Ríkisstjórnin heldur áfram að draga taum hinna ríkari SAMKVÆMT frétt í Mbl. 25. nóvember er hugmyndin að lækka virðisaukaskatt af áfengi niður í 7% í hagræðingarskyni.

Ríkisstjórnin heldur áfram að draga taum hinna ríkari

SAMKVÆMT frétt í Mbl. 25. nóvember er hugmyndin að lækka virðisaukaskatt af áfengi niður í 7% í hagræðingarskyni. Til þess að ríkissjóður missi ekki spón úr aski sínum skal hækka áfengisgjald (álagningu á alkóhólstyrk), þannig að ríkið haldi sínum hlut. Með þessu móti hækka ódýrari vín en dýrari vín af sama áfengisstyrk lækka.

Þetta er ekkert annað en illa dulbúin leið til að láta þá fátæku niðurgreiða verðlækkun til hinna ríku.

Ég sé ekki hvað mælir á móti því að hækka þann hluta álagningarinnar sem miðast við innkaupsverð til að mæta tekjutapi ríkissjóðs, áfengisgjaldið þarf hvort sem er að lækka og ætti auðvitað að hverfa af borðvínum.

Reyndar sé ég ekki hvað ríkissjóður á að gera með peninga, meðan hann má engu eyða og stýrivaxtahækkanir eru það eina, sem kyndir undir verðbólgunni, á meðan almenningur hefur ekki undan að greiða niður yfirdráttinn af góðærinu.

Þórhallur Hróðmarsson.

HÍ og KHÍ og gæði skóla

EGGERT Briem, prófessor í stærðfræði við Háskóla Íslands, þorir að segja það sem marga hefur langað til að segja í sambandi við sameiningu HÍ og KHÍ að nám við KHÍ sé á menntaskólastigi. Þar liggur hundurinn grafinn varðandi stærðfræðikennslu í grunnskólum. Það eru ekki nemendur úr eðlisfræðideild 1 í MR sem sækja í KHÍ.

Það þorir heldur enginn að tala upphátt um hvílíkur reginmunur er á stúdentsprófi eftir skólum. Nemendur með níu og meira frá MR ættu að spjara sig frábærlega í HÍ en það er ekki endilega víst að nemendur með níu úr ýmsum öðrum skólum spjari sig mjög vel. Einkunnir eru nefnilega ekki sambærilegar á milli skóla.

Eggert Briem ætti að þekkja nemendur í stærðfræðinámi í HÍ sem koma úr MR. Fyrir nokkrum árum útskrifaðist einn með stórkostlegum árangri, á þessu ári útskrifaðist annar með óvenjugóðum árangri og flestir standa sig mjög vel. Reyndar skera fornmáladeild og eðlisfræðideild 1 í MR sig algerlega úr. Segja má að nám þar sé á háskólastigi og nemendur þurfa að leggja gífurlega hart að sér til að ná góðum árangri. Nemendur annarra skóla þekkja líklega ekki sambærilegt vinnuálag og námskröfur.

Það er alger nauðsyn að fá góða nemendur á raunvísindasviði inn í KHÍ, með hvaða ráðum eða gulrót sem það yrði gert og gera nám þar meira krefjandi. HÍ gerir líklega meiri námskröfur en aðrir háskólar hérlendis. Það er alltof langt bil á milli HÍ og KHÍ til þess svo mikið sem ræða sameiningu.

Áhugamaður um nám og kennslu.

Auglýsingafarganið

GERIR enginn sér fyrir því að dýrtíðin hér á landi er tilkomin vegna auglýsingafargansins. Mikið af þessum auglýsingum birtist í svokölluðum fríblöðum en þetta eru ekki ókeypis auglýsingar því það vinnur fjöldi manns við að koma þeim á framfæri. Við sem sagt borgum þessar auglýsingar með hærra vöruverði. Ég hét því fyrir mörgum árum að kaupa aldrei vöru sem væri mikið auglýst enda eru þær oftast dýrari. Og svo nennir fólk ekki að lesa þessi blöð, segir að þau séu full af auglýsingum og fleygir þeim frá sér. Hvað gagn gera þá þessar auglýsingar?

Og auglýsingarnar í sjónvarpinu. Hvað gerir fólk þegar þær birtast. Það stendur upp til að lækka í sjónvarpinu eða fer að gera eitthvað annað á meðan. Og svo eru sumar auglýsingar þannig gerðar að maður áttar sig ekkert á hvað sé verið að auglýsa, maður skilur þær einfaldlega ekki.

Allar verslanir ættu að setja stóra auglýsingu utan á verslunarhúsið, svo stórar að þær sjáist vel og auglýsa: Við erum hættir að auglýsa vörur og lækkum vöruverðið í samræmi við það. Af hverju kemur enginn með svona hugmynd? Hvers vegna mótmælir enginn þessum ókeypis blöðum, þau eru ekki ókeypis því auglýsingar kosta sitt og dýrtíðin eykst vegna mikilla auglýsinga.

P.s. Og svo er það með tónleikahöllina. Ég var um þrítugt þegar byrjað var að safna fyrir tónlistarhúsi. Ég velti því fyrir mér hvort auðugir Íslendingar geti ekki styrkt byggingu hennar, þá yrðu þeir ódauðlegir meðal þjóðarinnar.

Ásta Bjarnadóttir.