Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson
Eftir Guðna Th. Jóhannesson, Mál og menning, 2006, 411 bls.

Kalda stríðið var, þegar öllu er á botninn hvolft, ímyndað stríð. Það var andrúmsloft og ógnvænlegur möguleiki stríðsátaka og hugsanlega gereyðingar sem leið hjá án þess að til beinna átaka risaveldanna kæmi. Kalda stríðið var háð í orðum og snerist um það sem gæti gerst fremur en það sem gerðist í raun og veru. Þó að við vitum til dæmis núna að sovésk árás á Ísland var aldrei annað en fræðilegur möguleiki þá er ekki þar með sagt ótti við slíka árás væri ekki raunverulegur og jafnvel stundum og fyrir sumum áþreifanleg og viðvarandi ógn. Í Óvinum ríkisins tekst höfundinum, Guðna Th. Jóhannessyni, að draga upp mynd af því hvernig þetta ímyndaða stríð mótaði hugmyndir valdhafa og almennings um veruleikann, hvað þyrfti að varast, hverjum væri treystandi og hver verkefni valdhafa og opinberra stofnana væru svo eitthvað sé nefnt. Viðfangsefni bókarinnar er símhleranir og kveikjan að henni upplýsingar sem höfundurinn komst yfir fyrir hálfgerða tilviljun (9). En símhleranirnar sem slíkar eru þó aðeins almenn umgjörð bókarinnar, enda lítið um þær að segja annað en að þær fóru fram og að símar tiltekinna einstaklinga og samtaka voru hleraðir. Heimildir um þær í Lögregluþingbók 249 (22, 348) vekja spurningar frekar en að svara þeim og í raun notar Guðni þessar heimildir fyrst og fremst sem tilefni til að ráðast í að skrifa sögu "innra öryggis" íslenska ríkisins á árunum 1945–1976.

Skiljanlegt en ekki þess vegna réttlætanlegt

Reyndar eru það ekki aðeins heimildir um símhleranir sem skilja lesandann eftir í spurn, heldur má segja að umfjöllun Guðna haldi áfram að róta upp spurningum. Annarsvegar eru óhjákvæmilega fjölmargar eyður í sögunni: Voru símar einungis hleraðir að fengnum dómsúrskurði eða er hugsanlegt að þær hafi farið fram án dómsúrskurðar líka? Hversu víðtækt var eftirlit lögreglu með róttækum hópum og einstaklingum? Hvaða áhrif hafði þetta eftirlit og hvaða árangur var af því? Hverjir stóðu á bak við það? Hver var vitneskjan um það innan kerfisins? Höfðu embættismenn á borð við Lögreglustjóra að mestu leyti frjálsar hendur? Guðni fjallar vissulega um þessar spurningar, en heimildir hans leiða í fæstum tilfellum til skýrrar niðurstöðu. Hinsvegar vakna spurningar um hvaða mat eigi að leggja á það sem nú er vitað um hleranir og eftirlit. Var það mikið eða lítið? Var grunur um mögulegar ólöglegar aðgerðir yfirleitt vel rökstuddur? Er öryggisstarfsemi lögreglunnar til marks um raunverulega ógn sem ríkinu stafaði af róttækum öflum innanlands? Fóru yfirvöld offari? Hvar liggja mörk pólitískra ofsókna og eðlilegs öryggiseftirlits? Guðni tekur þann pól í hæðina í flestum tilfellum að skýra aðgerðir, hvort sem um er að ræða símhleranir eða aðrar öryggisaðgerðir hins opinbera með því að velta fyrir sér þeirri ógn sem menn töldu sig vera að bregðast við hverju sinni. Þetta kemur honum oftar en einu sinni til að draga þá ályktun að tilteknar aðgerðir yfirvalda – eða viðbrögð þeirra, hafi verið skiljanleg jafnvel þó að staðreyndir málsins réttlæti þau ekki alltaf.

Ótti, ógn, andóf

Guðni skiptir bók sinni í þrjá hluta sem samsvara þremur ólíkum tímabilum í sögu innra öryggis á Íslandi. Fyrsta hlutann kennir hann við ótta, en tímabil óttans nær nokkurn veginn frá stríðslokum og til 1951 eða svo. Næsta tímabil kennir hann við ógn, en það nær frá 1951 eða þar um bil og langt fram á sjöunda áratuginn. Síðasta tímabilið nefnir hann ár andófs, en það nær til 1976. Um fyrstu tvö tímabilin hefur talsvert verið skrifað, bæði um utanríkismál og pólitík, minna um róttæklingasamtök sjöunda og áttunda áratugarins. Þessi tímabilaskipting er bæði hjálpleg og eðlileg. Fyrstu árin eftir stríð einkenndust af miklum ótta við Sovétríkin á Vesturlöndum. Valdaránið í Tékkóslóvakíu, Kóreustríðið og fleiri atburðir þessara ára gáfu tilefni til alvarlegra grunsemda um að Sovétmenn ætluðu sér meira og hér á Íslandi virðast margir hafa verið sannfærðir um að íslenskir sósíalistar myndu þegar á hólminn væri komið styðja Sovétríkin gegn eigin landi. Pólitískt eftirlit á þessum tíma kann að hafa markast af þessu og hugsanlega hafa liðsmenn þeirrar öryggisþjónustu sem eftirliti sinnti lagt Sósíalistaflokkinn að jöfnu við smáa og harðsnúna kommúnistaflokka grannríkjanna (113). Sjötti áratugurinn hefur annan blæ. Þá hefur Ísland fengið sitt varnarlið og svo virðist sem aukið jafnvægi sé komið á samskipti kerfisins og róttæklinganna í Sósíalistaflokknum og öðrum samtökum á vinstri vængnum. Eftirlitið hefur pólitískt inntak áfram og tortryggni beinist ekki síst að tengslum róttæklinga við kommúnistaríkin og fulltrúa þeirra, en þegar hingað er komið sögu virðast menn hafa gert sér ljóst að tæpast yrði um valdarán eða sovéska innrás að ræða. Þessu tímabili má segja að ljúki með Hafravatnsmálinu, þegar Íslendingur nokkur gerði lögreglunni mögulegt að grípa tvo KGB menn glóðvolga, en þeir stóðu í þeirri trú að þeir væru að semja við hann um njósnastörf (159–171). Ár andófsins eru hinsvegar gjörólík fyrri tímabilum. Þó að innra öryggi hafi vissulega snúist um að hafa hemil á samtökum róttæklinga, þá virðist eftirlitið hafa verið orðið fagmannlegra en áður var og ekki endilega pólitískt í eðli sínu. Það hvarflaði varla að stjórnvöldum að leiðtogar róttækra samtaka á árunum eftir 1968 gætu ógnað öryggi ríkisins og þaðan af síður virðast lögregluyfirvöld hafa haldið að tengsl þessara hópa við erlend öfl gætu varðað mögulega innrás eða valdaránstilraun. Hlutverk lögreglu var því að koma í veg fyrir spellvirki og óeirðir og lögreglumenn virðast ekki hafa gert mikinn greinarmun á ungum róttæklingum og venjulegum smákrimmum.

Valdamiklir frændur

Það leiðir af ofansögðu að hlutverk lögreglustjórans í Reykjavík, Sigurjóns Sigurðssonar, og Árna Sigurjónsonar, frænda hans og samstarfsmanns, verður því meira sem hreinn pólitískur ótti víkur fyrir átökum við mótmælahópa. Það verður að segjast eins og er að lýsingar á þessum valdamiklu embættismönnum eru í þynnra lagi í bókinni, en skilningur á hugsunarhætti þeirra er ekki síður mikilvægur en skilningur á hinum pólitísku átakalínum þessara ára. Í bókinni eru endurteknar þekktar staðreyndir um Sigurjón – hann hafi hneigst til nasisma á fjórða áratugnum en gerst honum fráhverfur síðar, o.s.frv. Aftur á móti er engan veginn ljóst að hve miklu leyti ráðgerðir hans, tillögur og verklag var knúið af pólitísku hlutverki sem hann taldi sig hafa eða af einhverju öðru. Sama gildir um Árna Sigurjónsson. Það er vissulega fróðlegt að heyra að maðurinn hafi reykt sterkar sígarettur og gengið með skyggð gleraugu, en gerir þó varla meira en að draga upp ákveðna staðalmynd leynilögreglumannsins.

Spjaldskráin sem brann

Það sem kannski er umhugsunarverðast við sögu innra öryggis á kaldastríðsárunum er þó sú staðreynd að um árabil var stunduð upplýsingasöfnun á vegum hinnar leynilegu öryggisþjónustu og, ef marka má orð Árna Sigurjónssonar sjálfs, þá var hlutverk hennar fyrst og fremst að fylgjast með kommúnistum (346). Spjaldskráin og upplýsingasöfnun um einstaklinga sem síðan varð tilefni til aðgerða gegn þeim eða til þess að koma í veg fyrir að þeir fengju störf eða næðu markmiðum sínum á annan hátt er auðvitað lögleysa og miklu alvarlegri hlutur heldur en stöku símhleranir. Guðni fjallar um þetta gagnasafn á nokkrum stöðum í bókinni, en þar sem það er ekki lengur til og enginn til frásagnar um það er kannski ekki mikið um það að segja.

Tilurð skrárinnar, við ráðningu Péturs Kristinssonar árið 1951 og störf Sigurjóns Sigurðssonar og systur hans Snjólaugar Sigurðardóttur að henni síðar, gefa þó ástæðu til að ætla að hlutverk hennar hafi verið nátengt varnarsamningnum við Bandaríkin og veru varnarliðsins hér. Því er líklegt að upplýsingar um Íslendinga hafi í mörgum tilfellum ratað í hendur samsvarandi eftirlitsstofnana vestanhafs og til dæmis orðið til þess að mönnum væri neitað um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna. Það er vissulega kaldhæðnislegt ef íslensk eftirlitsstofnun hefur í raun starfað sem einskonar útibú erlendrar leyniþjónustu, en kannski ekki alveg óvænt.

Á árunum 1993 til 1995 vann ég að gagnasöfnun vegna bókar um tengsl íslenskra kommúnista austur til Moskvu og gerði meðal annars margar árangurslitlar tilraunir til að afla mér upplýsinga um starfsemi KGB og GRU á Íslandi á kaldastríðsárunum. Svörin sem ég fékk hjá fulltrúum þessara stofnana voru á þá leið að engin "óeðlileg" starfsemi hefði verið stunduð á vegum þeirra á Íslandi, og þá var átt við að ekki hefði verið um innlent njósnanet að ræða. Hinsvegar kom oftar en einu sinni upp í samtölum mínum við þessa menn að þeir virtust gefa sér að á Íslandi væri starfandi leyniþjónusta. Þegar ég sagði einum þeirra að opinberlega væri ekki viðurkennt að nein slík starfsemi væri stunduð í landinu af hálfu íslenskra yfirvalda fylltist hann aðdáun yfir því að íslenskir starfsbræður hans gætu haldið slíkri leynd yfir starfsemi sinni. Annar sagði mér að almennt væri litið svo á að íslenska leyniþjónustan væri aðeins starfsstöð hinnar bandarísku. Staðhæfingar af þessu tagi segja manni svo sem ekki mikið, en það er kannski ekki úr vegi að láta þær flakka hér án ábyrgðar.

Hyggindi eða hégómleiki?

Guðni gefur í skyn í bók sinni, og sama hefur Þór Whitehead gert í grein í tímaritinu Þjóðlífi , að vonir Sigurjóns Sigurðssonar um að hann fengi embætti hæstaréttardómara hafi orðið til þess að hann lét árið 1976 brenna spjaldskrána og öll gögn um íslenska kommúnista og aðra róttæklinga sem safnað hafði verið í aldarfjórðung. Það er dálítið skringileg skýring að hégómleiki mannsins hafi ráðið ferðinni í því að afráðið var að eyða þessum gögnum. Einhvernveginn finnst manni líklegra að almenn hyggindi hafi ráðið ferðinni. Þrátt fyrir allt var óttinn við kommúnista að miklu leyti horfinn þegar þetta var og lögreglustjórinn hlýtur að hafa gert sér grein fyrir því að fyrr eða síðar yrði uppvíst um upplýsingasöfnunina. Það þarf því ekki embættisdrauma til að menn ákveði að eyða slíkum gögnum. Áhugaverðara væri hinsvegar að vita hvort lögreglustjóri gat upp á sitt eindæmi ákveðið þetta, eða hvort fleiri komu að þeirri ákvörðun. Eins væri fróðlegt að sjá hver breytingin varð á starfseminni við eyðingu gagnanna, og hvort öryggisþjónustan sjálf brann til ösku með þeim, eða hvort hún var skilgreind upp á nýtt og þá hvernig.

Innrás síldveiðiflotans

Í fyrsta hluta bókarinnar segir Guðni frá ótta Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra við mögulega innrás Sovétmanna sumarið 1950. Það var sovéskur síldarfloti fyrir norðan landið sem olli þessum ótta Bjarna, en menn grunaði að síldveiðar Rússa á þessum slóðum væru yfirvarp. Raunverulegur tilgangur flotans, sem kom í fylgd fjögurra móðurskipa væri annaðhvort upplýsingasöfnun eða undirbúningur innrásar. Þótt breskir og bandarískir hernaðarsérfræðingar teldu innrás útilokaða með öllu starfaði ímyndunarafl íslenskra ráðamanna og embættismanna og varð ekki friðað fyrr en Bandaríkjamenn féllust á að senda tundurspilla til að fylgjast með sovéska síldarflotanum (115–116).

Þessi kostulega saga segir manni margt um andrúmsloft kalda stríðsins. Það er mikilvægt að gleyma því ekki að sá ótti sem andstæðingar sósíalista fundu fyrir var enginn fyrirsláttur, það var raunverulegur ótti. Hafi menn viljað láta njósna um sósíalista þá var það ekki endilega til að koma þeim á kné í pólitík heldur vegna þess að menn grunuðu þá um græsku. Og þótt á síðustu árum hafi komið í ljós að samskipti sósíalista við Moskvuvaldið snerust að mestu leyti um viðskipti, fjárframlög og heimsóknir til Sovétríkjanna á þessum árum þá má ekki gera lítið úr ótta andstæðinga þeirra.

En sagan af síldarflotanum er líka ágætt dæmi um það hve illa íslenskir ráðamenn bjuggu að upplýsingum og greiningu á aðstæðum. Bjarni Benediktsson hafði engar forsendur til að meta hvort hætta væri á innrás Sovétmanna 1950 og því kann hugmyndaflugið að hafa ráðið ferðinni. Íslendingar höfðu á þessum árum lítinn aðgang að upplýsingum frá leyniþjónustum erlendra ríkja og voru því í raun háðir því að geta treyst bandamönnum sínum fullkomlega, en það setur menn augljóslega í óþolandi þrönga stöðu. Það er hinsvegar grátbroslegt ef þessi skortur á "greiningardeild" árið 1950 hefur aðallega orðið til þess að viðamikil upplýsingasöfnun hófst um einstaklinga, frekar en að Íslendingar kæmu sér upp sérfræðingum sem færir væru um að meta öryggishagsmuni og fjalla um öryggis-, varnar- og hernaðarmál.

Bók Guðna Th. Jóhannessonar er bæði vandað rit og greinargott og honum tekst sem fyrr segir að gera andrúmslofti kalda stríðsins góð skil innan ramma umfjöllunar sinnar um símhleranir. Honum tekst líka að halda umfjöllun sinni yfirvegaðri og hann leggur sig fram um að skilja alla aðila sem atburðum tengjast. Óvinir ríkisins ætti að vera skyldulesning þeirra sem vilja taka þátt í pólitískri umræðu, ekki svo mjög vegna þeirra tilteknu upplýsinga sem þar er að finna, heldur vegna þess að Guðna tekst að gefa sannfærandi mynd af hinum ímyndaða veruleika kalda stríðsins og um leið gera lesandanum kleift að skilja hinar fjölmörgu þversagnir þess.

Jón Ólafsson