[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur E. Stephensen og félagar í sænska meistaraliðinu Eslövs AI sigruðu Evrópu- og Þýskalandsmeistarana Frickenhausen 3:1 í Meistaradeild Evrópu í borðtennis á laugardaginn. Guðmundur lagði þar að velli Bojan Tokic , sem er í 55.
Guðmundur E. Stephensen og félagar í sænska meistaraliðinu Eslövs AI sigruðu Evrópu- og Þýskalandsmeistarana Frickenhausen 3:1 í Meistaradeild Evrópu í borðtennis á laugardaginn. Guðmundur lagði þar að velli Bojan Tokic , sem er í 55. sæti heimslistans, í hörkuleik, 3:2, þar sem loturnar enduðu 8:11, 20:18, 12:10, 5:11 og 11:9.

Jón Arnór Stefánsson lék í 21 mínútu og gerði 5 stig þegar lið hans Pamesa Valencia vann ViveMenorca 71:68 í spænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í gær. Valencia er í 12. sæti deildarinnar.

Logi Gunnarsson gerði 19 stig fyrir ToPo sem vann Team Componenta , 80:71, í finnsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik á laugardaginn. Logi er nú fjórði stigahæsti leikmaður deildarinnar með 20,5 stig að meðaltali í leik.

Gylfi Þór Sigurðsson , unglingalandsliðsmaður í knattspyrnu, skoraði fyrir unglingalið Reading í fjórða leiknum í röð um helgina. Reading beið þá lægri hlut fyrir Leicester , 3:1, en Gylfi gerði eina mark sinna manna.

Bandaríski kylfingurinn Jim Furyk sigraði á Nedbank golfmótinu í Suður-Afríku í gær með tveggja högga mun en hann tryggði sér 80 milljón króna í verðlaunafé. Samtals lék hann á 12 höggum undir pari vallar en samt spilaði hann lokadaginn á 74 höggum. Furyk hafði titil að verja á þessu móti en aðeins 12 keppendur tóku þátt og skiptu þeir á milli sín um 300 milljónum króna.

Sænski skíðamaðurinn Andre Myhrer fór með sigur af hólmi á heimsbikarmóti í svigi í Beaver Creek í Colorado í gærkvöld. Í næstu sætum voru Kanadamaðurinn Michael Janyk og Þjóðverjinn Felix Neurüther . Þetta var fyrsti sigur Myhrers í heimsbikarkeppni. Austurríkismaðurinn Benjamin Raich , Ítalinn Giorgio Rocca , sem vann mótið í fyrra, og Bandaríkjamaðurinn Bode Miller voru meðal þeirra sem féllu úr keppni í gærkvöld.

Rússar unnu Argentínumenn, 3:2, í úrslitaleik Davis-bikarsins í tennis í Moskvu í gær. Það var Marat Safin , sem tryggði Rússum sigurinn með því að leggja José Acasuso , 3:1, í einliðaleik.