Barátta Ívar Ingimarsson, miðvörður Reading, og Kevin Davies, leikmaður Bolton, í baráttu um knöttinn.
Barátta Ívar Ingimarsson, miðvörður Reading, og Kevin Davies, leikmaður Bolton, í baráttu um knöttinn. — AP
"ÞAÐ var vissulega gaman að skoða stigatöfluna í úrvalsdeildinni í morgun og það væri óskandi að hún liti eins út um miðjan maí," sagði Ívar Ingimarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Reading við Morgunblaðið í gær.

"ÞAÐ var vissulega gaman að skoða stigatöfluna í úrvalsdeildinni í morgun og það væri óskandi að hún liti eins út um miðjan maí," sagði Ívar Ingimarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Reading við Morgunblaðið í gær. Lið Reading heldur áfram að koma á óvart í ensku úrvalsdeildinni og situr nú í sjötta sætinu, með jafnmörg stig og Arsenal sem er í þriðja sætinu, eftir sigur á Bolton, 1:0, á laugardaginn. Það var fjórði sigurleikur Reading í röð og nú hafa aðeins tvö lið, Manchester United og Chelsea, unnið fleiri leiki en nýliðar Reading.

Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.is

Ívar lék að vanda allan tímann með Reading, eins og í öllum öðrum leikjum á tímabilinu, og Brynjar Björn Gunnarsson kom inná sem varamaður undir lok leiksins. Kevin Doyle gerði sigurmarkið í fyrri hálfleik en hann hefur skorað í fjórum síðustu leikjum Reading og er einn af markahæstu leikmönnum deildarinnar.

"Við erum mjög rólegir yfir þessari stöðu og erum ekki farnir að setja markið of hátt. Stefnan er fyrst og fremst að ná sem fyrst 40 stigum og tryggja liðinu áframhaldandi sæti í deildinni. Þegar því er náð, förum við að velta öðru fyrir okkur. Sigurinn í gær var mjög góður því Bolton er með þrusugott lið, með mikla reynslu í úrvalsdeildinni, og var í fjórða sæti fyrir leikinn. Með þessum úrslitum höfum við enn breikkað bilið á milli okkar og neðri liðanna í deildinni og það skiptir okkur mestu máli enn sem komið er," sagði Ívar.

Lið Reading byrjaði vel í haust en síðan kom slæmur kafli þar sem liðið tapaði nokkrum leikjum, flestum reyndar gegn bestu liðum deildarinnar.

"Það var vissulega erfiður kafli og það er svekkjandi að tapa fyrir öllum liðum, sama hver þau eru. En aðalatriðið var að við komum með ýmislegt jákvætt og ágætt sjálfstraust út úr þeim leikjum. Þá skipti öllu máli að komast sem fyrst aftur á sigurbraut og það tókst mjög vel. Eflaust hafa einhverjir verið byrjaðir að spá okkur slæmu gengi eftir þessa tapleiki og það var því mjög sterkt að koma svona öflugir til baka."

Kevin Doyle hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Reading en þessi ungi Íri var óþekktur í haust. Félagið fékk hann fyrir lítinn pening frá heimalandi sínu á síðasta ári. "Við erum með fullt af góðum og ungum strákum sem hafa bætt sig mikið. Doyle er gott dæmi um það, hann var keyptur til okkar fyrir 80 þúsund pund fyrir hálfu öðru ári síðan, og nú eru farnar að sjást fréttir um að einhver stórlið ætli að bjóða í hann átta milljónir punda. Hann og margir fleiri hjá okkur hafa sýnt hversu klókir menn hjá Reading eru að finna góða leikmenn," sagði Ívar.

Reading mætir Newcastle og Watford í þessari viku og síðan Blackburn og Everton. Eftir það tekur við mikil törn í kringum jólin. "Þá förum við aftur að spila við stóru liðin, jólaleikirnir eru gegn Chelsea og Manchester United á útivöllum, og það yrði því sterkt að vera búnir að safna einhverju í viðbót af stigum áður en að því kemur. Um það leyti verður líka komin betri mynd á okkar stöðu, við verðum búnir að mæta öllum liðunum einu sinni og staðan verður skýrari."

Staðráðinn í að njóta hvers leiks

Ívar leikur í fyrsta skipti í úrvalsdeildinni í vetur eftir að hafa spilað í öllum neðri deildunum í Englandi á undanförnum árum. Hann sagði að viðbrigðin að koma úr 1. deildinni og upp í úrvalsdeildina væru kannski ekki eins mikil og búast mætt við.

"Það hefur fyrst og fremst verið þvílíkt gaman að þessu, ég var búinn að bíða lengi eftir þessu tækifæri og hef frá byrjun verið staðráðinn í því að njóta hvers leiks. Það hefur oft verið talað um að þeir sem hafa spilað lengi í neðri deildunum séu ekki nógu góðir í úrvalsdeildina, og eflaust trúa þeir því oft sjálfir. En stærsta málið er að hafa trú á sjálfum sér. Það hefur líka sýnt sig að það er ekki mikill munur á bestu liðunum í 1. deild og þeim sem eru í neðri hluta úrvalsdeildarinnar. Wigan og West Ham sýndu fram á það í fyrra og við höfum gert það til þessa í vetur. En það er mikill munur á okkur og fleirum sem hafa 25-35 milljóna punda fjárhagsáætlun fyrir árið á meðan Manchester United og fleiri lið velta 200 milljón pundum á ári. Það er dálítið ósanngjarnt, en um leið mjög skemmtilegt að vera í námunda við slík lið," sagði Ívar Ingimarsson.

Í hnotskurn
» Reading vann Bolton 1:0 á laugardaginn og það var fjórði sigurleikurinn í röð. Hinir voru gegn Tottenham, Charlton og Fulham.
» Ívar Ingimarsson hefur spilað hverja einustu mínútu í fyrstu 15 leikjum Reading í úrvalsdeildinni. Brynjar Björn Gunnarsson kom inná og hefur spilað 13 af 15 leikjum Reading.
» Reading hefur aldrei áður leikið í úrvalsdeildinni en liðið vann 1. deildina með miklum yfirburðum í fyrra.