Tómas R. Einarsson og Erla Ólafsdóttir.
Tómas R. Einarsson og Erla Ólafsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flugustelpa vaknaði snemma á sunnudagsmorguninn, fékk sér sterkt kaffi og græjaði sig upp fyrir bæjarrölt: Hún var hins vegar ekki fögur sú ásýnd borgarinnar sem mætti augum árisulla heldur var það skömmustuleg Reykjavík sem heilsaði á þessum...

Flugustelpa vaknaði snemma á sunnudagsmorguninn, fékk sér sterkt kaffi og græjaði sig upp fyrir bæjarrölt: Hún var hins vegar ekki fögur sú ásýnd borgarinnar sem mætti augum árisulla heldur var það skömmustuleg Reykjavík sem heilsaði á þessum blíðviðrisdegi eftir skuggalegar aðventuskemmtanir aðalsins og alþýðunnar nóttina á undan. Furðu lostnir ferðamenn störðu á dreggjar djammsins á götunum; hálfétna Hlöllabáta í haugum á Ingólfstorgi og allt flæðandi í hálffullum bjórglösum. Sorgleg sjón en ef til vill geta borgaryfirvöld séð sæng sína uppreidda og boðið heimilislausum upp á svona næringarríkt ,,hlaðborð" á sunnudagsmorgnum í desember? En til allrar hamingju réð alvöru jólagleði ríkjum í mannskapnum á laugardaginn þegar landsmenn skiptust á brosum og peningum í örtröðinni á Laugaveginum og Kristján Þorvaldsson , ritstjóri Mannlífs og nýbakaður pabbi, gekk rösklega niður Bankastrætið , spjallandi í gemsann. Það var krúttlegt að standa í bókagrúski hjá Máli&Menningu við undirleik Lay Low sem heillaði viðstadda upp úr vetrarbomsunum með englarödd sinni og gítarspili. Sjaldan heyrt önnur eins fagnaðarlæti í bókabúð. Það var ekki alveg eins mikið uppnám í kringum sjónvarpsmanninn Gísla Einarsson sem sat umkomulaus við borð framar í versluninni í þeim tilgangi að veita eiginhandaráritanir á diskinn sinn Út og suður.

Tiger var líka svo troðfull að Fluga missti máttinn til að standa í biðröð út á götu með kerti í körfu en eins og allar almennilegar dömur vita þá er mikið á sig leggjandi fyrir kertin þar.

Rokkstjörnurnar Magni og félagar úr Rock Star Supernova rokkuðu feitt í Mekka músíkurinnar; Höllinni . Og þar var sko kátt! Þeir sem höfðu aldur til fengu sér bjór í herbergi sérstaklega til þess ætluðu og voru ekki sáttir við að mega ekki taka drykkjarföngin með sér inn í salinn. En stór hluti tónleikagesta var ungt fólk og jafnvel heilu fjölskyldurnar sem sátu þétt saman á tröppunum í stúkunum, þar á meðal nokkrar Dílönur sem klæddust líkt og stjarnan dimmraddaða sem var í svörtum blúndum og tjulli. Strákarnir í Á móti sól hituðu upp ,,Magnaða" mannmergðina og því næst tók hver stjarnan við af annarri í löngu stuðprógrammi þar sem hvergi var slegið af og er næsta víst að skvísan Storm hefur lagt línurnar hvað höfuðfatatísku varðar en hún skartaði hnausþykkri loðhúfu í svitabaðinu á sviðinu. ,,Svimi, svimi, svitabað" ...! | flugan@mbl.is