Sýningu er lokið

GRYFJA Listasafns ASÍ við Freyjugötu hefur verið klædd í draumkenndan búning: hvítur segldúkur hylur veggi og gólf og á hann er varpað stuttum myndskeiðum og stemningartónlist hljómar úr hátölurum. Hér er um að ræða myndbandsinnsetningu í rýmið, eða myndbandssviðsetningu eins og höfundurinn, Kristín Helga Káradóttir, kallar það.

Verkið tengist vissulega sviðslistum en Kristín Helga sviðsetur hér sjálfa sig sem nokkurs konar snædrottningu í snævi þöktu umhverfi og notar leikræna tjáningu til að miðla frásögn undir yfirskriftinni "Þráðlaus tenging". Titillinn gæti vísað til þess að söguþráður verksins er sundurslitinn; frásögnin á mörgum skjáum birt en það krefst þess að sýningargesturinn hreyfi sig um rýmið og ráði í myndmálið - og tengi saman upplýsingar.

Hvítklædd og hvíthærð kona stendur hjá hvítum hesti, á öðrum stað leiðir hún hann yfir brú og á þeim þriðja teymir hún hann eftir vegi þar sem svipmót borgar sést í bakgrunni. Annað myndskeið sýnir konuna grafa í sífellu með höndunum í snjó og á enn öðru horfir hún á sýningargestinn einlæg á svip og réttir fram vönd af bláum blómum. Myndskeið á gólfi býður gestinum að setja sig í spor konunnar og ganga á blómunum.

Óneitanlega kvikna hér hugmyndir um sakleysi og rómantíska leit eða þrá. Verkið býr yfir draumkenndri dulúð, sem undirstrikuð er með tónlistinni og táknuð ljóslega með bláum blómum. Brúin táknar ef til vill tenginguna, sem yfirskriftin vísar til, milli draums eða dulvitundar og veruleika. Sýning Kristínar Helgu er vel útfærð og er staðsetningin í Gryfjunni viðeigandi; það er líkt og sýningargestir fari "niður" í undirvitundina, hjúpaðir annarlegu andrúmslofti.

Þráin birtist sem rómantísk myndlíking konu sem leiðir hvítan hest áfram veginn en álengdar sést borgarbyggð. Borgin skírskotar til rökvæðingar nútímans og glataðs sakleysis fyrri tíma. Snædrottningin virðist tilheyra liðnum tíma, eða að minnsta kosti er hún utanveltu í nútímasamfélagi - en með sýningunni bendir Kristín Helga á að þar er vert að gefa meiri gaum að tilfinningum og órökvísum kenndum.

Anna Jóa