10. desember 2006 | Aðsent efni | 697 orð | 1 mynd

Tangarsókn gegn fullveldi Íslands?

Jón Valur Jensson fjallar um Evrópumál og gerir athugasemd við ræðu Valgerðar Sverrisdóttur í Þjóðmenningarhúsi

Jón Valur Jensson
Jón Valur Jensson
Jón Valur Jensson fjallar um Evrópumál og gerir athugasemd við ræðu Valgerðar Sverrisdóttur í Þjóðmenningarhúsi: "Innganga í ESB væri eins og undirskrifaður, en opinn og óútfylltur víxill, tilvalinn fyrir "Brussel-býrókrata" að fylla út með sínum hætti þegar þeim þóknast."
ÞEGAR fyrir dyrum stóð að minnast 88 ára sjálfstæðis landsins tók Valgerður Sverrisdóttir upp merki síns gamla formanns með nýrri tangarsókn fyrir aðild Íslands að ESB. Tæknilega vel en hugsjónarlega illa undirbúin var ræða hennar í Þjóðmenningarhúsi 24. nóv. Ekki er nóg að sú sem fer með utanríkismálin hafi á að skipa færum "PR-mönnum", sem kunni að láta málflutninginn hljóma ísmeygilega fallega. ESB-ásókn Halldórshringsins fer Framsókn illa sem landsbyggðarflokki - og hverjum þeim flokki sem varðveita vill sjálfstæði Íslands óskert, laust við stórtækar skuldbindingar sem ella myndu svipta okkur forræði í landsins mikilvægustu málum, til langs tíma litið. (Um efnislega gagnrýni á ræðu Valgerðar vil ég benda á bráðsnjalla grein Ragnars Arnalds, formanns Heimssýnar, í Mbl. 2. des.: Stjórnmálamenn í fræðimannsklæðum. Þar kippir hann fótunum undan þeirri fráleitu fullyrðingu hins nýja utanríkisráðherra, að innganga í ESB yrði minna stökk en aðildin að EES var á sínum tíma.)

Galvösk framganga Valgerðar í nefndri "þjóðmenningarræðu" vekur ugg um að hún hyggist keyra á þetta mál með markvissum áróðri á næstu misserum. Það yrði valt að eiga fullveldi þjóðar undir þvílíkum leiðtoga sem Valgerði.

Málið er einfalt, þungvægasta atriðið þetta: Landbúnaðar- og sjávarútvegsstefna ESB er endurskoðuð reglulega á 10 ára fresti. Bandalagsheildin áskilur sér í þeim málum fyllsta vald - fer þar í reynd með fullveldið, nema aðildarríkin velji beinlínis þá leið að segja sig úr ESB. Væri Ísland þar aðili hefðum við sáralítið að segja þegar breytt skipan sjávarútvegsmála yrði borin þar undir atkvæði. Sterk hreyfing er fyrir því að afnema neitunarvald ríkjanna enda hefur þeim fjölgað að mun. Við megum því búast við afnámi neitunarvaldsins á næstu árum. Hvað tæki þá við í sjávarútvegsmálum, eftir að Noregur og Ísland gengju í ESB? Við mættum t.d. búast við þessu:

1) Að teknir verði upp heildar-veiðikvótar, fjarstýrðir frá Brussel og dregnir saman, þegar ráðherrunum þóknast (eins og fregnir bárust um vegna Miðjarðarhafsveiðikvóta, daginn eftir ræðuhald Valgerðar!),

2) Að botnvörpuveiðar verði bannaðar, með óbætanlegu tjóni fyrir okkur,

3) Að mestöll fiskimið okkar verði lýst sameign eða sameiginlegt veiðisvæði ESB-þjóða, trúlega upp að þremur mílum. Þrengingar franskra fiskimanna vegna mikils samdráttar í veiðum á Miðjarðarhafi einmitt nú munu þrýsta á um þær kröfur að þeir (100.000 sjómenn) auk Spánverja o.fl. fái óheftan eða stóraukinn aðgang að miðum annarra ESB-ríkja; samþykkt slíkra krafna verður hægt að koma um kring með einfaldri atkvæðagreiðslu í Brussel við ofangreinda endurskoðun heildarstefnunnar á 10 ára fresti.

Sem aðildarbundin bandalagsþjóð, þegar neitunarvald einstakra ríkja myndi heyra sögunni til, yrðum við upp á náð og miskunn ESB komin. Enginn fjáraustur í styrkjaformi (meðan aurar verða í kassanum), engin framþróunarverkefni sem gagnast þeim sem innundir eru, engin skjallmæli, námsstyrkir og Brusselferðir pótintáta koma í staðinn fyrir fullveldi Íslands yfir fiskveiðilögsögunni. Innganga í ESB væri eins og undirskrifaður, en opinn og óútfylltur víxill, tilvalinn fyrir "Brussel-býrókrata" að fylla út með sínum hætti þegar þeim þóknast.

Hvers vegna láta menn sér ekki skiljast þessar einföldu staðreyndir? Fari svo í framtíðinni að þjóð okkar og leiðtogar standi frammi fyrir slíkum afarkostum, eftir að Valgerður og sambandingjar hennar í hjátrúnni hefðu glutrað niður fullveldi okkar í bráðræði, er hætt við að þeir ráðamenn verði orðnir of samflæktir í valdaklíkur meginlandsins til að hafa siðferðisþrótt til að segja okkur úr bandalaginu, enda löngu búnir að gera þjóðina að ávanafíkli í styrkja- og sambræðslukerfi ESB. - Já, "hægt er að festast, bágt mun úr að víkja!" (Jón Helgason í Khöfn).

Víst yrðu okkur boðnar skaðabætur og "aðlögun" næstu 5-10 ár, sem og annar skammgóður vermir - nóg til að höfða til skammsýnis-hneigðar svo margra, er þeir stæðu frammi fyrir valkosti viðamikilla breytinga. Þar að auki yrði trúlega hluti landsmanna farinn að nota ensku í daglegu lífi í stað íslenzku og gildur hluti þeirra orðinn innflytjendur og því með harla litla taug til föðurlandsástar og þjóðhyggju bundinnar arfi okkar og menningu. Allt myndi það hefta okkur eða vængbrjóta í aðstöðunni til að taka skynsamlega, beinskeytta, sjálfstæða og trúfasta ákvörðun um að ganga úr ESB - þ.e.a.s. ef svo ólíklega færi, að málið yrði borið undir þjóðaratkvæði!

Þannig gætu meinleg örlög hindrað að sannur þjóðfrelsisvilji fengi að taka sig til flugs: Að ESB-hlekkjaðir Íslendingar gætu á ný orðið sjálfstæð og fullvalda þjóð.

Höfundur er guðfræðingur og forstöðumaður Ættfræðiþjónustunnar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.