[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur join@mbl.is Hann er þekktur sem besta eftirherman meðal páfagauka. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þeir geti raunverulega skilið mannamál. Hann getur verið mjög skapstór og kuldalegur.

Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur

join@mbl.is

Hann er þekktur sem besta eftirherman meðal páfagauka. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þeir geti raunverulega skilið mannamál. Hann getur verið mjög skapstór og kuldalegur. Hann á það til að plokka sig ef honum leiðist og einnig tengist hann oft aðeins einni manneskju. Sagt er að hann hafi gáfur á við fimm ára barn og tilfinningaþroska á við tveggja ára barn.

Bræðurnir Sindri Snær og Kristján Ingi eiga einn svona páfagauk, sem skemmtir heimilisfólkinu í tíma og ótíma enda er hann mikil félagsvera og meira að segja farinn að læra mannamál. "Við erum búnir að vera að kenna honum að segja nokkur orð. Hann kann til dæmis nú orðið að segja mjá, voff, mamma og svo segir hann halló í hvert skipti sem síminn hringir. Við þurfum hinsvegar að tyggja orðin nokkuð oft í hann áður en hann lærir þau til fulls, en það er voða gaman að eiga talandi páfagauk," segir Sindri, sem er 12 ára nemandi í Snælandsskóla og stundar auk þess fimleika og tennis. Bróðir hans Kristján bætir við að hann Bósi sé voðalega forvitinn um hvað sé í matinn og eigi það til að fá sér að smakka af diskunum.

Lífslíkurnar eru allt að 75 árum

Bósi heyrir til tegund að nafni Congo African Grey sem á uppruna sinn í Mið-Afríku. Kongó-grápáfinn er aðallega grár að lit. Hann er hvítur í kringum augun og á lærum og er með rautt stél. Goggurinn er svartur og fæturnir gráir. Lífslíkurnar geta orðið allt að 75 árum.

Bræðurnir segja að hann borði nánast allt sem að kjafti komi, svo sem kornfóður, ávexti, grænmeti, kjöt og fisk, en uppáhaldið er grillaðir barbeque-kjúklingavængir og ostur.

Foreldrar Kristjáns og Sindra, þau Ásta Rósa Magnúsdóttir og Svanberg Hreinsson, keyptu fuglinn fyrir rúmum tveimur árum óséðan í egginu sínu í versluninni Furðufuglum og fylgifiskum, en Bósi fæddist fiðurlaus þann 27. september árið 2004 og komst þá fljótlega í hendur ættleiðingarfjölskyldunnar sinnar þar sem hann unir hag sínum einkar vel. "Við eigum líklega öll upp á pallborðið hjá honum," segir Ásta og bætir við að hann sé einkar félagslyndur. "Hann þarf helst að fá að sitja á öxlunum eða á hausnum á okkur og hann fylgir mér fast eftir í heimilisstörfunum."

Kúkar í klósettið á morgnana

Fjölskyldan hefur í gegnum tíðina alið venjulega páfagauka, síðast par, sem sinnaðist með þeim afleiðingum að kerlingin drap karlinn einn góðan veðurdag þegar hann var að skoða eggin.

Bósi á sitt eigið búr, sem hann sefur í á næturnar og heldur til í þegar enginn er heima. Svo fær hann frelsi til að hreyfa sig um leið og einhver úr fjölskyldunni kemur heim. "Það þarf að vængstýfa hann reglulega með því að klippa flugfjaðrirnar, því glingrið okkar er í stórhættu fái hann að flögra um með óklippta vængi," segir Svanberg.

Bósi kann líka mannasiði því hann kúkar alltaf í klósettið á morgnana, en svo gerast slys af og til, enda er Bósi bara tveggja ára. "Klósettið hans er nefnilega vaskurinn á baðinu. Og svo fer hann alltaf með mér í sturtu á morgnana, stendur á handklæði fyrir utan sturtuklefann og syngur fyrir mig. Sjálfum finnst honum líka svolítið gaman að busla í vatni, en þá stendur hann gjarnan í dalli og eys yfir sig vatni," segir Svanberg að lokum.