Leikstjóri: Pupi Avati. Aðalleikarar: Livio Capolicchio, Francesca Marciano, Gianni Cavina, Giulio Pizzirani, Vanna Busoni, Andrea Matteuzzi. 110 mín. Ítalía. 1976

HRYLLINGSMYNDIR eiga það oft til að eldast illa. Þannig að þegar boðið er upp á ítalskan spennuhrylli frá árinu 1976 þá býst maður ekki við miklu. Þess vegna er gaman þegar myndin kemur manni á óvart. Að vísu eldist blóðið illa, nema kannski í byrjunaratriðinu þar sem óljós framsetningin hjálpar enn til að skapa smá dulúð. Jafnframt er nóg af klisjum.

Ungur aðkomumaður kemur í gamalt sveitaþorp þar sem eitthvað illt hefur búið um sig. Þarna má finna þorpsfíflið, ásamt dverg, vitfirrtri eiginkonu og brjáluðum framliðnum listamanni, svo nokkrar týpur séu nefndar.

En það sem lyftir myndinni upp er það að hún er gerð af natni. Hún hefur rómantísk yfirbragð og framsetning sögusviðsins upp úr 1950 er vel unnin. Leikarahópurinn skilar sínum rullum líka yfirhöfuð ágætlega. Einföldu hlutirnir virka - myrkrið, dularfullt fótartak, þögnin.

Já, margir yngri kvikmyndagerðamenn mættu taka Avati sér til fyrirmyndar hér. Það er ekki endalaus ofhlaðin hljóðrás þar sem öllu er drekkt í tónlist og látum því að myndinni er ekki treyst til að fanga áhorfendur.

Anna Sveinbjarnardóttir