Handtak Benedikt páfi (t.h.) heilsar Bartólómeusi patríarka í Istanbúl.
Handtak Benedikt páfi (t.h.) heilsar Bartólómeusi patríarka í Istanbúl. — AP
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is BENEDIKT XVI páfi flutti hefðbundin blessunarorð sín á sunnudegi á torgi Péturskirkjunnar í gær og sagði að ferð sín til Tyrklands í liðinni viku hefði verið "ógleymanleg reynsla.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

BENEDIKT XVI páfi flutti hefðbundin blessunarorð sín á sunnudegi á torgi Péturskirkjunnar í gær og sagði að ferð sín til Tyrklands í liðinni viku hefði verið "ógleymanleg reynsla." Hann vonaði að ferðin myndi koma að gagni og bæta samskipti kaþólsku kirkjunnar við múslíma og liðsmenn Rétttrúnaðarkirkjunnar í austanverðri Evrópu. Páfi hitti meðal annarra Bartólómeus I, patríarka, æðsta klerk Réttrúnaðarkirkjunnar, í Istanbúl.

Um 70 milljónir manna búa í Tyrklandi, þar af eru um 90.000 kristnir sem una lítt sínum hag og er þrengt að þeim á margvíslegan hátt. Er þeim meinað að reisa nýjar kirkjur og ýmsar skorður settar við starfsemi þeirra. Gagnrýndi páfi framkomuna við kristna í landinu, að vísu undir rós, er hann lagði áherslu á að allir ættu að hafa rétt til að iðka trú sína.

Um var að ræða fyrstu ferð páfa til múslímaþjóðar eftir að hann tók við embættinu í fyrra. Páfa þótti takast vel upp í ferðinni, hann lagði áherslu á að sættast við múslíma sem margir tóku óstinnt upp ummæli hans í ræðu fyrir tveim mánuðum en þau mátti skilja sem gagnrýni á íslam. Var til þess tekið er hann heimsótti Bláu moskuna frægu í Istanbúl að þegar hann baðst fyrir í hljóði í moskunni sneri hann sér til Mekka eins og allir múslímar gera, hvar sem er í heiminum, er þeir biðjast fyrir.

Stuðningurinn við aðild að ESB

Það sem stendur upp úr í huga Tyrkja er að páfi, sem fyrir nokkrum árum er hann var enn aðeins kardínáli lýsti andstöðu við að Tyrkir fengju aðild að Evrópusambandinu, virðist nú hafa skipt um skoðun. Hann sagði í samtali við forsætisráðherra landsins, Recep Tayyip Erdogan, að hann væri hlynntur aðild þeirra. Erdogan sagðist hafa beðið páfa um aðstoð við að komast í ESB og hann hefði svarað: "Þú veist að við erum ekki stjórnmálamenn en við vonum að Tyrkland gangi í Evrópusambandið."

Tyrkneskir fjölmiðlar efuðust samt um að páfi hefði í reynd látið slík orð falla og gaf skrifstofa Erdogans því út yfirlýsingu á föstudag.

"Á fundinum sagði Benedikt páfi XVI skýrt að hann vildi að Tyrkland gengi í Evrópusambandið," sagði þar. "Hann sagðist álíta að Tyrkland gæti lagt fram jákvæðan skerf til Evrópusambandsins með því að sýna að ólík trúarbrögð og menningarheimar gætu lifað saman í sátt og samlyndi."