Dómkirkjan Allar kirkjur sem reistar eru fyrir 1918 eru friðaðar.
Dómkirkjan Allar kirkjur sem reistar eru fyrir 1918 eru friðaðar. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslensk byggingarsaga er talsvert frábrugðin sögu flestra annarra Evrópuþjóða. Af ýmsum ástæðum er hér minna um aldargömul hús enda er meðalaldur íslenskra húsa talinn vera 30-40 ár.

Íslensk byggingarsaga er talsvert frábrugðin sögu flestra annarra Evrópuþjóða. Af ýmsum ástæðum er hér minna um aldargömul hús enda er meðalaldur íslenskra húsa talinn vera 30-40 ár. Hér á landi hafa þó um árabil gilt reglur um friðun og varðveislu gamalla húsa sem stefna að því að varðveitt séu til framtíðar hús og mannvirki, sem talin eru hafa sérstakt gildi, menningarsögulegt, listrænt eða sögulegt.

Fá hús friðuð

Öll hús sem reist eru fyrir 1850 eru friðuð, svo og allar kirkjur reistar fyrir 1918. Það er á könnu menntamálaráðherra að taka ákvörðun um friðun yngri húsa og þá að fenginni tillögu húsafriðunarnefndar. Skal þá einkum og sér í lagi horft til menningarsögulegs eða listræns gildis húss. Á Íslandi eru nú um 360 hús friðuð, þar af 204 kirkjur. Þegar ákvörðun hefur verið tekin um friðun er henni þinglýst sem kvöð á þá fasteign sem í hlut á. Helsta þýðing friðunar er að óheimilt er að gera nokkrar breytingar á húseigninni án leyfis húsafriðunarnefndar.

Breytingar á eldri húsum

Friðunarreglur snerta þó fleiri en þau fáu hús sem beinlínis eru friðuð. Þannig er eigendum húsa, sem reist eru fyrir 1918, skylt að leita álits hjá húsafriðunarnefnd með góðum fyrirvara ef þeir hyggjast breyta húsi sínu, flytja það eða rífa. Þar sem almennt þarf byggingarleyfi fyrir hvers konar breytingum innan húss og utan, eða fyrir niðurrifi, fæst umsókn um byggingarleyfi ekki afgreidd fyrr en að fengnu áliti húsafriðunarnefndar.

Athugasemdir húsafriðunarnefndar geta lotið að efnisvali, aðferðum og hvort og hvernig fyrirhuguð breyting samræmist útliti eða svipmóti hússins. Við útgáfu byggingarleyfis er iðulega tekið mið af þessum athugasemdum. Auk almennra skipulags- og byggingarreglna getur aldur húss haft áhrif á hversu frjálsar hendur eigandi hefur til breytinga á fasteign sinni.

Styrkir úr húsafriðunarsjóði

Á grundvelli laga um húsafriðun er starfræktur sérstakur sjóður, húsafriðunarsjóður. Það er húsafriðunarnefnd sem stjórnar sjóðnum og ákveður styrki úr honum. Hlutverk sjóðsins er að veita styrki til viðhalds og endurbóta á friðuðum húsum og mannvirkjum. Húsafriðunarnefnd er jafnframt heimilt að veita styrki til viðhalds annarra húsa en friðaðra sem að dómi nefndarinnar hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi.

Úthlutað er úr sjóðnum í febrúar ár hvert en umsóknarfrestur er til 1. desember. Fjöldi umsókna hefur farið nokkuð vaxandi og eru nú rúmlega 200 á ári. Hljóti húseigandi styrkveitingu er eftirlit haft með því að verkefninu sé hrint í framkvæmd. Auk eftirlits kann húseigandi að njóta góðs af ráðgjöf og leiðbeiningum húsafriðunarnefndar áður og meðan á verki stendur.

Höfundur er lögmaður hjá Húseigendafélaginu.