[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ein meginreglan í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er sú, að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang. Þessi regla virðist því miður ekki ráða ferðinni. Við erum flest á klafa gegndarlausrar veraldarhyggju og drögum börnin okkar með, segir Herdís Þorgeirsdóttir prófessor.

Á Á 21. öldinni held ég að við komum til með að beina sjónum okkar í auknum mæli að börnunum og þeim aðstæðum sem þau búa við," segir dr. Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti og mannréttindum við lagadeild Háskólans á Bifröst.

"Við erum stöðugt minnt á slæmt ástand meðal stórra hópa barna, bæði á Íslandi og annars staðar, svo ekki sé minnst á þær hörmungar sem milljónir svangra, sjúkra og vanræktra barna búa við víða um heim. Það er ekki nóg vitneskja til staðar um almenn réttindi barna. Þau njóta allra sömu grunnréttinda og við samkvæmt stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasamningum. Þess utan er Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem öðlaðist gildi gagnvart Íslandi 1992, einn víðtækasti alþjóðasamningur sem til er, viðurkenning á því að börnum beri sérstök vernd og aðstoð. Það þýðir ekki að við eigum aðeins að líta á börn sem eign okkar eða andlag miskunnsemi ef eitthvað bjátar á. Þau eru verur sem hafa sama rétt og við á mannhelgi og að vera ekki mismunað á grundvelli þátta sem þau geta ekki breytt eins og kynferði, þjóðernisuppruna, kynþætti, litarhætti, efnahag, ætterni og stöðu að öðru leyti. Ein meginreglan varðandi ráðstafanir sem varða börn er sú, að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang. Þessi regla virðist því miður ekki ráða ferðinni á allt of mörgum sviðum þar sem hagsmunir barna eru í húfi. Við leggjum of mikið á börnin okkar og það má segja að oft nýtum við okkur okkar eigin réttindi á kostnað þeirra. Það er réttur þeirra að alast upp innan fjölskyldu, við hamingju, ást og skilning, til þess að persónuleiki þeirra geti mótast á heilsteyptan og jákvæðan hátt. Sumpart er afstaða okkar til barna eins og afstaða stjórnvalda fyrr á öldum til þegna áður en hugmyndir um jafnrétti allra fyrir lögum og réttarríki voru útbreiddar. Tilhneigingin er að líta á þau sem annars flokks af því að þau eru háð okkur um afkomu sína. Börn þurfa sérstaka vernd þar sem þau eru berskjaldaðri en fullorðnir fyrir ranglæti heimsins. Barnasáttmálanum er ætlað að tryggja þau réttindi sem börn þurfa til þess að þroskast, án þess að líða hungur, fátækt, vanrækslu eða ofbeldi en samningurinn felur einnig í sér þá nýju sýn að börn séu jafn mikilvæg fjölskyldu og samfélagi og aðrir og hafi réttindi og skyldur í samræmi við aldur og þroska," segir Herdís.

"Samkeppnishæf" börn

Í fimmtu umfjöllun Morgunblaðsins um spurninguna hvort Ísland sé barnvænt samfélag, sem birtist 26. nóvember síðastliðinn, benti Sigrún Júlíusdóttir prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands á, að fræðimenn víða um heim tengi siðrof og sundrungu í samfélaginu æ oftar fjölskyldunni og uppeldisskilyrðum. Hún sagði einnig að þegar samfélagsleg upplausn ríkir og börn sjá fullorðna ýmist vera gerendur eða þolendur í ofbeldi og grimmdarverkum í þeim mæli sem þau dynja nú yfir, gleymist ekki aðeins að vernda börnin heldur miðlum við þeim þá óbærilega spilltum menningararfi sem þau munu ekki eiga annars úrkosta en bera áfram, í afskiptaleysi eða hatri.

Um þetta atriði segir Herdís Þorgeirsdóttir prófessor: "Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna gengur út frá því að það sé í verkahring okkar að undirbúa börnin til að lifa sjálfstæðu lífi innan samfélagsins og ala þau upp í anda friðar, virðingar, umburðarlyndis, frelsis, jafnréttis og samstöðu. Tjáningarfrelsi barna er öðrum þræði réttur þeirra til að vera upplýst um það sem skiptir þau máli og varðar hagsmuni þeirra. Það er áberandi í samtímanum að margir foreldrar, það er að segja meðal ríkari þjóða, leggja ofurkapp á ala upp "samkeppnishæf" börn þar sem lögð er áhersla á tómstundir, íþróttir og tónlistarnám en minna á hin gildin sem þó koma til með að skipta sköpum."

Herdís segir, að mitt í hnattvæðingunni, alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og markaðs- og neysluhyggju sé mannréttindavitundin að vakna þar sem afstaðan til réttarríkisins sé sú að það sé einnig tæki til að ná fram stjórnmálalegu, félagslegu og efnahagslegu réttlæti. "Áherslan á frelsi einstaklings sem er arfur frá frönsku stjórnarbyltingunni hefur haldist en jafnframt þróast með nýjum víddum efnahagslegra og félagslegra réttinda. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur tilnefnt árið 2007 sem ár jafnra tækifæra fyrir alla, til þess að vekja fólk til vitundar um réttindi sín," segir hún.

Önnur sýn kvenna

Herdís hefur verið varaforseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga, EWLA, frá árinu 2005 og fyrr á þessu ári samdi hún yfirlýsingu fyrir hönd samtakanna um Vegvísi Evrópusambandsins til jafnréttis 2006–2011. "Í Evrópusambandinu er rík sú krafa að konum sé fjölgað í stjórnum fyrirtækja, í fjölmiðlum og í áhrifastöðum í samfélaginu öllu, ekki síst vegna þess að þær endurspegla aðra hagsmuni og sýn á veruleikann en karlar. Ástæður þess að Evrópusambandið hvetur ríki til þess að rétta hlut kvenna með sértækum aðgerðum er öðrum þræði krafa markaðarins, því mismunun hefur áhrif á vellíðan í starfi, samræmingu vinnu og heimilislífs og barneignir svo dæmi séu nefnd. Evrópa er að deyja út því margar konur treysta sér ekki til að axla meginþungann af heimilishaldi og atvinnu og vera mismunað í stað þess að vera umbunað fyrir að axla tvöfalda ábyrgð, sem er alkunn staðreynd. Það þarf að samræma skyldur gagnvart fjölskyldu og ábyrgð í starfi og dreifa ábyrgðinni á bæði kyn. Konur axla almennt meginþunga ábyrgðarinnar á heimilunum og fá lægri laun fyrir vinnu sína. Hvers eiga börnin að gjalda þegar mæður þeirra eru snuðaðar? Ef brotið er á réttindum eins, er brotið á réttindum fleiri. Samræming vinnu og fjölskylduábyrgðar þjónar þörfum viðskiptalífsins og markaðarins rétt eins og krafan um aukinn hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja. Hver fimm ár sem við bíðum eru stór hluti af þroskasögu hvers barns, ætlum við að bíða eftir heilli kynslóð áður en við leiðréttum kjör mæðra þeirra? Jafnréttissjónarmiðin þjóna þörfum barna. Þess vegna er krafa í lögum um að öll fyrirtæki af vissri stærðargráðu setji sér jafnréttisáætlanir, en þær hafa ekkert að segja nema eftirfylgni sé markviss. Lögin gera kröfu um raunverulegt launajafnrétti og virka stefnumótun á sviði samræmingar fjölskylduábyrgðar og atvinnulífs en það er enginn akkur í slíkum jafnréttisáætlunum ef þær eru aðeins fíkjublað fyrirtækjanna til að hylja nekt sína á þessu sviði gagnvart lagalegum skuldbindingum."

Berskjölduð fyrir fátækt

Fjölskyldumynstur er að breytast og mörg börn alast upp hjá einu foreldri. Það þarf að tryggja að þessu eina foreldri sé gert kleift að sinna þörfum barnsins á sem víðtækastan hátt, segir Herdís ennfremur. "Börn eru berskjaldaðri fyrir fátækt en nokkur annar þjóðfélagshópur og þrátt fyrir alþjóðlegan samning um réttindi þeirra og aukna vitund um mikilvægi þess að þeirra sé gætt, er hag þeirra hvergi nærri borgið. Börn þjást vegna fátæktar, heimilisleysis, ofbeldis og vanrækslu en fátækt er sá jarðvegur sem ofbeldi sprettur oft úr og helst þá gjarnan í hendur við vímuefna- og áfengisneyslu. Vaxandi efnamunur í samfélaginu kemur harðast niður á börnum þegar til lengri tíma er litið. Það eru ótal mörg börn í íslensku samfélagi sem búa við allt önnur kjör en skólasystkin þeirra. Þau fá hvorki tækifæri til að stunda íþróttir né tónlistarnám, fá enga hjálp við heimalærdóm, þar sem einstætt foreldri vinnur oft lengri vinnudag, og mörg þeirra komast hvorki til tannlæknis né læknis, eiga ekki hlý föt eða kuldaskó, fá ekki grænmeti eða ávexti, vítamín eða lýsi og jafnvel sjaldan heitan mat. Okkur blöskrar að horfa upp á sígaunamæður sem sitja með börn sín í fanginu daglangt og betla í göturæsum stórborganna. Hvers eiga þau börn að gjalda? Hvar liggur ábyrgð stjórnvalda í ríkjum þar sem þetta viðgengst? Og hvar liggur ábyrgð yfirvalda hér gagnvart fátækum börnum? Mörg börn þurfa að þola einelti í skólum og búa við tilfinningalegt óöryggi heima fyrir. Þau börn geta hæglega orðið skipulagðri glæpastarfsemi að bráð, þar sem eiturlyfjasalar sitja um hugsanlega neytendur strax í grunnskóla, að því er hermt er," segir hún.

Engin lögsaga

Samningar sem tryggja borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi komu fram eftir síðari heimsstyrjöld og í kjölfar þeirra fylgdu samningar sem tryggja efnahagsleg og félagsleg réttindi. Herdís segir að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ekki lögsögu hvað varðar efnahagsleg og félagsleg réttindi og því sé ekki hægt að sækja rétt sinn á grundvelli félagsmálasáttmála Evrópu. "En það er hins vegar alveg ljóst að sú athafnaskylda hvílir á stjórnvöldum að tryggja grunnréttindi barna, bæði efnahagsleg og félagsleg og það er einnig gert með því að tryggja réttindi þeirra sem ala önn fyrir þeim." Hún segir jafnframt, að samræming vinnu og heimilislífs verði ekki að veruleika nema konur séu með í ráðum: Það sé ekki nóg að vera með yfirlýsingar eða samninga sem eru ekki einu sinni dómtækir heldur þurfi að virkja sköpunarkraft kvenna við stjórnvölinn í atvinnulífinu þannig að þeim markmiðum sem stefnt er að verði náð.

Hlustum við?

Í október síðastliðnum kom út rit eftir Herdísi í alþjóðlegri ritröð um ákvæði í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, nánar tiltekið um 13. grein samningsins sem fjallar um tjáningarfrelsi barna. "Við þurfum að tryggja að sjónarmið barna fái að njóta sín, að raddir þeirra, þarfir og hagsmunir séu hafðir að leiðarljósi, að ekki sé talað yfir hausamótunum á börnum, að þau séu höfð með í ráðum og spurð.

Erum við virkilega að leggja við hlustir? Eða heyrum við hvorki né sjáum af því að við erum öll að flýta okkur? Ef til vill er kominn tími til að snúa aftur til sakleysisins á sama hátt og Rousseau sagði að við ættum að snúa aftur til náttúrunnar. Við erum flest á klafa gegndarlausrar veraldarhyggju og drögum börnin okkar með, eftir grýttri jörð og á ógnarhraða. Við berum öll ábyrgð, sama hvar við erum stödd. Öll horfumst við í augu við endalokin á einhverjum tímapunkti og þá munum við spyrja, var það virkilega þetta sem við vildum?"

Sú gagnrýni hefur komið fram að umfjöllun um langa vistun barna, vinnu beggja foreldra utan heimilis og vaxandi tilfinningalega vanrækslu sé öðrum þræði stefnt gegn konum og til þess fallin að auka samviskubit þeirra enn frekar.

"Síður en svo," segir Herdís. "Það er verið að vekja athygli á því að vandinn sem við er að etja stafar meðal annars af því að ekki er búið að útrýma kynbundinni mismunun í samfélaginu. Það eru sex meginþættir sem þarf að gefa gaum samkvæmt Vegvísi Evrópusambandsins 2006–2011: að konur séu efnahagslega jafn sjálfstæðar og karlar, það er að heimur þeirra og barna þeirra hrynji til dæmis ekki við hjónaskilnað, aukinni samræmingu vinnu og fjölskyldulífs, aukinni þátttöku kvenna við stjórnvölinn í viðskiptalífinu og samfélaginu, útrýmingu á kynbundnu ofbeldi og staðalímyndum og útbreiðslu jafnréttissjónarmiða utan Evrópu," segir Herdís Þorgeirsdóttir prófessor að síðustu.

Eftir Helgu Kristínu Einarsdóttur helga@mbl.is og Orra Pál Ormarsson orri@mbl.is

"Það sem ég held að sé kannski vandamálið núna er þetta afskipta uppeldi þar sem öllum grunnþörfum barna er sinnt og þeim veitt mjög mikið í veraldlegu tilliti," segir séra Jóna Hrönn Bolladóttir.

Sigrún Júlíusdóttir prófessor í félagsráðgjöf segir að ný áreiti og nýir valkostir valdi stöðugri togstreitu. "Valið um það hvernig við verjum tímanum er augljósast þegar það snertir náin tengsl ... Grundvallarþörf barns er að finna nálægð og umhyggju í augnaráði foreldris."

Birtist 26.11.2006.

Í könnun sem Capacent gerði fyrir Jafnréttisstofu kom fram að 90% foreldra finnst þeir stundum eða oft eiga erfitt með að samræma fjölskyldulíf og vinnu. Viðmælendur Morgunblaðsins í fjórðu greininni voru á einu máli um að stytting vinnutíma sé lykilatriði í þessu sambandi.

"Það er auðvitað margþvæld tugga en alveg jafn mikilvæg fyrir því, að vinnutíminn skiptir gífurlega miklu máli," sagði Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.

Birtist 12.11 2006.

Morgunblaðið og viðmælendur þess hafa fengið mikil viðbrögð frá lesendum við umfjöllun um spurninguna hvort Ísland sé barnvænt samfélag, en athygli vekur að erindin eru öll frá konum. Hér koma tilvitnanir í nokkur bréf.

"Takk fyrir frábærar greinar og greinaflokka. Loksins koma einhverjar sem ræða um líðan barna og hafa hagsmuni þeirra og velferð að leiðarljósi ... Ég hef annast börn frá unga aldri. Á sex systkini, er fimm barna móðir, sjö barna amma og er sérkennari sem vinn með vansæl og óörugg börn sem líður illa í látunum og margir foreldrar hafa ekki tíma til að sinna."

"Þetta stofnanauppeldi sem viðgengst í dag getur ekki verið það besta fyrir börnin. Það getur heldur ekki verið skortur á jafnrétti þegar kona velur að vera heima og hugsa um börnin sín."

"Ég er kennari og amma og hef miklar áhyggjur af velferð barna á Íslandi. Þegar ég var með ung börn valdi ég að vera heima hluta úr degi og sé ekki eftir einum klukkutíma. Ég er ekki verðlaunuð fyrir að koma góðum þegnum út í samfélagið heldur er mér hegnt fyrir það með því að skerða lífeyrinn minn."

"Þetta er mikið hitamál í mínum huga og sjálf hef ég miklar áhyggjur hvert þetta þjóðfélag stefnir varðandi börnin, sem skipta öllu máli. Ég er einmitt heima með 8 mánaða dóttur minni og hef fengið furðuleg viðbrögð frá alltof mörgum. Ertu ennþá heima? Ætlar þú ekki að fara að vinna? Ég sótti um pláss hjá dagmömmu þegar ég var komin 2 mánuði á leið o.s.frv.

Það gefa alltof fáir sér tíma til að annast börnin sín og þetta er sorgleg þróun."

"Ég er að velta fyrir mér hvort hægt sé að halda þessari umræðu áfram því hún er svo mikilvæg. Við leikskólakennarar höfum talað um þetta í nokkur ár, okkar á milli."

"Ég er ekki í vafa um að fólk les þetta vel. Það er sjaldgæft að þessi málaflokkur fái svo gott rými og svo ítarlega og faglega umfjöllun."

Efnahagslegar aðstæður hér á landi eru með því besta sem gerist í heiminum. Í því tilliti hafa íslensk börn aldrei haft það betra. Þegar kemur að tilfinningalegu atlæti getum við gert betur. Þetta kom m.a. fram í máli Ingibjargar Rafnar, umboðsmanns barna, í fyrstu grein greinaflokksins "Er Ísland barnvænt samfélag?"

"Heilt á litið held ég að við gætum bætt okkur hvað þetta varðar, sýnt börnum meiri virðingu og tillitssemi. Gefið þeim meiri tíma," sagði Ingibjörg.

Birtist 24.9 2006.

Sumir vilja meina að börn hafi sjaldan eða aldrei þjáðst af meiri depurð og að ástæðurnar séu meðal annars þær, að samfélagið þrýsti á þau að fullorðnast snemma. "Lífklukka barnsins tifar í öðrum takti en klukka samfélagsins og uppeldi krefst tíma hvers lengd ætti að ráðast af tímaskilningi barnsins, ekki hinna fullorðnu," segir Baldur Kristjánsson dósent í þroskasálfræði.

"Tilfinningaleg vanræksla barna virðist hafa færst í vöxt," segir Hrefna Ólafsdóttir félagsráðgjafi hjá BUGL.

Birtist 8.10.2006.

Ef við viljum fjölga samverustundum barna með foreldrum sínum þarf að huga að ástæðum foreldra fyrir því að vinna langan vinnudag, segir Guðný Eydal lektor í félagsráðgjöf.

"Samfélag okkar er að mínu mati mjög mikið byggt upp í kringum þarfir fullorðna fólksins og oft finnst mér eins og við tökum ekki einu sinni með í reikninginn hverjar þarfir barnanna okkar kunna að vera, ef við pældum í því væri kerfið hliðhollara þeim sem vilja bera meginþungann af umönnun barna sinna fyrstu árin," segir Eva María Jónsdóttir.

Birtist 1.10.2006.