VANDKVÆÐI við mönnun í hjúkrunarfræðingastöður á legudeildum Landspítala - háskólasjúkrahúss er meginorsök biðlista eftir bæklunaraðgerðum, að því er segir í nýútkomnum starfsemisupplýsingum spítalans.
VANDKVÆÐI við mönnun í hjúkrunarfræðingastöður á legudeildum Landspítala - háskólasjúkrahúss er meginorsök biðlista eftir bæklunaraðgerðum, að því er segir í nýútkomnum starfsemisupplýsingum spítalans. Segir þar að fjöldi þeirra sem bíða eftir bæklunaraðgerð, þar með talið nýjum mjaðma- eða hnjáliðum hafi minnkað úr 477 árið 2003 í 429 á sama tíma í ár og bíði tæplega helmingur sjúklinganna skemur en 3 mánuði. "Eru þær skýringar helstar að ekki hefur tekist að manna legudeildir hjúkrunarfræðingum, auk þess sem fullmeðhöndlað fólk sem þarfnast aðhlynningar heima eða á hjúkrunarheimilum þarf oft að bíða langtímum saman á sjúkrahúsinu eftir viðeigandi vistun. Þessi legurými verða ekki nýtt fyrir sjúklinga sem þurfa á aðgerð að halda og afkastageta skurðstofa nýtist ekki að fullu," segir þar. Almennt hafa biðlistar styst til muna og hefur fjöldi skurðaðgerða vaxið frá árinu 2002 til 2005. Biðlistar eftir sumum aðgerðum, eins og bakflæðisaðgerð, heyra sögunni til og aðrir hafa styst svo mánuðum skiptir. Í ritinu segir jafnframt að við túlkun á biðlistum verði að taka tillit til ýmissa þátta eins og þess hve margar aðgerðir eru gerðar á dag, en langur biðlisti, í fjölda sjúklinga talið, getur reynst styttri en virðist við fyrstu sýn þegar biðtími er skoðaður. Þá verði að líta til þess að sjúklingar geta almennt valið sér lækni til að sjá um skurðaðgerð og séu sumir læknar vinsælli en aðrir og í mörgum tilfellum er það því undir sjúklingi komið hvort beðið er. Lögð er áhersla á það í ritinu að bráðatilfelli séu tekin til afgreiðslu án tafar.