Matthías Johannessen "Það er margt sem ég sé öðru vísi eftir að ég hætti í hringiðunni... ."
Matthías Johannessen "Það er margt sem ég sé öðru vísi eftir að ég hætti í hringiðunni... ." — Morgunblaðið/Einar Falur
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is HUGVÍSINDASTOFNUN boðar til fyrirlestrar í dag í tilefni af útkomu bókarinnar Hrunadans og heimaslóð eftir Matthías Johannessen.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

HUGVÍSINDASTOFNUN boðar til fyrirlestrar í dag í tilefni af útkomu bókarinnar Hrunadans og heimaslóð eftir Matthías Johannessen.

Höfundur flytur erindi sem byggist á einni af ritgerðum bókarinnar, en Ástráður Eysteinsson flytur nokkur formálsorð.

Bók Matthíasar hefst á Hrunadansi , margþættum ljóðabálki sem speglar sýn skáldsins á lífið, menninguna og heimsmynd samtímans og kallast þannig á við annað efni bókarinnar. Í erindunum birtist sýn hans til bókmennta og ekki síst til annarra skálda og listamanna, þar á meðal Hannesar Sigfússonar skálds, sem Matthías talar sérstaklega um í erindi sínu.

Ritgerðir um ýmis efni

Þegar Matthías er inntur eftir því hvað hann ætli að segja í erindinu sem byggist sem fyrr segir á ritgerð hans um Hannes Sigfússon og kveðskap hans, segist hann lítið geta um það sagt. Og þó. "Þegar ég var í háskóla ungur maður, þá hvarflaði hugurinn oft að Dymbilvöku og hvernig hún hafði vaxið úr hefðbundnum skáldskap. Mér fannst þetta spennandi umhugsunarefni. Um þetta mun ég fjalla," segir Matthías. Hann segir að ritgerðirnar í bókinni séu um ýmis efni, en þær eru skrifaðar á árunum eftir að Matthías hætti störfum sem ritstjóri Morgunblaðsins , í árslok 2000. "Sumt hef ég flutt sem erindi, en fæst hefur verið birt. Ritgerðirnar eru um bókmenntir og menningarmál, en líka drepið á þjóðmál. Þetta er hugmyndaheimur minn frá því ég hætti ritstjórn."

Með steinbarn í maganum

Starfsævi Matthíasar er um margt sérstæð. Auk þess að vera með fremstu ljóðskáldum landsins á síðastliðnum áratugum var hann áratugum saman ritstjóri Morgunblaðsins . Í samtölum sínum, pistlum og ritgerðum hefur hann ekki aðeins brúað bilið milli blaðamennsku og bókmennta, heldur einnig milli fræðimennsku og skáldlegrar tjáningar.

Spurður að því hvort hugmyndaheimur hans hafi breyst frá því hann lét af störfum við blaðið og hvort hann hafi aðra sýn á lífið í dag en þá, svarar Matthías með langri þögn.... "...ég átta mig ekkert á því sjálfur. Ekkert endilega. Hefur ekki einhvern tíma verið sagt að maður ætti ekki að ganga með steinbarn í maganum? Ég hef sjálfsagt breytt um skoðanir á ýmsan hátt eins og allir gera; ekki síst við nýjar aðstæður og nýja reynslu. Aftur á móti hefur ljóðskáldið ráðið æ meir ferðinni." Matthías segir að árin á Morgunblaðinu hafi þó alls ekki verið steinbarnsár, heldur breytist fólk samkvæmt afstæðiskenningunni. "Umhverfið hefur mikil áhrif á mann, ekki síður en upplagið. Það er margt sem ég sé öðru vísi eftir að ég hætti í hringiðunni og mér finnst margt skrýtið í kýrhausnum."

Tengist Háskólanum

Matthías lauk meistaraprófi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands fyrir um hálfri öld og hefur æ síðan tengst Háskólanum sterkum böndum, m.a. sem fyrirlesari og stundakennari. Það er því vel við hæfi að Hrunadans og heimaslóð skuli koma út á vegum Háskólans, en það er Háskólaútgáfan sem gefur bókina út í dag.

Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 101 í Odda og hefst kl. 12.10. Að honum loknum er áheyrendum frjálst að varpa fram spurningum. Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.