Sarg "Líkt og fyrr greinir myndin frá kvikindislegum leikjum sem raðmorðinginn Jigsaw skipuleggur til að kenna breyskum samborgurum sínum lífslexíur," segir Heiða m.a. í dómnum.
Sarg "Líkt og fyrr greinir myndin frá kvikindislegum leikjum sem raðmorðinginn Jigsaw skipuleggur til að kenna breyskum samborgurum sínum lífslexíur," segir Heiða m.a. í dómnum.
Leikstjórn: Darren Lynn Bousman. Aðalhlutverk: Tobin Bell, Shawnee Smith, Angus MacFadyen, Bahar Soomekh. Bandaríkin, 108 mín.

ÞAÐ hefur að sumu leyti verið athyglisvert að fylgjast með ferli Sarg-þríleiksins, en myndirnar hafa þróast frá sadískri púsluspilsbyggingu í fyrsta hluta til þess að vera úrsérgenginn en blóði drifinn skrípaleikur í nýjustu viðbótinni, þriðju myndinni í röðinni og vafalaust ekki þeirri síðustu.

Líkt og fyrr greinir myndin frá kvikindislegum leikjum sem raðmorðinginn Jigsaw skipuleggur til að kenna breyskum samborgurum sínum lífslexíur en með auknum vinsældum seríunnar hafa aðstandendur orðið uppteknari en áður af svokallaðri "goðsögn" söguheimsins og furðulega miklum tíma er nú varið í að búa til baksögu fyrir Jigsaw sjálfan, og tilraun er sömuleiðis gerð til að smíða samhangandi fléttu fyrir allar þrjár myndirnar. Þessi hlið myndarinnar er stirðubusaleg með afbrigðum þar sem framvindan er reglulega kviðrist með einkennilegum innskotum úr fyrri tveimur myndunum, eða þá minningum sem eiga að skýra hugarheim Jigsaw. Þessi nýfundni metnaður aðstandenda Sarg-raðarinnar er hvimleiður, svo ekki sé meira sagt, en þá er reyndar rétt að taka fram að myndin öll er hvimleið og vandasamt að ráða fram úr því hvaða hlutar séu misheppnaðastir, pyntingar og kvalafullur dauði hina ýmsu fórnarlamba, afkáralegur meginsöguþráðurinn sem gengur út á að Jigsaw lætur ræna lækni til að halda sér á lífi (en hann þjáist af heilakrabbameini), eða þá saumaskapurinn sem lýsir sér í tilraun til að skapa samfellu milli myndanna þriggja.

Jigsaw er hugsaður sem eins konar afskræmt súperegó sem heldur refsivendi á lofti yfir sálarlausu nútímasamfélagi og neyðir fórnarlömb sín til að horfast í augu við misheppnuð lífshlaup sín. Þetta gerir hann sem heilari, hann vill vel enda þótt hann beiti óhefðbundnum aðferðum, svo vægt sé tekið til orða. Í nýjustu myndinni virðist þó aðstoðarmaður hans, Amanda (sem öðlaðist uppljómun eftir að hafa lent í krumlunum á Jigsaw), vera svikari - hún hafnar mannbætandi tilgangi pyntingaherferðarinnar og skipuleggur "viðburði" sem ómögulegt er að losna lifandi úr, en eins og þeir vita sem hafa séð fyrri tvær myndirnar miðast dýpsta rökvísi Jigsaw ávallt við það að hægt sé að sleppa úr ógöngum, ef viljinn og rétta skapgerðin er fyrir hendi. Þannig vita áhorfendur líka eitthvað sem Jigsaw ekki veit framan af myndinni, aðstoðarmaðurinn hefur sínar eigin hugmyndir um réttlæti, en það fer svo sem fyrir lítið: hugmyndin að hægt sé að spilla "annars ágætu" kerfi Jigsaw er fjarstæðukennd í sjálfu sér. Sú grimmilega birtingarmynd bandarísks ný-darwinisma sem einkennir seríuna hafði e.t.v. einhvern vott af frumleika og kaldhæðni í fyrstu myndinni, en þegar hér er komið sögu hefur hún verið þróuð í fáránlegar áttir, eftir situr bara slabb og slor, ógeð og andstyggilegheit.

Heiða Jóhannsdóttir