Sölvi Björn Sigurðsson
Sölvi Björn Sigurðsson
Eftir Sölva Björn Sigurðsson, Mál og menning. Reykjavík. 2006. 263 bls.

NÝJASTA skáldsaga Sölva Björns Sigurðssonar, Fljótandi heimur, er um margt sérkennilegt verk. Kemur þar til sá vísindaskáldsögulegi en um leið sálfræðilegi rammi sem bókin notast við en söguþráðurinn á sér stað á tveimur ólíkum stöðum á tveimur ólíkum tímabilum, en heimarnir tveir sameinast á vissan hátt að lokum. Ekki síður sérkennileg er sú aðferðafræði sem höfundur beitir við sköpun söguheimsins en það gerir hann í náinni samræðu við japanska skáldið Haruki Murakami, og það er í raun eðli og umfang þessarar samræðu sem vekur spurningar um hvers konar bók er hérna á ferðinni.

Textatengsl eru með öðrum orðum ofarlega á baugi í bókinni en þó með nokkuð óvanalegum hætti. Það er orðin hálfgerð klisja að nefna póstmódernisma endurvinnslustöð bókmenntahefðarinnar, lýsa honum sem eins konar speglasal þar sem naflaskoðun höfundar breiðir úr sér um rásir menningarsögunnar þannig að allt virðist að lokum hverfast um sjálfselskandi vitund sem þó finnst tilvistin óbærileg og leitar sér þess vegna skjóls í hýbýlum hins sundursprengda og síleitandi og síspyrjandi texta. Þessu fylgir kannski ákveðin þreyta, ákveðið fúllyndi í garð þeirra sem komu í partíið á réttum tíma, þeirra sem voru módern en ekki dæmdir til að vera á eftir og of seinir, póst. Einn af kostum Murakami er að hafa í sínum skáldskap unnið bug á þess konar þreytu og beiskju og beita þess í stað fyrir sig afslappaðri og góðlátlegri undrun yfir því hvað enn er margt óskiljanlegt í heiminum og sögunni. Skáldsaga Sölva er að vísu ekki sérlega góðlátleg en hún nýtir sér þann anda sem ræður ríkjum hjá Murakami til að endurnýja það sem að mörgu leyti eru orðnar klisjur póstmódernismans.

Af því gefnu er rétt að minnast á að samneyti Sölva við Murakami er það náið að ég minnist þess ekki að hafa beinlínis séð dæmi um slíkt áður í íslenskri skáldsagnagerð. Sölvi innlimar takta, einkenni, sögufléttur og andrúmsloft japanska höfundarins á máta sem tekur hefðbundnum endurvinnsluhugmyndum í raun fram, hann virðist bókstaflega setja sér það markmið að skrifa skáldsöguna sem Murakami kynni að hafa skrifað ef hann væri ungur íslenskur höfundur.

Sölvi reynir ekki að fela þá staðreynd að í þessari bók bregður hann sér í hlutverk sporgöngumanns en spurningin hlýtur þá að vera hvort um eins konar pastís sé að ræða eða hvort verkið sé sjálfstætt sköpunarverk sem styðst við og stendur í skrafi við aðrar bækur, og geri það á gefandi og spennandi hátt. Enda þótt mér hafi framan af ekki verið fullkomlega ljóst hvert svarið yrði við þessari spurningu treysti ég mér til að segja, þegar upp er staðið, að tilraun Sölva með Murakami sé vel heppnuð og skemmtilegt svar við þreytunni sem ég nefndi hérna að ofan.

Bragðið sem Sölvi beitir til að skáka póstmódernískri kaldhæðni er nefnilega einlægni, en samskipti hans við Murakami einkennast öðru framar af ánægju yfir því að sá síðarnefndi skuli yfirleitt vera til.

Það er ekki ný hugmynd að skáld sem koma fram á ritvöllinn þurfi að takast á við bókmenntahefðina, forvera sína og öll meistaraverkin sem mynda kennileiti bókmenntasögunnar. Bandarískt ljóðskáld, sem starfaði mestmegnis í Englandi, gerði til að mynda þá tilvistarkrísu unghöfunda að umfjöllunarefni sem felst í því að gera sér grein fyrir bókmenntalegu samhengi og þeirri sorglegu uppgötvun að öll meistaraverkin hafa þegar verið skrifuð. Að bæta sjálfum sér í þann flokk er sannkölluð grettisglíma. En í staðinn fyrir að berjast fyrir lífi sínu gerir Sölvi sér leik að þessari rökvísi bókmenntalandslagsins og skapar sína sögu í skugga stíflunnar miklu.

Og hver er þá sú saga? Hún er tiltölulega einföld. Ungur háskólanemandi, nýfluttur til Reykjavíkur, kynnist og verður ástfanginn af ungri, hálf-japanskri stúlku að nafni Saiko ("psycho?) sem reynist búa yfir dularfullri forsögu. Að þessu leytinu til er frásögnin ástarsaga í nútímalegri Reykjavík, utanaðkomandi kennileiti munu reynast íslenskum lesendum kunnugleg en sú staðreynd að sögumaðurinn er tiltölulega afslappaður karakter sem hefur lítinn áhuga á lífsgæðakapphlaupinu en nýtur sín þess í stað við að strauja skyrtur, elda pasta og svara ókennilegum símhringingum frá dularfullum konum, segir sitt um að lesendur séu staddir í Murakami-landi.

Að öðru leyti er fléttan langt í frá einföld. Boðefnasambönd undirmeðvitundarinnar koma við sögu, bygging og eðli drauma, sem og heila- og vitundarrannsóknir. En það sem þó stendur upp úr er að Sölva tekst glettilega vel að vinna úr þeim mikla efnivið sem hann leggur af stað með. Þetta felur í sér allnokkurt afrek þar sem Sölvi virðist hafa einsett sér að skapa verk sem í raun ferðast handan þess að vera sniðugt, eða bera fyrst og fremst gáfum höfundar fagurt vitni. Sagan sem liggur verkinu til grundvallar, samband Tómasar og Saiko, reynist hafa bæði mannlegar og harmrænar víddir þannig að að lestri loknum getur lesandi ekki annað en verið afskaplega sáttur við þá sérkennilegu samblöndu sem höfundur réttir fram.

Björn Þór Vilhjálmsson