförull og hún Inga. Hún heimsótti yfir þrjátíu lönd í fjórum heimsálfum og var alltaf jafn spennt þegar átti að fara í enn eina ferðina og takast á við enn eitt ævintýrið.

Það sama á við þegar talað er um allt það handverk sem Inga hefur gert um ævina, stundum fékk maður á tilfinninguna að sólarhringurinn entist henni ekki í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur. Hún smíðaði, skar út, tálgaði, renndi tré, saumaði, heklaði, prjónaði, perlaði, kunni hatta- og skermagerð, postulínsmálun, gerði listafallegar mósaíkmyndir, útsaumsmyndir, auk þess orti hún kvæði, gamanvísur og kunni ógrynnin öll af kveðskap eftir aðra. Það verður mér alltaf ráðgáta hvernig henni vannst tími til að gera öll þessi ósköp, og þá eru ótalin öll félagsstörfin, spilamennskan og það sem hún dundaði sér við heima, eins og sultugerð, bakstur, eldamennska og öll önnur heimilisstörf.

Ég get ekki annað en sagt að það hafi verið hreint ævintýri að vera tengdadóttir hennar Ingu síðustu 21 ár, ekki það að við höfum alltaf verið sammála um alla hluti, en alltaf náðum við að vinna úr því sem okkur greindi á um, og þegar allt kemur til alls er það það sem stendur upp úr. Það er mikill missir að þessari sómakonu og tómleikinn fyllir hjarta mitt á þessari stundu.

En vitandi það að Inga lifði lífinu lifandi og til fulls fær mig samt til að líða örlítið betur, það mættu svo sannarlega margir taka hana sér til fyrirmyndar. Skemmtilegar og hlýjar minningar mínar og fjölskyldu minnar um hreint ótrúlega ömmu munu lifa áfram um ókomna tíð.

Takk fyrir allt, Inga mín.

Þín tengdadóttir,

Elfa.

Elsku amma, eða Inga amma eins og við krakkarnir vorum vön að kalla þig. Ég er ennþá að reyna að skilja það að þú skulir vera farin, farin eitthvað annað en til útlanda, eitthvað svo miklu lengra. Ég gleymi því aldrei, þegar ég fékk bréfin frá þér. Í þeim skrifaðirðu um lífið og tilveruna, þau voru svo oft löng og hressandi, jafnvel nokkrar síður og þau hafa sko hjálpað mér í gegnum mína hörðustu tíma. Ég á þau enn og mun varðveita þau mjög vel og munu þau reynast mér góð minning.

Ég man svo vel þegar okkur datt í hug að halda ættarmótið góða. Einhverra hluta vegna þá var ég búinn að gleyma því hvaða fólki ég væri eiginlega skyldur, en þú varst ekki lengi að bjarga málunum, sendir mér bara bréf sem innihélt allar upplýsingar um ættina eins og hún lagði sig, með símanúmerum og öllu saman, þú varst alltaf með allt á hreinu.

Þú gast setið með okkur krökkunum tímunum saman og spilað, alltaf svo góð og svo laumaðir þú að okkur "ömmunammi" þegar enginn sá til. Þú varst rosaleg athafnakona og sast aldrei auðum höndum, alltaf að bralla eitthvað og ég veit að þú átt eftir að halda því áfram á þeim stað sem þú ert á núna, alla vega ef ég þekki þig rétt, þá finnur þú þér eitthvað að brasa.

Ég sakna þín rosalega mikið og vildi óska að ég hefði hitt þig oftar en ég gerði, en ég veit að sama hvar þú ert, þá ertu alltaf nálægt og passar upp á mig.

Ég elska þig.

Þinn ömmustrákur,

Sigurþór Sævar.

Elsku amma mín. Nú ert þú farin frá okkur upp til Guðs og englanna. Það var svo gaman þegar þú varst á lífi, sérstaklega fannst mér gaman þegar við púsluðum saman, þú vildir alltaf hjálpa mér að púsla. Ég mun alltaf muna þegar þú heimsóttir okkur og þegar við komum til þín á Akureyri. Ég mun sakna þín mjög mikið, elsku amma mín, en ég veit að þér líður mjög vel núna.

Þinn ömmustrákur,

Stefán Hlynur.

Þessu er erfitt að trúa, að hún Inga amma sé farin frá okkur. Ég og amma brölluðum margt saman, sérstaklega eftir að ég kom norður. Ég bjó hjá henni þegar ég byrjaði í framhaldsskóla og var það alveg yndislegt. Hún var tilbúin til að gera allt fyrir mig. Hrönn vinkona fékk meira að segja að flytja inn í litla herbergið mitt, en hún amma hafði bara gaman af okkur og því sem við vorum að bralla á þeim tíma.

Amma var viskubrunnur sem ég leitaði mikið í og alltaf var hægt að leita eftir aðstoð hjá henni. Ég man eftir því þegar hún kom í upphlut á leikskólann Klappir sem ég var að vinna á og sagði börnunum gömul ævintýri og vísur en það var eitthvað sem amma kunni endalaust af.

Ég er mjög rík af handverki eftir hana en handverk var hennar vinna, hvort sem það var að smíða, prjóna, hekla, gimba og svona mætti lengi telja. Ég er reyndar mjög rík af góðum minningum um ömmu sem verða varðveittar.

Amma býr í hjarta okkar allra.

Linda Hlín.

Ég man eftir Ingu langömmu. Hún kom með okkur í sund á Þelamörk. Ég man hvað ég og Arnór Atli gerðum hjá langömmu. Hún prjónaði falleg teppi handa mér og Heiðari bróður. Góði Guð, vilt þú passa Ingu langömmu?

Ég sakna Ingu langömmu mikið.

Andrea Dögg.

Nú ljúfa þökk fyrir allt og eitt

sem áður lékum í bernsku haga. (Bj.St. Bj.)

Þessar gömlu ljóðlínur komu upp í huga minn er mér barst sú óvænta frétt að Inga systir mín væri dáin. Hún gætti mín frá frumbernsku, kenndi mér ótal margt sem með árunum fleytti mér fram til þroska. Og var okkur "litlu stelpunum" Hlíf og Dóru ómetanlegur félagsskapur á afskekktu sveitaheimili með söng sínum og glaðlyndi. Já, hún söng allan daginn, lærði allar vísur og kvæði sem hún komst í tæri við og ef svo fannst lag sem passaði þá söng hún það.

Hún var snemma kjarkmikil og dugleg ásamt með góðum hæfileikum bæði til munns og handa. Orðin ,,ég get ekki" virtust ekki vera til í hennar orðaforða.

Lífið er ekki alltaf leikur og hún mátti þola þá miklu raun að missa einn drenginn sinn í slysi tíu ára gamlan, einstaklega efnilegt barn.

Nú er sárt fyrir syni hennar að sjá henni á bak. Og fyrir tengdadæturnar, barnabörnin og barnabarnabörnin. Já, bara okkur öll, frændlið og vini. En það er ein huggun í harmi sem við skulum hugsa um. Er ekki gott að fá að fara svona og þurfa ekki að líða hrörnun sem oft fylgir háum aldri. Hún gat sinnt flestum sínum áhugamálum til hinstu stundar og það er gott.

Ég vil líka þakka öllu því indæla fólki sem Inga var með og kynntist í félagskap aldraðra, spilaklúbbnum og leikfiminni. Eg vil þakka því þann góða félagskap sem það veitti henni og var henni svo óendanlega mikils virði.

Hlíf Einarsdóttir.

Inga er...ég meina var. Það verður erfitt að breyta nútíðinni í þátíð. Inga móðursystir hefur verið partur af minni tilveru síðan ég var tíu ára og fór í sveit í Tungunum. Þá var Inga mér innan handar og alltaf síðan. Á mínu fjölskyldutré mundi ég raða henni við hliðina á mömmu. Hún tók okkur Heiðu, tvo unglingsbjána, inn á heimilið á Tálknafirði um sumartíma þegar hún var nýflutt þangað þó að fermetrarnir væru ekki margir og við tókum aldrei eftir því að við værum fyrir henni. Hún hikaði ekki við að tjá sig ef henni fannst hallað réttu máli, varð til dæmis hvassyrt þegar einhver taldi ekki ástæðu til að við unglingarnir færum í pásu nema til að reykja. Hún hafði örugglega enga hugmynd um hvað orðið kynslóðabil þýddi. Ég skrifaði upp eftir henni á þessum árum fullt af því sem hún kallaði delluvísur en hún var ótæmandi sjóður af alls konar kveðskap. Gat alla ævi farið reiprennandi með kvæðabálka upp á tugi erinda ef ekki hundruð og bjó til vísur sjálf ef á þurfti að halda. Hún safnaði að sér alls konar efni til að stytta fólki stundir í óteljandi ferðalögum og ósjaldan sá hún þá um leiðsögn og fararstjórn. Áhugamál okkar lágu víða saman, til dæmis brá hún skjótt við ef eitthvað þurfti að gera í Laufáshópnum og gaman var að vera með henni í Sænautaseli í sumar. Henni óx fátt í augum og var alltaf til í tuskið. Tók til dæmis að sér vísindarannsóknir fyrir mig með því að athuga hvort kýrhalar á Balí lokkuðust réttsælis eða rangsælis þegar hún átti leið þar um. Þegar ég spurði hana hvort hún mundi ekki koma í afmælið mitt uppi á Þeistareykjum var hún ekki viss, skrokkurinn var eitthvað ekki eins og hún vildi en auðvitað kom hún. Þar spurði hún eftir fjallagrösum, skrapp með léreftspoka niður í mó og kom að vörmu spori til baka með það sem hún sagði duga til ársins. Þetta varð síðasti dagurinn okkar saman. Það er dýrmætt að fá að halda andlegu og líkamlegu þreki til síðasta dags. Á fimmtudegi var hún í leikfimi og endurnýjaði ökuskírteinið sitt, á föstudegi á tónleikum, á laugardegi var hún látin. Ég er rík að eiga minningarnar um svona manneskju.

Elín Kjartansdóttir.

Ég var að frétta að Inga móðursystir mín væri dáin. Hún var ein af fyrirmyndunum mínum. Inga er ennþá ein af fyrirmyndunum mínum. Ein af þessum sterku konum sem lifðu lífinu eins og mér finnst að eigi að gera. Hörkudugleg að sjálfsögðu og lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Það er mér minnisstætt þegar hún og móðir mín voru í heimsókn hjá mér í Árósum fyrir mörgum árum. Þær systur höfðu farið í skoðunarferð og voru að koma frá lestarstöðinni sem var rétt hjá heimili mínu. Inga gekk yfirleitt mjög rösklega sem ekki verður sagt um móður mína. Ég stóð þarna í eldhúsinu og sá út um gluggann að Inga kom arkandi fyrir horn og mamma kom svo trítlandi langt á eftir. En svona var Inga bara. Ekkert hangs þar. Ég bjó hjá henni á Tálknafirði nokkrar vikur um sumartíma sem unglingur. Þar var gott að vera. Svo flutti hún til Akureyrar og ég var að rekast á hana á ólíklegustu stöðum hér í nágrenninu síðustu árin eftir að ég flutti líka hingað heim. Ég rakst á hana inni í Kjarnaskógi þegar ég var í göngutúr með hundinn minn. Þar var hún að tína jurtir. Ég rakst á hana á Dalvík að smakka saltfiskvöfflur á fiskideginum mikla. Svo sá ég hana náttúrulega á Punktinum, alltaf að smíða eitthvað. Ég held að hún hafi ekki þekkt hugtakið "að nenna ekki". Inga settist allavega ekki í helgan stein þegar hún hætti að vinna, nei hún hélt áfram að gera allt þetta skemmtilega sem lífið býður upp á. Hún virkaði frekar eins og hún þyrfti ástæðu til að gera hlutina ekki. Ef sú ástæða var ekki fyrir hendi, þá gerði hún hlutina bara eins og ekkert væri sjálfsagðara. Af hverju ekki?

Ég sendi sonum hennar og fjölskyldum þeirra samúðarkveðjur mínar og veit að minningin um Ingu verður okkur öllum kær. Því betri fyrirmynd finnst varla og sem slík mun hún lifa í hugum okkar áfram.

Arnfríður Kjartansdóttir.

Í dag er kvödd góður félagi og vinur Ingigerður Einarsdóttir.

Ingigerður flutti frá Tálknafirði til Akureyrar 1986 og hóf þá störf hjá Útgerðarfélagi Akureyrar. Þegar hún hætti vinnu á hinum almenna vinnumarkaði vegna aldurs fór hún að rækta sjálfa sig og sína hæfileika. Byrjaði hún á því að sækja "Punktinn" en þar er stundað alls kyns handverk og þar sameinast fólk með sína sköpunargleði. Á Punktinum undi Ingigerður sér vel, enda sagði hún sjálf að þar með væri framtíð sín í ellinni ráðin. Þar eignaðist hún marga góða vini en fallegustu hlutirnir sem hún bjó til og prýða heimili hennar eru útskorin ljósakróna og ruggustóll með útsaumuðu áklæði.

Kynni okkar Ingigerðar hófust í gegnum félagsstarf eldri borgara og voru þau alla tíð hin ánægjulegustu. Hún var ritari í stjórn F.E.B. og formaður ferðanefndar til margra ára. Á ferðalögum naut hún sín vel - hafsjór fróðleiks sem hún miðlaði svo skemmtilega til allra þeirra sem með henni ferðuðust. Sönggleðin var mikil enda söng hún alla tíð í kór eldri borgara "Í fínu formi" sem hún hafði mikla ánægju af.

Ég vil að lokum þakka Ingigerði allar þær ánægjustundir sem við áttum saman.

Sonum Ingigerðar og fjölskyldum þeirra sem voru henni svo kær sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Björg Finnbogadóttir,

fyrrv. form F.E.B.

Við Ingigerður spiluðum saman brids í áraraðir í Hlíðarbæ norðan Akureyrar. Ingigerður var greind og sérstök kona. Hún kunni þau ósköp af kvæðum og frásögnum að það var alveg ótrúlegt, einnig var hún vel hagmælt. Á ferðalögum okkar með bridsfélaginu gerði hún gamanvísur og skemmti okkur af sinni einstöku snilld.

Ingigerður var fararstjóri í mörgum ferðum sem félag aldraðra á Akureyri stóð fyrir. Þar kom fólki saman um að hún væri góður stjórnandi, allt stóð eins og stafur á bók. Eins fræddi hún okkur um það sem fyrir augu bar og þar var ekki komið að tómum kofunum.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm,

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm,

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund,

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu gengin á guðanna fund,

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingr.)

Ég vil þakka Ingigerði fyrir allt sem hún gerði fyrir mig, hún var góð vinkona og gerði mér lífið ánægjulegra.

Vertu sæl, kæra vinkona.

Friðbjörg Friðbjörnsdóttir

Friðbjörg Friðbjörnsdóttir