Erna V. Ingólfsdóttir
Erna V. Ingólfsdóttir
Erna V. Ingólfsdóttir fjallar um lífeyrisgreiðslur og innflytjendur: "Þarna var komin ægilega fín viðskiptahugmynd. Virkja alla heldri borgara til að kenna innflytjendum íslensku."

"JÆJA elskan," sagði Jón bóndi við sína heittelskuðu Gunnu, konu sína til 50 ára. "Nú er ég bjartsýnn sem aldrei fyrr. Ríkisstjórnin er búin að lofa að við megum vinna okkur inn heilar 25 þúsund krónur á mánuði án tekjuskerðingar. Við getum loksins verið menn með mönnum og farið í vinnuna eins og hver annar. Að vísu veit ég ekki alveg hvernig eða hvar við eigum að fá vinnu, sem er svona illa borguð. Eftir því sem ég bezt veit þá má ég ekki hafa 50 þúsund og þú ekkert, því þá fer Tryggingastofnun í málið og hirðir vel sitt.

Svo fóru þau að spekúlera. Þau yrðu að fá vinnu einhvers staðar alveg rétt hjá heimilinu, því að annars þyrfti að eyða bensíni til að komast á staðinn. Þau yrðu þegar í stað að fjárfesta í mannbroddum og göngustöfum vegna hálku, því að eins og allir vita eru gamlingjar brothættari en unglingar. Þau þyrftu að hafa með sér nesti, því að það kostaði sitt að fá sér skyndibita. Þau yrðu að vera sómasamlega til fara, því ekki þýddi að bjóða vinnuveitendum upp á að koma í kjólgopa og trosnuðum gallabuxum.

Gamlingjar kenna íslensku

Þá datt þeim þjóðráð í hug. Hafði ekki ríkisstjórnin lofað 100 milljónum til íslenskukennslu fyrir þessa nauðsynlegu og vesælu innflytjendur, sem höfðu það enn verra en gamla fólkið?

Þau höfðu líka heyrt að það væri hægt að stofna alls konar einkafyrirtæki til þess að draga úr sköttum.

Þarna var komin ægilega fín viðskiptahugmynd. Virkja alla heldri borgara til að kenna innflytjendum íslensku. Nú þyrfti viðskiptaáætlun: Þau fóru þegar að huga að því að skoða nokkrar. Hvað kom í ljós? Þetta var heilmikið djobb. Í viðskiptaáætlun þurfa að vera alls konar súlurit í lit, ásamt háfleygum útreikningum að væntanlegum gróða af fyrirtækinu. Þetta þyrfti allt að vera gert á tölvu. En þau hvorki áttu né kunnu á tölvu. Nýsköpunarsjóður gæti hjálpað. Málið varðaði að sjálfsögðu nýsköpun.

Góðvild útrásarliðsins

Þegar hér var komið í bollaleggingum Jóns og Gunnu fóru þau að hugsa um að þau ættu kannski alls ekkert bágt. Til landsins höfðu komið 7 þúsund innflytjendur bara á þessu ári og talað var um að yfir 2 þúsund væru einhvers staðar í kerfinu og vissi enginn hvar. Ríkisstjórnin hafði ekkert hugað að þessu flæði.

Ef 7 þúsund innflytjendur myndu kannski vilja koma með konu og börn þá væri hægt að margfalda þessa tölu með 4 og útkoman væri 28 þúsund manns. Þetta fólk þyrfti einhvers staðar að búa. Það þyrfti að byggja fleiri skóla og barnaheimili í landinu o.s.frv.

Þá kom allsherjarlausnin. Þeir sem græddu mest á innflytjendunum og hefðu holað þeim niður í alls konar kompur og kofa opnuðu bara sínu stóru hús og tækju fólkið upp á sína arma.

Ekki nóg með það. Hér væru komin firnin öll af útrásarkóngum sem keyptu heilu knattspyrnuliðin í útlöndum og flygju landa á milli í einkaþotum. Þeir ættu ósköpin öll af húsnæði.

Þarna væri komið kærkomið tækifæri fyrir þá til þess að sýna viðskiptahæfileika sína og góðmennsku í verki. Og það á Íslandi. Við þurfum á innflytjendum að halda, en það þarf að taka mannsæmandi á móti þeim.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur og í miðstjórn Frjálslynda flokksins.